Hugur - 01.01.2019, Blaðsíða 130
Hugur | 30. ár, 2019 | s. 130–147
Elmar Geir Unnsteinsson
Hvað er þöggun?
Inngangur
Kynhlutverk og staðalímyndir vekja gjarnan upp hugsanir um heiminn sem ein-
bert leikhús, þar sem allir hafa sitt félagslega hlutverk. Segja mætti að samfélagið
sjái fólki fyrir handriti sem útlistar boð og bönn fyrir hvert tækifæri, þar sem kyn
og kyngervi skipta höfuðmáli. Ef þú lítur út fyrir að vera kona, málaðu þig; ef karl,
opnaðu dyrnar; o.s.frv. Mikilvægt er að benda á, líkt og femínistar hafa löngum
gert, að handritið getur verið kúgunartæki. Til dæmis má hugsa sér samfélag þar
sem handritið mælir ótvírætt fyrir um að engin kona geti raunverulega ætlað sér
að hafna boði um kynmök og mótmæli þeirra hljóti því alltaf að vera eins konar
sviðsetning, svo þær líti ekki út fyrir að vera lauslátar, druslur, eða eitthvað slíkt.
Í þannig samfélagi mætti leiða rök að því að einlægar tilraunir kvenna til að tjá
höfnun sína á kynlífstilboðum séu í rauninni ómögulegar, slíkar tilraunir fengju
aldrei að vera tjáningar á höfnun. Ætti andspyrnan að bera nokkurn árangur yrði
konan að beita undanbrögðum eða jafnvel líkamlegu afli gegn hinum mögulega
rekkjunaut, fremur en að gera aumar tilraunir til að eiga í samskiptum.
Sumir heimspekingar hafa haldið því fram að svona megi lýsa mörgum sam-
félögum nú á dögum og, nánar tiltekið, að framleiðsla, dreifing og neysla kláms
vegi þungt í tilurð og varðveislu samfélagshandrita þar sem kvenhlutverkin úti-
loka það alfarið að kynlíf geti verið einlæglega afþakkað. Á þessum grundvelli
hafa femínískir heimspekingar þróað svonefnd „málfrelsisrök gegn klámi“. Hug-
myndin er sú að ef klám getur sett málfrelsi kvenna skorður með því að gera það
að verkum, t.d., að tilraunir þeirra til að hafna tilboði um kynlíf eru þaggaðar
niður, þá eigi að ritskoða, banna eða takmarka aðgang að klámi með einum eða
öðrum hætti (West 2003). Konur hafa sama rétt og aðrir til tjá skoðanir sínar og
langanir án þess að sæta hömlun sem virðist ekki hafa neina réttlætingu.
Vitanlega er hugmynd heimspekinganna ekki sú að klám þaggi niður í konum
í þeim skilningi að þær beinlínis tali ekki. Ýmis viðmið eða óskráðar reglur geta
þó haft þau áhrif, til dæmis ætlast fólk til þess að ekki sé talað við útfarir eða á
Hugur 2019-Overrides.indd 130 21-Oct-19 10:47:09