Andvari - 01.01.2017, Side 45
44 GUNNAR F. GUÐMUNDSSON ANDVARI
stæður, þegar orð og siðir fara fyrir ofan garð og neðan, en alvara býr
einnig að baki með raunsönnum lýsingum á mannvirkjum, náttúru,
fólki og samfélagi.
Af ferðasögunni verður ekki ráðið að höfundur hennar hafi verið
neinn sérstakur aðdáandi kommúnistastjórnarinnar í Kína. Hvað
sem því líður fer ekki á milli mála að hann taldi októberbyltinguna í
Rússlandi 1917 hafa verið heillarík tímamót í sögu mannkyns. Þegar 40
ár voru liðin frá þeim atburði, skrifaði hann greinaflokk í Þjóðviljann
um byltinguna og aðdraganda hennar, að stórum hluta endursögn úr
þeim heimildum sem hann hafði undir höndum.111 Fjórum árum síðar
var hann aðalræðumaður á fundi sem haldinn var á vegum MÍR á af-
mælisdegi byltingarinnar. Meðal gesta þar var sendiherra Sovétríkjanna
á Íslandi.112 Þetta breytir þó ekki því að hann virðist hafa verið á
varðbergi gagnvart stórveldunum og þá jafnt Sovétríkjunum sem
Bandaríkjum Norður-Ameríku, þegar kom að samskiptum þeirra við
smærri ríki. Honum sýndist t.d. ljóst fljótlega eftir stríðslok að Rússar
væru að styrkja stöðu sína með herbækistöðvum í Skandinavíu, og
þótti honum slík „ásælni“ af þeirra hálfu ískyggileg.113
Í mars 1958 stofnaði hópur rithöfunda og menntamanna samtökin
„Friðlýst land“ og var Björn einn félagsmanna. Síðar sama ár fór hann
ásamt nafnkunnum skáldum og rithöfundum í fundarferð um landið til
að ræða um hlutleysi og landhelgi Íslands.114 Fljótlega eftir þetta gengu
samtökin til liðs við Þjóðvarnarflokkinn og „Andspyrnuhreyfingu
gegn her í landi“ um að efna til fyrstu Keflavíkurgöngu, og fór hún
fram sunnudaginn 19. júní árið 1960. Björn var einn þeirra sem
skipuðu framkvæmdanefnd göngunnar, og kom það í hans hlut að
semja lýsingu á helstu kennileitum á leið göngumanna. Hún birtist í
Þjóðviljanum þennan sama dag.115 Um 250 manns söfnuðust saman
að morgni dags innan við hlið flugstöðvarinnar í Keflavík, en nokkru
færri lögðu af stað. Á leiðinni spjallaði rithöfundurinn Gunnar M.
Magnúss við göngumenn, alls um sjötíu manns, og spurði þá alla
sömu spurningar: „Hvað var það, sem knúði þig til þess að taka þátt í
Keflavíkurgöngunni?“ Svörin voru á ýmsa lund, eins og vænta mátti:
„Mér finnst það svo sjálfsagt mál, að ég tel naumast þörf að rökstyðja
það“ (Einar Bragi rithöfundur). „Ég er á móti erlendum her í landi,
sem hefur haft mikið fyrir að endurheimta sjálfstæði sitt. Ég álít að
Íslendingar séu færir um að lifa fjárhagslega án þess að styðjast við
hernaðarfé“ (Vigdís Finnbogadóttir, frú). Björn Þorsteinsson svaraði