Andvari - 01.01.2017, Page 74
HANNES PÉTURSSON
Tvennt í heimi
I
Ein af þeim ferkvæðu vísum Steingríms Thorsteinssonar sem lifað hafa kyn-
slóðum saman á vörum Íslendinga hljóðar svo:
Trúðu´ á tvennt í heimi,
Tign sem hæsta ber,
Guð í alheims geimi,
Guð í sjálfum þér.
Margt sannkristið fólk hefur gripið til þessarar snilldarvísu, væri það spurt
um trúarviðhorf sitt. Samt sem áður er guð kristinna manna einn og um leið
þríeinn, einn guð í þrenningu, faðir, sonur og heilagur andi. Hver sál, borin
til skírnarlaugar í Jesú nafni, hefur verið skírð til þeirrar þrenningar. Í vísu
Steingríms er guð aftur á móti tvíeinn. Af því leiðir að hún yrði aldrei tæk í
sálmasöngsbók íslenzku þjóðkirkjunnar, vísan er ókristileg. En nánar síðar
um þennan skilsmun. Fyrst skal sýnt hvernig á trúarbrýningunni stendur í
skáldskap höfundar. Langflestir munu hyggja að Trúðu´ á tvennt í heimi sé
lausavísa. Því fer þó fjarri.
Steingrímur Thorsteinsson, háættaður amtmannssonur frá Arnarstapa á
Snæfellsnesi, brautskráðist úr Reykjavíkurskóla 1851, tvítugur að aldri,
sigldi undir haust sama ár til háskólanáms í Kaupmannahöfn, lagði framan
af stund á lögfræði, en sneri við blaðinu og lauk árið 1863 kandídatsprófi í
latínu og grísku, sögu og norrænum fræðum. Hann fluttist heim til Íslands
1872 og gegndi kennarastöðu í Reykjavíkurskóla upp þaðan til æviloka 1913,
rektor eftir 1904.
Steingrímur iðkaði ljóðagerð töluvert fyrir utanför. Að réttu lagi steig hann
þó ekki opinberlega fram á völl skáldanna fyrr en árið 1854. Þá sendi hann frá
sér nokkur frumort og þýdd ljóð í höfuðmálgagni Jóns Sigurðssonar, Nýjum