Hugur - 01.01.2019, Blaðsíða 71
Kennisetning Plótinosar um efnið sem frumbölið í Níund I.8 (51) 71
skaðar okkur né veldur það okkur iðrun, áhyggjum eða syndum. En samt sem
áður er það, samkvæmt Plótinosi, rót allra þessara kunnuglegu meina.
Sé málið skoðað frá almennu sjónarhorni og innan kerfis Plótinosar ætti
kannski ekki að koma á óvart að efnið sé hið slæma sjálft: efnið er á botninum, hið
Góða (hið Eina) er á toppnum á stigveldisskiptri mynd Plótinosar af veruleik-
anum. Þetta eru sem sagt öndverðu pólarnir og í kerfi Plótinosar og samkvæmt
honum sjálfum vissulega andstæður (I.8.6).3 Þó er ekki þar með sagt að efnið sé
slæmt, því eins og við munum sjá, þá er Próklos, sem hafði í grundvallaratriðum
sömu heimspekilegu sýn og Plótinos, ósammála því. Hann hafnar því að efnið sé
andstæða hins Góða og að efnið sé slæmt.
Áður en við förum út í smáatriðin í kennisetningu Plótinosar um efnið sem hið
slæma og ágreiningsefni þeirra Próklosar þar að lútandi, skulum við íhuga málið
í víðara samhengi. Það sem oft er kallað vandi hins illa, e. the problem of evil en
réttara væri að kalla bölsvandann, er ráðgáta sem sprettur upp innan kristinnar
(íslamskrar, gyðinglegrar og persneskrar) guðfræði: Ef heimurinn var skapaður af
velviljuðum, almáttugum og vitrum guði, hvernig getum við þá gert grein fyrir
þeirri staðreynd að heimurinn virðist langt í frá fullkominn, raunar fullur af böli?
Sjá má tilbrigði við þessa spurningu í fornri, heiðinni hugsun. Þess verður fyrst
vart af fullum þunga í stóuspekinni: stóuspekingar trúðu því að allt sem gerist sé
verk útsjónarsams logos sem fyrir þeim var Seifur. Þeir veita tvenns konar skýr-
ingar á því sem virðist ógeðfellt við heiminn: flest af þessu sem virðist vont, eins
og fátækt, slys, veikindi og dauðsföll, er í rauninni alls ekki slæmt þótt fáfróðum
og spilltum sálum kunni að sýnast svo. Í öðru lagi hafa mannverur frelsi: vegna
þess að við búum yfir skynsemi er það á okkar valdi að taka réttar ákvarðanir
og móta með okkur góða skapgerð, sem tryggir okkur hamingju. Þetta frelsi er
ein af þeim guðsgjöfum sem Seifur gaf okkur af forsjón sinni. Ef við misbeitum
frelsinu getum við ekki áfellst Seif, heldur verðum að áfellast okkur sjálf.4 Eftir
því sem ég kemst næst eru flest kristin svör við þessu vandamáli tilbrigði við þessi
tvö stóísku svör. Það að snúa sér frá guði af fúsum og frjálsum vilja, sem kristnu
fólki verður tíðrætt um í tengslum við fall Lúsífers og fyrstu synd mannanna í
aldingarðinum Eden, felur í raun í sér afbrigði af síðarnefnda stóíska svarinu.
Í þessu sambandi er platonistum fornaldar sérstakur vandi á höndum, því líkt
og svo margt annað áhrærir er enga ítarlega, kerfisbundna umræðu um eðli hins
slæma að finna hjá Platoni. Hins vegar má finna ýmsar mikilvægar málsgreinar
og ummæli hjá Platoni, sem fylgismenn Platons í fornöld þróuðu nánar.5 Hér
skiptir túlkunin á Tímæosi Platons auðvitað höfuðmáli. Platon stillir fram ver-
3 Í 6. kafla I.8. færir Plótinos rök fyrir því að hið Góða og efnið séu andstæður. Í því felst að kynna
til sögunnar víðari skilning á „andstæðu“ en gert er ráð fyrir í Kvíum 5 eftir Aristóteles: samkvæmt
Aristótelesi hefur frumveran (ousia) enga andhverfu. Plótinos virðist skilja þetta sem svo að þar
með sé gefið í skyn að það sem er handan verunnar, þ.e. hið Góða, geti heldur ekki átt sér and-
hverfu samkvæmt Aristótelesi. Gegn þessu færir Plótinos rök og kemst að þeirri niðurstöðu að
„hlutir, sem eru alveg aðskildir og annar þeirra ber í sér andhverfu hvers þess sem er uppfylling
verunnar í hinum, hljóta að vera allra mestu andhverfur ef með andhverfum er átt við hluti sem
eru sem ólíkastir hvor öðrum“ (I.8.6, 38–41; sbr. Aristóteles, Kvíarnar. 6. 6a17–18).
4 Sjá Michael Frede (2011), 5. kafla, varðandi þessa hlið á stóuspeki.
5 T.d. Platon, Þeaít. 176, Rep. 379c, 617e, Tim. 29e–30a.
Hugur 2019-Overrides.indd 71 21-Oct-19 10:47:05