Andvari - 01.01.2017, Síða 49
48 GUNNAR F. GUÐMUNDSSON ANDVARI
leiðsögumanna og um Reykjavík, en Björn sagði frá því hvernig kenna
ætti útlendingum Íslandssögu. Fleiri leiðbeinendur voru kallaðir til
eins og Guðmundur Sigvaldason jarðfræðingur, Ingvi Þorsteinsson
náttúrufræðingur og Böðvar Guðmundsson bókmenntafræðingur.128
Björn og Vigdís báru hitann og þungann af þessum námskeiðum alla
tíð, og má raunar segja að þau hafi stofnað fyrsta leiðsögumannaskóla
á Íslandi. Kennslan hin síðari ár fór fram á kvöldin í Árnagarði.129
Laufey Helgadóttir, listfræðingur í París, var í hópi þeirra sem sóttu
leiðsögumannanámskeið Vigdísar og Björns. Það mun hafa verið árið
1971. Hún var harla ánægð með kennsluna, þegar hún rifjaði hana upp
mörgum árum síðar:
„Ég ætlaði í Háskólann í Reykjavík um veturinn og vantaði sumarvinnu,“ segir
Laufey. „Ég hafði dvalið í Frakklandi sem au-pair í eitt ár í Palavas-Lis- Flots í
Suður-Frakklandi og áður í ávaxtaverksmiðju í Nimes. Síðan innritaði ég mig
á leiðsögunámskeið sem Vigdís Finnbogadóttir og Björn heitinn Þorsteinsson
sagnfræðingur stóðu fyrir. Þar voru haldnir frábærir fyrirlestrar um margvís-
leg málefni; jarðfræði Íslands, sagnfræði, dýra- og fuglalíf, mannlíf á Íslandi
o.s.frv. Ég sá Ísland í nýju ljósi eftir þessa fyrirlestra og Norðlendingnum fór
nú loksins að þykja dálítið vænt um Reykjavík.130
Björn gerði fleira fyrir Ferðaskrifstofu ríkisins en að sinna farar-
stjórn og kennslu. Hann samdi nokkur smárit með leiðarlýsingum sem
stofnunin gaf út á tímabilinu 1955–1964 og ætluð voru bæði farar-
stjórum og ferðafólki.131 Sérstakan kafla um Þingvelli samdi hann
fyrir Ferðahandbókina 1967, og var hann birtur lítið breyttur í ritinu
Landið þitt. Ísland 1984. Tveimur árum síðar var kaflinn, aukinn og
endurbættur, orðinn að snotru bókarkorni sem forlagið Örn og Örlygur
gaf út.132 Samhliða starfi sínu fyrir Ferðaskrifstofu ríkisins var Björn á
fartinni sem fararstjóri fyrir ýmis félagssamtök til Þingvalla, í Skálholt,
um nágrenni Reykjavíkur, á Njáluslóðir og að Gullfossi og Geysi.
Eins og nærri má geta, hafði Björn sterkar skoðanir á ferðamálum
hér á landi og hvernig best væri að standa þar að verki. Í blaðagrein
sem hann skrifaði haustið 1954 vék hann að gefnu tilefni að þrálátu
deiluefni í íslenskri ferðaþjónustu, þ.e. salernismálum úti á lands-
byggðinni, en að meginhluta snerist greinin annars vegar um ástæð-
ur þess að útlendir ferðamenn vildu koma hingað til lands og hins
vegar um aðbúnað almennt á ferðamannastöðum hér á landi. Fegurð