Andvari - 01.01.2017, Síða 159
158 AUÐUR AÐALSTEINSDÓTTIR ANDVARI
Margræð ör
Bækur Auðar Övu eru fullar af margræðum vísunum og táknum. Oft er les-
andanum bent á mögulegar túlkunarleiðir. Í Ör fáum við til dæmis að vita að
nafnið Jónas þýðir dúfa og að Ebeneser merkir hinn hjálpsami, auk þess sem
bæði Nietzsche og Heidegger eru nefndir á nafn. Hún gengur þó kannski
hvað lengst í fjórðu bók sinni, Undantekningunni (2012). Undirtitillinn er de
arte poetica sem vísar til klassískra verka Aristótelesar og Hórasar um skáld-
skaparlistina, enda er bókin að stórum hluta sjálfsaga (e. metafiction) þar
sem sálgreinirinn, fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafinn og rithöfundurinn,
hin dvergvaxna Perla, býr í kjallaranum í húsi aðalsögupersónunnar, Maríu,
fylgist vandlega með skilnaði og fjölskylduflækjum á efri hæðinni og skrifar
um leið verk sem ýmist virðist stjórna framvindunni eða byggja á henni.
„Það er varla að maður þori lengur að stinga niður penna af ótta við að það
sem maður skrifar rætist á efri hæðinni“ (173), segir hún en mætir jafnframt
stundum með stílabók og penna til að punkta niður tilvitnanir í Maríu, sem
er að hennar mati „fagurfræðileg persóna“ samkvæmt skilgreiningu frá sér-
fræðingi í Nietzsche (173). Tilvitnun í Hin hýru vísindi Nietzsches í upphafi
þeirrar bókar undirstrikar einnig hvernig skáldskapur og líf byggja sífellt
hvort á öðru: „Við viljum verða ljóðskáld okkar eigin lífs fyrst og fremst í
hinum smæstu og hversdagslegustu atriðum.“
Það er ef til vill ekki skrítið að Auður Ava hafi svo mikið dálæti á verkum
Nietzsches, þar sem heimspeki og skáldskapur, líf og frásagnarlist fléttast
saman í fjörugu og ögrandi samspili og hlutum er gjarnan snúið á haus til að
hrista upp í hefðbundinni hugsun lesandans. Þetta gerir hún sjálf af mikilli
list. Persónur eiga sér oftar en ekki óvæntar hliðar – enginn er fyrirsjáanleg
staðalmynd. Í Ör er móðir Jónasar stærðfræðingur með sérlegan áhuga á
styrjöldum og vinur hans Svanur á sér tvö ólík áhugasvið sem hann tvinnar
saman eftir mætti, vélknúin farartæki og stöðu kvenna í heiminum.
Leikur að margræðni er að sama skapi eitt af höfuðeinkennum á verkum
Auðar Övu, eins og sjá má m.a. á titlum bóka hennar. Afleggjarinn (2009)
vísar bæði til rósaafleggjara sem söguhetjan plantar í erlendum garði og til
barns sem getið er óvart í gróðurhúsi en höfundur bregður á leik með fleiri
möguleika þegar hún talar t.d. um afleggjara á hraðbraut. Það eru einnig
margar undantekningar í Undantekningunni; María er t.d. eina konan sem
Flóki hefur elskað, undantekningin í lífi hans, en Perla er líka undantekn-
ing; dvergur og kvenrithöfundur. Titillinn á nýjustu skáldsögu Auðar Övu,
Ör, vísar til líkamlegra og andlegra öra eins og fram kemur í texta fremst í
bókinni: