Hugur - 01.01.2019, Blaðsíða 33
Heimspeki innan tilvitnanamerkja? 33
Sagnfræðingur túlkar yrðingar. Hvers konar yrðingar? Maður gæti rannsakað
notkun orðsins „πρᾶγμα“ í Aristótelesi eða smáorðsins „καί“ hjá stóumönnum.15
Maður gæti svo sannarlega tekist á hendur málvísindalega rannsókn í tengslum
við hvaða orð eða yrðingu í texta hvaða heimspekings sem er; og í flestum þannig
tilfellum gæti maður, án þess að rembast allt of mikið, talað um túlkun á orðum
heimspekingsins. En túlkanir af því tagi er ekki hægt að tjá með kórgerðinni; og
raunar varðar spurningin sem vekur áhuga minn hér einungis, eða í það minnsta
öðru fremur, túlkun setninga: túlkun yrðinga með hverjum maður gæti sagt eitt-
hvað með því að mæla þær fram.
***
Ég sagði að sagnfræðingur sem túlkar forna heimspekitexta fengist við það sem
var hugsað og sagt fyrir löngu síðan. Í þessu samhengi jafngildir það að segja
eitthvað því að tjá einhverja hugsun. Ef ég segi „x segir að P“, þá ætla ég mér alla
jafna að segja frá fullyrðingu sem x hélt fram og að P sé í þessum skilningi ein leið
til að tjá þá hugsun að P. En það eru til aðrar leiðir: spurning, beiðni, fyrirskipun,
tilgáta, hvatning, loforð … með öllu þessu er maður inter alia16 að tjá hugsun.
Kórgerðinni „Með því að segja E tjáir x þá hugsun að P“ er ætlað að gilda um allar
þessar ólíku tjáningarleiðir hugsunar – tjáningarleiðir sem gætu – en þurfa ekki
að – endurspeglast í málfræðilegu formi yrðingarinnar E.
Sagnfræðingar sem fást við fornaldarheimspeki eru auðvitað að fást við hugsun
– eða öllu heldur hugsanir: þeir eru að fást við hugsanirnar sem ein eða önnur
yrðing tjáir. Þeir eru að fást við hugsanir en þeir eru ekki að fást við skoðanir.
Þegar túlkandi hefur komist að raun um að með því að segja E hafi x tjáð þá
hugsun að P (og hafi tjáð hana á ákveðinn hátt, til dæmis fullyrt hana), þá mun
hann sannarlega oft hneigjast til þess að álykta að x hafi verið þeirrar skoðunar
að P. Allir heimspekisagnfræðingar segja hluti á borð við „Krýsippos taldi að …“
eða „Plótínos var sannfærður um að …“ og sumir sagnfræðingar vilja að slíkt sé
tekið au pied de la lettre.17 Það er að sjálfsögðu ekkert fáránlegt eða óviðeigandi við
að hafa ástríðufullan áhuga á hugarástandi dauðra heimspekinga. En þessi áhugi
tilheyrir ævisöguritaranum en ekki heimspekisagnfræðingnum. Spurningin um
skoðanir varðar ekki túlkun fornra heimspekitexta og ekki heldur – að því er ég
fæ séð – heimspekisöguna. Parmenídes tjáði þá hugsun að maður geti ekki hugsað
um neitt nema það sé til. Það er sláandi hugsun. Þetta er heimspekileg hugsun og
hún á heima í sögu heimspekinnar. Hélt Parmenídes því fram að maður geti ekki
hugsað um neitt nema það sé til? Hélt hann að maður geti ekki hugsað um neitt
nema það sé til? (Hélt hann til dæmis að enginn Grikki hefði nokkurn tímann
hugsað um Seif ?) Þetta eru spurningar sem við getum trauðla svarað. En þær eru
ævisögulegar spurningar og svarið við þeim skiptir engu máli um túlkun eða mat
á heimspeki Parmenídesar.
15 [Grísku orðin πρᾶγμα og καί þýða „hlutir“ og „og“ (Þýð.)]
16 [Meðal annars (Þýð.)]
17 [Bókstaflega (Þýð.)]
Hugur 2019-Overrides.indd 33 21-Oct-19 10:47:03