Hugur - 01.01.2019, Blaðsíða 99
Að læra að vera frjáls 99
útgáfu samrýmist hins vegar viðurkenningu á því að menn séu breyskir og geri
ýmislegt gegn betri vitund.33
Í seinni hluta kaflans um sjálfstjórn í annarri útgáfu Ritgerðarinnar rökræðir
Locke möguleika manna á að láta skynsemi ráða því hvað gerir þeim órótt og
hvað ekki. Einkum beinir hann athyglinni að möguleikum hugans á að fresta því
að uppfylla langanir sínar. Um þá möguleika segir hann meðal annars:
Í þessu virðist fólgið það sem er (að ég held með óheppilegu orðalagi)
kallað frjáls vilji. Því, meðan því er frestað að fullnægja löngun, áður en
viljinn ákvarðar athöfn, og athöfnin (sem fylgir ákvörðuninni) er fram-
kvæmd, þá gefst tækifæri til að rannsaka, skoða og dæma um hvað gott
og hvað illt felst í því sem við erum í þann mund að gera; […] og það er
ekki ágalli á náttúru okkar, heldur fullkomnun, að langa, vilja og breyta í
samræmi við lokaniðurstöðu úr heiðarlegri athugun.34
Því fer svo fjarri að þetta hindri eða minnki frelsi okkar, að þetta er þvert
á móti það sem bætir það og lætur það orka til góðs; það er ekki skerðing
á frelsinu heldur það sem gefur því tilgang og notagildi; því meira sem
á vantar að við stjórnumst með þessum hætti, þeim mun meiri er eymd
okkar og ánauð. […] það er jafn mikil fullkomnun í því fólgin, að löngun
og mátturinn til að taka eitt fram yfir annað stjórnist af því hvað gott er,
eins og í því að máttur til athafna stjórnist af viljanum; og því öruggari
sem þessi stjórnun er, þeim mun meiri er fullkomnunin. Ef við stjórn-
uðumst af öðru en lokaniðurstöðu eigin hugar, sem dæmir um hvað gott
og hvað illt felst í hverri athöfn, þá værum við ekki frjáls.35
Þótt Locke hafni því að vilji manns sé frjáls í bókstaflegum skilningi, heldur hann
fram kenningu um innra frelsi sem kemur í staðinn fyrir frjálsan vilja og talar því
um tvenns konar frelsi. Önnur gerðin er í því fólgin að geta gert það sem maður
sjálfur vill og hin er í því fólgin að vilji manns stjórnist af hans eigin skynsemi. Til
að vera fyllilega frjáls þarf sem sagt tvennt að koma til: að viljinn stjórni verkunum
og að vitið stjórni viljanum. Locke heldur þó fast við það að stjórn viljans þýði
ekki að menn taki ákvörðun að vild um hvað þeir skuli vilja, enda leiðir það til
vítarunu. Hún þýðir fremur að menn geti tamið sér venjur sem verða til þess að
sá óróleiki sem knýr fastast á leiði til breytni sem er í samræmi við skynsamlegt
mat á hvað er til góðs.
Sumt í vangaveltum Lockes um þessi efni er óljóst og torskilið. Það er til dæmi
ekki skýrt hvort og hvernig menn geta tekið ákvörðun um að fresta því að láta
undan löngun. Samuel C. Rickless telur að Locke hafi álitið hverja frestun vilja-
verk sem er knúið fram af einhverjum óróleika.36 Þessi túlkun kemur til greina
og hún er leið til að komast hjá þeirri vítarunu sem við blasir ef gert er ráð fyrir
33 Chappel 2007, Magri 2000.
34 Locke 1959: II:xxi:§48.
35 Locke 1959: II:xxi:§49.
36 Rickless 2013.
Hugur 2019-Overrides.indd 99 21-Oct-19 10:47:07