Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Page 162
Aðskilin búseta: Búsetumynstur pólskra innflytjenda í Reykjavík
162 ..
basis of Reykjavik city school districts. The results suggest that the resi-
dential segregation of polish immigrants in Reykjavik is low to moderate.
Nevertheless, there are two areas in Reykjavik where Polish immigrants
are concentrated. In one area the immigrants tend to have lower incomes
and have lived in Iceland for a shorter time than in the other area. The
Polish immigrants with the longest stay and the highest incomes, however,
tend to live in areas with few other Polish immigrants. The results align
most closely with theories of segmented assimilation. However, they may
also reflect a particular phase in the integration of Polish immigrants into
Icelandic society that in the long-run may develop more in line with clas-
sical assimilation theory.
KEYWORDS: Immigration – Residential patterns – Reykjavik – Seg-
regation
Inngangur
Fjölgun innflytjenda á Íslandi hófst í lok tíunda áratug síðustu aldar. Á árunum 1988 til 1998 voru
erlendir ríkisborgarar um 2% íbúa landsins ár hvert. Frá 1998 til 2005 fjölgaði þeim jafnt og þétt
í 3,6% íbúa landsins. Á árunum 2005 til 2008 jókst svo fjölgunin svo um munar og árið 2009 var
hlutfall erlendra ríkisborgara komið í 7,6%. Hrunið sneri þessari þróun svo við, en aðeins að hluta
og í skamman tíma. Árið 2011 voru 6,6% íbúa landsins með erlent ríkisfang. Eftir 2012 fjölgaði
erlendum ríkisborgurum hratt. Það hægði að vísu á fjölguninni á milli 2020 og 2021 en í upphafi árs
2022 erlendir ríkisborgarar 14,6% af íbúum landsins (Hagstofa Íslands, e.d.a.).
Fjöldi erlendra ríkisborgara segir aðeins hálfa söguna því hluti hópsins öðlast íslenskt ríkisfang
en eru auðvitað enn með erlendan bakgrunn sem getur haft áhrif á bæði upplifanir þeirra og tæki-
færi í íslensku samfélagi. Þá eignast innflytjendur börn, stundum með innfæddum og stundum með
öðrum innflytjendum, og þar með verður til önnur kynslóð sem hefur uppruna að hluta utan Íslands.
Þannig fór hlutfall innflytjenda, það er einstaklinga sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra
fædda erlendis, úr 2,4% árið 1998 í 16,3% árið 2022. Á sama tíma hækkaði hlutfall þeirra sem áttu
annað eða báða foreldra fædda erlendis úr 3,1% íbúa í 7,1%. Þannig var nær fjórðungur íbúa lands-
ins með upprunatengingu við annað land en Ísland, samanborið við um það bil einn af hverjum átján
íbúum árið 1998 (Hagstofa Íslands, e.d.b.). Þetta er stór breyting á skömmum tíma sem hefur haft
áhrif á íslenskt samfélag, efnahagslíf og mögulega búsetumynstur.
Í þessari grein verður fjallað um búsetumynstur pólskra innflytjenda út frá skólahverfum í Reykja-
vík. Erlendis eru víða til rannsóknir á muni á búsetumynstrum ýmissa þjóðfélagshópa til að meta
aðskilnað á milli hópa. Eftir því sem næst verður komist hafa slíkar rannsóknir ekki verið gerðar
áður á Íslandi. Ástæðan fyrir þessu vali á innflytjendahóp er að Pólverjar eru langsamlega stærsti
hópur innflytjenda á landinu. Árið 2022 voru íbúar landsins fæddir í Póllandi tæplega 21 þúsund, eða
fimm sinnum fleiri en næst fjölmennasti hópurinn sem var fólk fætt í Danmörku. Munurinn er meiri
þegar það er horft til þess að hluti hópsins sem fæddist í Danmörku á foreldra fædda á Íslandi. Vegna
þessa er ástæða til að skoða pólska innflytjendur sérstaklega og meta stöðu þeirra í samfélaginu. Það
myndi jafnframt gefa óskýra mynd af búsetumynstrum mismunandi innflytjendahópa að fella þá alla
saman í einn hóp enda ekki alltaf um sömu mynstrin að ræða.
Það eru ýmsar ástæður til að skoða búsetumynstur innflytjenda. Búsetumynstur innflytjenda gefa
vísbendingu um inngildingu hópsins og aðlögun hans að íslensku samfélagi. Ef innflytjendur safnast
saman í tilteknum hverfum getur það takmarkað möguleika þeirra á að mynda félagsleg tengsl við
hina innfæddu. Það hefur svo aftur áhrif á lífsgæði og tækifæri innflytjendanna, til dæmis hvað
varðar atvinnutækifæri sem og aðgang að upplýsingum um þá þjónustu sem íbúum landsins stendur
til boða. Þar sem skólahverfin skilgreina að miklu leyti aðgang að grunnskólum er einnig ljóst að