Hugur - 01.01.2019, Blaðsíða 75
Kennisetning Plótinosar um efnið sem frumbölið í Níund I.8 (51) 75
til að kalla það slæmt. Ef það hefur enga eiginleika getur það ekki haft neina
slæma eiginleika. Ef það gerir ekkert, getur það ekki gert neitt slæmt af sér.18
Hér sjáum við andmælin þrenn sem áður voru rakin kristallast í röð nátengdra
hugsana. Próklos og Opsomer reyna að ýta Plótinosi í valþröng: hann verður að
velja á milli þess að hið Góða leiði af sér böl sem í meginatriðum lýtur að efninu
(með fáránlegum afleiðingum) og viðurkenna að efnið hafi enga eiginleika sem
gera því kleift að framkvæma nokkuð, þar með enga slæma eiginleika, og þar með
sé engin ástæða til að kalla það slæmt eða böl. Í því sem á eftir fer mun ég reyna
að útskýra helstu atriðin í kenningu Plótinosar um böl í I.8., „Hvað eru mein og
hvaðan koma þau?“, og um leið ræða og bregðast við þeim mótbárum sem áður
eru nefndar.
Merkir „ekki gott“ það sama og „slæmt“?
Í sumum hversdagslegum tilvikum virðist vissulega rökrétt að hafna því að
„slæmt“ leiði af „ekki góðu“. Tökum til dæmis mann sem um er sagt að hann sé
alls ekki góð manneskja, í siðferðilegum skilningi – það er ekkert við hann sem er
tiltakanlega lofsvert, siðferðilega séð – en hann getur varla talist slæmur heldur,
að minnsta kosti ekki í merkingunni „illur“. Við gætum frekar sagt að þessi maður
sé meinlaus, ekki slæmur en heldur ekki góður. Með öðrum orðum leiðir hér
„slæmt“, hvað þá illt, ekki endilega af „ekki góðu“. Í öðrum tilvikum, hins vegar,
getur svo virst sem „slæmt“ leiði af „ekki góðu“. Ímyndum okkur bifvélavirkja sem
er alls ekki góður í störfum bifvélavirkja. Hann hefur engar af þeim dyggðum sem
við eignum góðum bifvélavirkjum: ómögulegur í að finna út úr því hvað amar að
bílnum, seinvirkur og innir verk sitt slælega af hendi í þokkabót. Þetta er fyrir-
myndardæmi um slæman bifvélavirkja.
Nú gæti einhver bent á að auðvitað eru til bifvélavirkjar sem eru bara í meðal-
lagi: ekki beint góðir, en ekki heldur afleitir. Sýnir það ekki fram á að jafnvel í
tilviki gæða sem, gæða miðað við sína tegund, leiðir „slæmt“ ekki af „ekki góðu“?19
Ég myndi svara því til að ef meðalbifvélavirkjann okkar skortir alveg einn af þeim
eiginleikum sem einkenna góðan bifvélavirkja, þá er hann slæmur í þeim hluta
iðnar sinnar, en bætir það upp með því að hafa aðra eiginleika sem eru til góðs.
Eða hann kynni að vera síður gæddur einhverri dyggð á sviði bifvélavirkjunar en
æskilegt væri: hann ber rétt kennsl á bilunina í bílnum í t.d. 80% tilvika en stendur
sig illa í 20%. Hann er góður bifvélavirki að því marki sem hann nær árangri.
Að því leyti sem honum mistekst, þar sem góðum bifvélavirkja tækist betur til,
er hann slæmur bifvélavirki. Freistandi er að alhæfa: þegar um er að ræða gæði
miðað við viðkomandi tegund, það að vera góður sem eitthvað, þá er skortur á
eiginleikunum, sem veran sem um ræðir þarfnast til að teljast góð miðað við sína
tegund, það sem gerir hana slæma eða lélega sem það tiltekna fyrirbæri.20
18 Sama heimild.
19 Varðandi gæði miðað við viðkomandi tegund: sjá Georg Henrik von Wright (1963): 19–20.
20 Sjá von Wright (1963): 23.
Hugur 2019-Overrides.indd 75 21-Oct-19 10:47:05