Andvari - 01.01.2017, Síða 11
10 GUNNAR F. GUÐMUNDSSON ANDVARI
Þorvaldur Bjarnarson, prestur að Melstað í Miðfirði. Björn var næst-
elstur fjögurra barna þeirra Þorsteins og Þuríðar. Elst var Helga, síðar
húsfreyja á Bessastöðum í Miðfirði, en yngri voru Gyðríður (Gyða),
húsfreyja í Hafnarfirði, og Högni sem lést ungur við nám.1
Björn Þorsteinsson sleit ekki barnsskónum í Flóanum, því að fjöl-
skyldan fluttist brátt yfir í Rangárþing þar sem faðir hans ætlaði sér
að verða „stórbóndi á mikilli jörð“ og keypti hann jörðina Vetleifsholt
í Ásahreppi. En búskapur þar reyndist Þorsteini ekki eins happa-
sæll og vonir stóðu til, grasnytjar rýrar auk þess sem hann, að eigin
sögn, lenti í klóm svikulla manna sem höfðu út úr honum fé. Á sama
tíma skildi hann við konu sína, og sneri hún aftur til fyrri heimkynna
norður í landi, en Björn sonur þeirra var sendur í fóstur til Kristjáns
Kristjánssonar og Guðrúnar konu hans í Efri-Gróf í Flóa.2 Þau Kristján
og Guðrún urðu síðar tengdaforeldrar Þorsteins.3
Sumarið 1925 varð Þorsteinn fyrir því áfalli að missa heilsuna við að
hlaða ásamt fleiri mönnum varnarvegg fyrir Djúpós í Rangá sem átti
það til að flæða út á Safamýri og valda þar miklum búsifjum. Honum
var því nauðugur einn kostur að bregða búi og fylgja ráði Guðmundar
Hannessonar læknis um að halda sig frá erfiðisvinnu næstu tvö árin.4
Þá brá hann á það ráð að hefja viðskipti með sláturfé og annan varn-
ing fyrir bændur og útvega þeim síðan í heildsölu ýmsar nauðsynjar úr
kaupstað. Til þess keypti hann landspildu við brúarsporð Ytri-Rangár
og reisti þar fyrstu húsin. Þetta var upphafið að kauptúninu Hellu
árið 1927. Björn kom aftur heim úr vistinni í Efri-Gróf og var eftir
það næstu árin hjá föður sínum og stjúpmóður, Ólöfu Kristjánsdóttur.
Samhliða versluninni rak Þorsteinn búskap á nýbýlinu Heiðarbrún í
landi Árbæjar handan ár. Fleiri börn bættust smám saman við á heim-
ilinu, hálfsystkini Björns: Sigurður, Kristín og Sigríður.5
Verslun Þorsteins á Hellu gekk í fyrstu bærilega, en á kreppuárun-
um varð hann fyrir þungum áföllum. Hann tapaði miklu, þegar ullar-
verð féll um næstum helming, og töluverður hluti eigna hans voru við-
skiptakröfur sem erfitt reyndist að innheimta. Það kom því ekki annað
til greina en að hætta verslunarrekstri og reyna fyrir sér að nýju við
bústörfin. Áður en til þess kom, tókst honum að gera upp við lánar-
drottna sína og ganga skuldlaus frá borði.
Sumarið 1935 fékk Þorsteinn jörðina Selsund við Heklurætur til
ábúðar og keypti hana hálfa nokkru síðar á móti J. C. Klein kaup-
manni sem hugðist reisa sumarbústað á sínum helmingi jarðarinnar.6