Hugur - 01.01.2019, Blaðsíða 105
Að læra að vera frjáls 105
Þverstæða siðferðilegs uppeldis – lokaorð
Vandamálið sem Peters (1974) reifaði felst í því að skýra hvernig það má vera að
uppeldi sem aðrir stjórna leiði til sjálfstjórnar eða, svo notað sé orðalag Peters,
„hvernig börn komast inn í höll skynseminnar ef leiðin þangað liggur um garð
venju og siðar“.57 Kristján Kristjánsson hefur fjallað um þessa ráðgátu og komist
að þeirri niðurstöðu að allar kenningar um siðferðisþroska sem sverja sig í ætt við
siðfræði Aristótelesar standi frammi fyrir sama vanda og Peters reifaði.58 Þótt
Aristóteles hafi lýst getu manns til að láta stjórnast af eigin skynsemi svo, að
hún yrði ekki til nema aðrir stjórnuðu honum framan af ævi og innrættu honum
réttar venjur, útskýrði hann ekki hvernig menn öðluðust skynsamlega sjálfstjórn
við það að vera stjórnað af öðrum – hvernig ósjálfstæði gæti alið af sér sjálfstæði.
Kristján Kristjánsson sem manna mest hefur ritað um siðferðilegt uppeldi í anda
Aristótelesar segir að þótt við vitum að þetta gerist með einhverjum hætti, vanti
ítarlega greinargerð fyrir því hvernig þetta gerist og þeir eftirmenn Aristótelesar
sem fjalla um siðferðilegt uppeldi hafi lítið gert til að fylla í þessa eyðu í kenn-
ingum hans.59
Hvorki Peters né Kristján nefna Locke í þessu sambandi. Hann er þó líklega sá
heimspekingur sem hefur fjallað um efnið af mestri skarpskyggni. Kenning hans
um venjur sem gera mönnum mögulegt að ná skynsamlegri stjórn á eigin vilja er
að minnsta kosti athyglisverð tilgáta um mögulega lausn á umræddu vandamáli.
Hún samrýmist vel aristótelískri dygðasiðfræði af því tagi sem mest ber á nú um
stundir í skrifum um siðferðilegt uppeldi og Kristján Kristjánsson fjallar um í
bókum sínum60 enda átti Locke að mörgu leyti samleið með Aristótelesi eins og
Leibniz benti raunar á fljótlega eftir að Ritgerðin kom út.61
Nokkrum árum áður en Locke lauk þeim þrem verkum sem hér hefur verið
fjallað um – annarri útgáfu Ritgerðarinnar, Skilningsgáfunni og Menntamálunum
– skrifaði hann Tvær ritgerðir um ríkisvald (Two Treatises of Government). Í því
verki fjallaði hann meðal annars um náttúrlegt frelsi mannsins og segir að það feli
í sér að „vera frjáls undan öllum jarðneskum yfirvöldum“.62 Hann gerir samt ráð
fyrir að börn lúti stjórn foreldra sinna sem „hafa viss yfirráð yfir þeim er þau koma
í heiminn og um nokkurt skeið á eftir“.63
Þannig erum vér borin frjáls eins og vér erum viti borin, þó svo að vér
njótum hvorugs frá fæðingu, heldur veitist oss það hvort tveggja með
aldrinum. Vér getum því vel séð hvernig náttúrlegt frelsi samrýmist
undirgefni við foreldra …64
57 Peters 1974: 272.
58 Kristján Kristjánsson 2007: 31–47.
59 Kristján Kristjánsson 2013: 277.
60 Kristján Kristjánsson 2007, 2013, 2015, 2018.
61 Leibniz 1981: 47.
62 Locke 1993b: §22.
63 Locke 1993b: §55.
64 Locke 1993b: §61.
Hugur 2019-Overrides.indd 105 21-Oct-19 10:47:07