Strandapósturinn - 01.06.2012, Blaðsíða 37
37
Það var snemma sumars árið 1948, að við tvær átján ára skólapíur
stóðum á hlaðinu á Staðarfelli í Dölum og vorum að kveðja
skólann okkar, þar sem við höfðum dvalist síðastliðinn vetur og
unað okkur vel. Nú var nefinu snúið heim á leið, með eftirtekju
vetrarins, allar töskur troðfullar af handavinnu sem seinna meir
mundi setja sinn svip á væntanleg heimili okkar. Ætlunin var
síðan að freista gæfunnar á ókomnum slóðum, og halda austur
í Þingeyjarsýslu og vinna þar á sumarhóteli. Þrjár kennslukonur
höfðu verið búnar að ráða sig þar, en tvær svo gengið úr skaftinu,
og við hlaupið í skarðið þar sem heima beið ekkert sérstakt, mín
aðeins frystihúsið og svo síldin ef einhver yrði, en Veigu ekkert
nema að vera heimasæta og láta sér leiðast. Ég réði mig sem
bakara 18 ára, þvílík bjartsýni, en Veiga í uppvask.
Kennslukonan sem með okkur átti að vinna var tvítug seyðfirsk
kvinna. Hörkudugleg, eins og sjá má af því að hún náði í fjósamann
Staðarfells framan við nefið á okkur 27 meyjum skólans og var
búin að koma dreng í hnapphelduna um skólaslit. Litum við
mjög upp til hennar fyrir þetta fádæma afrek og hlökkuðum til
samvistanna um sumarið.
Já, ferðin hófst þarna á hlaðinu á Staðarfelli með því að við
stigum inn í olíubíl sem var á suðurleið. Sögðu strákarnir, sem
óku honum, okkur að engar áætlunarferðir væru vestur í
Strandasýslu um Dali og Steinadalsheiði eins og verið hafði, nú
væri farið út með Hrútafirði og fólkið ferjað yfir Kollafjörð þar
sem annar bíll tók á móti því og flutti það til Hólmavíkur. Ekki
Magnea Magnúsdóttir
Sumarið
1948