Strandapósturinn - 01.06.2012, Blaðsíða 47
47
Rúmum hálfum mánuði seinna kom allt dótið með Skjaldbreið,
og peningarnir lágu óhreyfðir í umslögunum efst í töskunni, ekki
þætti þetta mikið fé nú, því ég væri rúma þrjá tíma að vinna fyrir
þessu þriggja mánaða kaupi mínu þá og hefði þó styttri vinnutíma.
En eins og krakkarnir mínir segja stundum við mig, það er ekki
að marka, þetta gerðist í hundgamla daga, þegar þú varst ung,
árið 1948.
Má af þessu sjá að heiðarlegir voru þeir Akureyringar í þá daga
eða kannski engum þeirra hafi dottið í hug að gömul trétaska
bundin aftur með snærisspotta gæti haft nokkuð fémætt að
geyma, og það var okkar lán.
Ég er stundum að hugsa um hve bágt þetta blessað unga fólk á
nú til dags, sem getur veitt sér flesta hluti, en virðist þó varla
nokkurn tíma vera verulega hamingjusamt og glatt, en jafnaldrar
mínir áttu ótal gleðistundir, þó ekki væru auraráðin alltaf mikil
og stundum engin, lífið var bara svo yndislegt.
Að lokum eru hér tvær vísur sem við fengum sameiginlega frá
einum kostgangaranum á Laugum þetta sumar og líkaði
afbragðsvel allt það er ég bakaði ofan í þá strákana og gesti og
gangandi, er um Reykjadalinn áttu leið.
(Lag: Tondeleio.)
Ég fann þig á kyrrlátu kveldi,
þú komst til að bæta mér tjón.
Og mæltir með örgrun í orðum:
hvar er nú bíllinn og Jón,
Hallur og Holtakots Jón.
Magnveiga mín, Magnveiga mín.
Næturlangt fékk ég að njóta
og unna,
í næði hjá dimmgrænum
þingeyskum runna.
Magnveiga, Magnveiga mín.
Ég man eftir miðjan ágúst
ég mætti þér norðan við pól,
er kveldvarmar kinnar þínar
kysstu hnignandi sól.
Þú mæltir: við skulum í skjól.
Magnveiga mín, Magnveiga mín.
Nú lyngið er farið af berjum
að blána,
í bollanum handan við
Reykjadalsána.
Magnveiga mín, Magnveiga mín.