Íslenska leiðin - 01.11.2003, Side 47

Íslenska leiðin - 01.11.2003, Side 47
heiminum. Við uppbyggingu þess yrði horfið frá hugsun hernaðarbandalaga 05 vígbúnaðar og öryggis gætt á öðrum grunni. Island á að vera í reynd vopnlaust land, standa utan hernaðarbandalaga og taka sér hlutlausa stöðu í mögulegum framtíðardeilumálum ríkja þar sem vopnavaldi kynni að verða beitt. Þessari stöðu sinni á ísland að afla viðurkenningar með samningum við nágrannaríki og á alþjóðavettvangi. Um leið ættum við samleið með þeim mikla fjölda smærri ríkja sem eiga allt sitt undir því að öryggismálin komist út úr farvegi hnefaréttar og vöðvaafls, sem síendurtekin valdbeiting, árásarstyrjaldir og hernaður auðvitað er, yfir í farveg lýðræðislegrar ákvarðanatöku og öryggisgæslu þar sem áhersla er lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir og friðsamlegar og borgaralegar lausnir á deilumálum í stað hernaðarlegra. Að mörgu leyti getum við íslendingar tekið sjálfstjórnarsvæðið á Álandseyjum okkur til fyrirmyndar í þessum efnum. Lega Álandseyja, mitt á milli gamalla erkifénda við Eystrasalt, færði óumbeðið þessu litla eyjasamfélagi siglingagarpa og kaupahéðna mikla hernaðarlega þýðingu. Álandseyjar eru vígbúnaðarlaust (demilitariseret) og hlutlaust (neutraliseret) svæði að stofni til á grundvelli einnar og hálfrar aldar gamals samkomulags sem þáverandi evrópsk stórveldi gerðu í lok Krímstríðsins. Vopnleysi og hlutleysi Alandseyja, sem var endanlega fest í sessi í lok seinna stríðs, hefur þrátt fyrir hernaðarlega mikilvæga legu eyjanna, eða kannski réttara sagt einmitt vegna hennar, gefist ákaflega vel. Eyjarnar hafa að mestu fengið að vera í friði þrátt fyrir margvíslegar sviptingar og hildarleiki í næsta nágrenni. í grunninn hefur hið gamla samkomulag haldið um að á Álandseyjum verði ekki byggðar herstöðvar né þar staðsettur annar sá búnaður sem nágrannaríkjum geti stafað hætta af. Pólitískt hafa Álandseyingar nýtt þessa stöðu sfna vel. Á eyjunum er rekin merkileg friðarrannsóknarstofnun og Álandseyingar hafa lagt smáþjóðum og þjóðarbrotum lið og veitt þeim ráðgjöf á leið sinni til aukins sjálfstæðis, frelsis og friðar. Eðlilegt væri að íslendingar fylgdu eftir vopnleysi sínu og hlutlausri stöðu með kjarnorkufriðlýsingu landsins og íslenskrar lögsögu þar sem uppsetning og hvers kyns meðhöndlun kjarnorku- og eiturefnavopna og annarra gereyðingarvopna yrði bönnuð og takmörk sett á umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Rökin fyrir slíkri friðlýsingu eru ekki aðeins öryggispólitísk heldur einnig umhverfisleg. Með slíku gæti ísland einnig gefið gott fordæmi í sínum heimshluta en kjarnorkufriðlýst svæði eru þegar nokkur, þó fyrst og fremst á suðurhveli jarðar. Reyndar hefur mikill meirihluti íslenskra sveitarfélaga friðlýst sitt yfirráðasvæði. Frumvarp sem undirritaður hefur flutt um friðlýsingu landsins og lögsögunnar í heild hefur hins vegar endurtekið strandað á Alþingi sl. 20 ár. Það má ekki styggja verndarann á Miðnesheiði eða vinina í NATO. Breytingar af þessu tagi þýða ekki að landið stæði öllum opið og óvarið t.d. fyrir hópum ribbalda í einhvers konar nútíma stíl Jörundar hundadagakonungs. Hér yrði að sjálfsögðu löggæsla og öryggisgæsla við alþjóðaflugvelli og hafnir, virk landhelgisgæsla yrði til staðar, björgunarmálum sinnt af myndugleik o.s.frv. Hins vegar yrðu hér ekki eiginlegar hervarnir, enda vandséð hvaða tilgangi slíkt þjónaði öðrum en þeim að vera til málamynda. Nýtt aljsjóðlegt öryggisgæslukerfi. I samræmi við þá stöðu sem ísland tæki sér sem vopnlaus og hlutlaus þjóð á friðlýstu svæði væri rökrétt að tekin yrði upp barátta fyrir breyttri skipan mála á alþjóðavettvangi. Markmið okkar á að vera lýðræðislega uppbyggt alþjóðlegt öryggisgæslukerfi sem kæmi í stað allra hernaðarbandalaga og í stað þess að nokkurt ríki haldi her á erlendri grund. Svæðisstofnanir eins og ÖSE (Stofnunin um öryggi og samvinnu í Evrópu), þar sem allar þjóðir í viðkomandi heimsálfu eða heimshluta eiga aðild og svo alheimsstofnun, annaðhvort endurskipulagt Öryggisráð eða ný stofnun á þeim grunni færu með svæðisbundið og hnattrænt öryggisgæsluhlutverk. Breytingar á skipulagi Sameinuðu þjóðanna eru hvort eð er að flestra dómi óumflýjanlegar. Margir telja að slíkum breytingum yrði auðveldara að ná fram með því að leggja Öryggisráðið sem slíkt hreinlega niður og reisa nýja stofnun á þeim grunni, einskonar framkvæmdastofnun öryggismála í heiminum. Aðalatriðið er að slík stofnun, ný eða gömul, verður að sjálfsögðu að endurspegla veruleika samtímans en ekki löngu liðna tíð og valdahlutföll í lok seinni heimsstyrjaldarinnar fyrir miðja síðustu öld. Á vegum slíks framkvæmdaráðs öryggismála eða öryggisgæsluráðs þurfa síðan að starfa friðar- eða öryggisgæslusveitir í þess eigin nafni. Það er sannfæring mín að friðar- og öryggisgæsla í heiminum, umfram það sem snýr að varnarviðbúnaði hvers og eins ríkis innan eigin landamæra, eigi alfarið að vera á vegum slíkra alþjóða- eða svæðisstofnana. Lykilatriði við uppbyggingu slíkra öryggisgæslusveita er að þær séu fjölþjóðlegar og blandaðar þannig að í hverri sveit væru fulltrúar mismunandi trúarbragða og menningarheima. í hverju tilviki sem slík sveit væri send til að halda uppi lögum og reglum og tryggja frið á svæðum þar sem vandamál gætu virst í uppsiglingu væru í henni að hluta til „bræður og systur" viðkomandi þjóða eða þjóðarbrota í trúarlegum, menningarlegum og pólitískum skilningi og einnig hvað uppruna eða kynþátt snertir. Meginvandamál Öryggisráðsins og ÖSE í dag er að þessar stofnanir eru alfarið háðar einstökum ríkjum um að leggja sér til liðsveitir sem yfirleitt samanstanda af herdeildum eða hermönnum viðkomandi ríkja. Því geta skapast vandamál sökum þess að einhver deiluaðila á viðkomandi svæði lítur beinlínis á sveitirnar sem andstæðing á forsendum þjóðernis- eða bls.47

x

Íslenska leiðin

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Íslenska leiðin
https://timarit.is/publication/1849

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.