Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Síða 47
Ragnheiður Hergeirsdóttir, Guðný Björk Eydal og Sólveig Þorvaldsdóttir
47 ..
félagsþjónustu í skipulagi almannavarna er mismunandi milli Norðurlandaríkjanna. Hér á landi er
hlutverkið sem fyrr segir hvorki skilgreint í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga né í almanna-
varnalögum en félagsþjónustu hér á landi ber lagaleg skylda til að vinna viðbragðsáætlun þó að
ekki liggi fyrir nákvæmar leiðbeiningar um hvernig það skuli gert (Guðný Björk Eydal og Ingibjörg
Lilja Ómarsdóttir, 2017). Helstu niðurstöður skýrslunnar frá 2016 eru að hlutverk og ábyrgð félags-
þjónustu þurfi að ávarpa með skýrari hætti í lögum, hún þurfi að vera betur kynnt meðal annarra
viðbragðsaðila á áfallatímum, efla þurfi vitund starfsfólks félagsþjónustu um mikilvægt hlutverk
sitt í tengslum við samfélagsáföll og að félagsþjónustan þurfi að vera þátttakandi á almannavarna-
æfingum (Eydal o.fl., 2016). Á það hefur verið bent að sameiginlegur skilningur milli viðbragðsaðila
sé grundvallaratriði til að samstarf gangi upp og skili tilætluðum árangri og að gagnkvæm þekking á
daglegum hlutverkum og ábyrgð kerfa sé ein forsendan fyrir árangursríku samstarfi og upplýsinga-
flæði milli viðbragðsaðila og stofnana í samfélaginu á tímum vár (Sólveig Þorvaldsdóttir, 2016). Þá
hafa niðurstöður íslenskra rannsókna hin síðari ár undirstrikað mikilvægi þess að sérstakar leiðbein-
ingar og gátlistar séu tiltæk fyrir félagsþjónustuna (Anna Sigrún Ingimarsdóttir, 2012; Ragnheiður
Hergeirsdóttir og Guðný Björk Eydal, 2021).
Sveitarfélagið Árborg
Sveitarfélagið Árborg er um 50 km í austur frá Reykjavík. Sveitarfélagið er 159 km2 að stærð og er
á svonefndu Suðurlandsskjálftabelti, sem er um 70 km langt og mjög virkt sniðgengisbelti. Þunga-
miðja beltisins liggur í raun undir stærsta þéttbýlisstaðnum, Selfossi (Páll Imsland, 2005). Árborg
varð til við sameiningu fjögurra sveitarfélaga árið 1998. Þar eru þrír byggðarkjarnar, Selfoss, Eyrar-
bakki og Stokkseyri, auk dreifbýlisins sem liggur milli Selfoss og strandarinnar (Sveitarfélagið Ár-
borg, 2008). Sveitarfélagið starfrækir fjóra grunnskóla, þar af þrjá á Selfossi og einn sem starfar
bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri. Leikskólar eru sjö, þar af fimm á Selfossi og einn í hvoru þorp-
anna við ströndina. Þá er fjölbreytt þjónusta í sveitarfélaginu fyrir ýmsa hópa, svo sem aldraða,
fatlað fólk og fólk af erlendum uppruna, auk öflugs íþrótta, tómstunda- og menningarstarfs á vegum
opinberra aðila og félagasamtaka (Sveitarfélagið Árborg, 2021). Árborg er fjölmennasta sveitar-
félagið á Suðurlandi og þar eru staðsettar mikilvægar opinberar stofnanir sem þjónusta Suðurland,
s.s. heilbrigðisstofnun með sjúkrahús, heilsugæslu og hjúkrunardeildir fyrir aldraða, fjölbrautaskóli,
sýslumannsembætti, lögregla, héraðsdómur og Vinnumálastofnun. Þá er á Selfossi starfrækt Rann-
sóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftafræðum og Matvælastofnun og á Eyrarbakka er rekið
ríkisfangelsið að Litla-Hrauni. Á Selfossi er fjölbreytt verslun og þjónusta og blómlegt atvinnulíf,
ekki síst í matvæla- og byggingariðnaði, og í sveitarfélaginu eru öflug ferðaþjónustufyrirtæki með
fjölbreytta þjónustu. Íbúum í Árborg hefur fjölgað hratt á síðustu áratugum; í árslok 2022 voru íbúar
tæplega 11.198 samanborið við 7.833 í árslok 2012 (Hagstofan, 2023).
Félagsþjónustan í Árborg
Samkvæmt skipulagi Fjölskyldusviðs Árborgar frá 1. mars 2019 eru félagsþjónusta, leik- og grunn-
skólar, skólaþjónusta og frístunda- og menningardeild á fagsviðinu. Málaflokkar félagsþjónustu eru
barnavernd, málefni eldri borgara, félagsleg ráðgjöf, fjárhagsaðstoð, málefni fatlaðs fólks og hús-
næðismál. Stöðugildi eru um 113 og starfsmenn rúmlega 200 (Árborg, 2023).
Tilviksrannsókn
Rannsóknin sem hér er fjallað um er tilviksrannsókn sem byggir annars vegar á verkefni sem fór
fram veturinn 2021–2022 á vegum Almannavarna Árnessýslu og ætlað var að efla þekkingu, verk-
ferla og færni starfsfólks velferðarþjónustu sveitarfélaga í Árnessýslu vegna samfélagslegra áfalla
og raskana sem þeim fylgja. Hins vegar er byggt á viðtalsrannsókn sem fram fór í september 2023
þar sem rætt var við fimm þátttakendur úr verkefninu árið 2021–2022 í þeim tilgangi að leggja mat
á hvernig til hefði tekist.