Andvari - 01.01.2017, Page 47
46 GUNNAR F. GUÐMUNDSSON ANDVARI
ókyrrð hafði verið í Póllandi á liðnum árum og oft komið til uppþota. Í
september 1981 var stofnað þar í landi nýtt og óháð verkalýðsfélag sem
fékk nafnið Samstaða (Solidarność), og á næstu vikum stóð það fyrir
víðtækum verkföllum, fyrst í Lenín-skipasmíðastöðinni í Gdaǹsk og
síðan um land allt. Aðgerðirnar drógust á langinn og það tók að hrikta
í stoðum kommúnistastjórnarinnar. Kirkjan reyndi að miðla málum
undir forystu Pólverjans Karols Wojtyla (Jóhannesar Páls II) á páfastóli
en veitti verkfallsmönnum á sama tíma stuðning og skjólshús bæði
leynt og ljóst. Björn fylgdist með þessum atburðum af miklum áhuga
og lét þau orð falla að þeir væru nú öfundsverðir sem tilheyrðu þess-
ari kirkju.122 Hann lifði ekki fall kommúnismans í Austur-Evrópu, en
líklega hefði hann ekki harmað þau umskipti. Pólitískar rætur Björns í
hugsjónum sósíalismans rofnuðu samt ekki, og eindreginn friðarsinni
var hann eftir sem áður. Hann hélt áfram að sækja fundi friðarhreyf-
inga jafnt innan lands sem utan, síðast heimsþing þeirra sem haldið
var í Prag undir lok júnímánaðar 1983, þremur árum áður en hann
kvaddi þennan heim.123
Ferðamaður og fararstjóri
Björn Þorsteinsson var þeirrar skoðunar að land, saga og fornleifar
væru ein órofa heild. Það hefur átt sinn þátt í því að hann fékk snemma
áhuga á að ferðast um fornar slóðir og nýjar og kynna sér þar staðhætti
og náttúrufar. Með allan sinn sögufróðleik átti starf leiðsögumanns
því einkar vel við hann.
Fyrst er greint frá fararstjórn Björns í frétt frá júní 1952. Þar segir
frá því að Ferðaskrifstofa ríkisins hafi skipulagt skemmtiferð um
hvítasunnuna um Þingvelli að Sogsvirkjun og Krýsuvíkurveginn
heim. Leiðsögumaður var Björn Þorsteinsson sagnfræðingur, og
þótti hann fróður mjög og ferðin öll hin skemmtilegasta.124 Forstjóri
Ferðaskrifstofu ríkisins á þessum tíma var Þorleifur Þórðarson, og
hefur hann að öllum líkindum fengið Björn til að taka ferðina að sér.
Um svipað leyti kom til starfa hjá Þorleifi ung kona sem hafði verið
við nám í Frakklandi. Hún hét Vigdís Finnbogadóttir. Fyrsta verkefni
hennar var að taka á móti ferðamönnum af frönsku skipi og fara með
þá að Gullfossi og Geysi. Frændsemi og vinátta var á milli Vigdísar