Andvari - 01.01.2017, Síða 158
AUÐUR AÐALSTEINSDÓTTIR
Þögn og skriftir á Hótel Silence
Ör og hin endurtekna þjáning í verkum Auðar Övu
Þjáningin er endurtekið efni í verkum Auðar Övu Ólafsdóttur og nýjasta bók
hennar, Ör, er þar engin undantekning. Þótt texti bókarinnar geti ekki talist
trámatískur hvað varðar stíl og uppbyggingu, ber glíma sögupersónanna
við áföll og afleiðingar þeirra að mörgu leyti einkenni dæmigerðra „tráma
skrifa“.
Ör skiptist í tvo hluta; sá fyrri, sem heitir „Hold“, gerist á Íslandi, aðal-
persónan Jónas Ebeneser er 49 ára nýlega fráskilinn og þunglyndur karl-
maður sem leitar leiða til að binda enda á líf sitt, milli þess sem hann rifjar
upp fortíðina, ekki síst sambönd sín við konur. Það eru ekki bara sambönd
hans við ástkonur, og þá fyrst og fremst fyrrum eiginkonuna Guðrúnu, sem
eru í brennidepli heldur líka sambandið við Guðrúnu Stellu móður hans og
Guðrúnu Vatnalilju dóttur hans – en Jónas hefur nýlega uppgötvað að hann
er ekki blóðfaðir hennar. Hann íhugar að skjóta sig og hengja – en að lokum
ákveður hann frekar að fara í ferðalag:
Á endanum vel ég land sem var lengi í fréttum vegna stríðsátaka en er
horfið af sjónarsviðinu eftir að vopnahlé komst á fyrir nokkrum mánuðum,
og athyglin færðist annað. Ástandið er sagt ótryggt og óvíst að vopnahléið
haldi. Það virðist ákjósanlegt, ég gæti verið skotinn á götuhorni eða stigið á
jarðsprengju.1
Hann kaupir því miða aðra leið, pantar hótelherbergi í „sundurskotnum
smábæ“ sem hann „kannast við úr fréttum“ (62) og pakkar „niður fyrir lík“
(64) – þ.e. fer með hálftóma handtösku á Hotel Silence.
Í seinni hlutanum, „Ör“, er Jónas staddur í stríðshrjáðu landi og lendir
eins og ósjálfrátt í gamalkunnu hlutverki, að gera við og dytta að, enda er
allt í rúst og nóg fyrir handlaginn mann að gera. Og þarna fáum við tengingu
á milli persónulegra, innri þjáninga hans og hinna ytri hörmunga sem móta
heimssöguna. Allir bera ör, sálræn og líkamleg og sjálf hefur Auður Ava lýst
verkinu sem bók um þjáninguna, í viðtali á Rás 1.2