Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Blaðsíða 76
Staða og líðan ungra karlmanna í landsbyggðarsamfélagi
76 ..
hins opinbera okkur ramma því þær skilgreina möguleika okkar til athafna. Í greininni segir Hulda
orðrétt: „Fólk tekur þátt í að viðhalda og skapa það félagslega rými sem það býr í með daglegum
athöfnum sínum. Í þeim felast aðgerðir sem tengja daglegt líf og vitund einstaklinga og hópa við
félagslegt umhverfi sitt“ (bls. 295). Þeir þættir sem hafa áhrif á hvernig við högum okkar daglega lífi
eru, meðal annars aldur, eigin skilningur á stöðu okkar, umhverfi og reynsla (Hulda Proppé, 2004).
Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar orðræða um karlmennsku er skoðuð vegna þess að þetta
eru þeir hlutir sem hafa áhrif á og viðhalda orðræðunni eins og hún er. Fólk hefur tilhneigingu til
þess að taka þátt í þeirri orðræðu sem er alls staðar og skilgreinir hvernig hlutirnir eiga að vera og
er oft notuð til réttlætingar og staðfestingar á ákveðinni stefnu (Hermína Huld Hilmarsdóttir og Ing-
ólfur Ásgeir Jóhannesson, 2021; Hulda Proppé, 2004; Jóhannesdóttir o.fl., 2021).
Eins og fram kom hér að framan þá sýna rannsóknir að ríkjandi gildi í landsbyggðarsamfélögum
eru karllæg (Anna Guðrún Edvardsdóttir, 2013). Dreifbýl samfélög breytast eins og önnur og sem
viðbrögð við tæknivæðingu, efnahagslegri stöðu og félagslegum breytingum sem átt hafa sér stað
opnast fleiri víddir til að endurskilgreina karlmennskuhugtakið og þá í tengslum við samfélagið.
Rannsóknir á karlmönnum í dreifbýli sýna að þeirra sjálfsmynd er ekki eingöngu tengd því karla-
starfi sem þeir gegna heldur eru þeir opnir fyrir annars konar nálgun, það er að karlar geti unnið
„kvennastörf“, geti unnið hlutastörf og hafi háskólamenntun (Bye, 2009). Það leiðir að því líkum að
með breyttum hugmyndum um karlmennsku í dreifðum byggðum muni gildismatið einnig breytast
þar sem vægi kvenlægra gildi muni aukast.
Í þessu samhengi má nefna að í rannsókninni Staða og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun,
þar sem meðal annars sjónum var beint að Sveitarfélaginu Hornafirði, var töluvert rætt um það sem
einkenndi það samfélag sem fólk byggi í, bæði í spurningakönnuninni og í rýnihópaviðtölunum. Þar
kom fram að þátttakendur töldu sig búa í fjölskylduvænu og fjölmenningarlegu samfélagi þar sem
jákvæðni, jákvæð samskipti, samheldni og samkennd væri ríkjandi en að umburðarlyndi væri lítið
og að fordómar væru til staðar. Allt eru þetta gildi sem skilgreind hafa verið sem kvenlæg (Anna
Guðrún Edvardsdóttir, 2004; 2021). Hvernig þessi niðurstaða snýr að ungu fólki, sérstaklega ungum
karlmönnum í samfélaginu, var skoðað nánar í rannsókninni.
Mynd 1. Sveitarfélagið Hornafjörður