Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Side 178
Aðskilin búseta: Búsetumynstur pólskra innflytjenda í Reykjavík
178 ..
hverfi, til dæmis nýrri úthverfin, þegar eignarmyndun þeirra í eigin húsnæði gerir þeim kleift að
kaupa sér betra og/eða betur staðsett húsnæði. Búseta þeirra pólsku innflytjenda sem hafa hæstu
tekjurnar og búið lengst á Íslandi í nýrri úthverfunum gæti verið til marks um það.
Ef ofangreind þróun er það sem er í raun og veru að gerast mun pólskum innflytjendum væntan-
lega fjölga utan innflytjendasvæðanna tveggja á næstu árum. Ef það gerist má í raun segja að kenn-
ingar um almenna aðlögun skýri þróun búsetumynstra pólskra innflytjenda til lengri tíma litið, en
lagskipt og sértæk aðlögun skýri þá fremur vissa fasa aðlögunarferlisins. Það myndi þá þýða að
þegar fjárhagur pólskra innflytjenda er orðinn nægilega góður og aðlögun þeirra að íslensku sam-
félagi kominn nægilega langt séu þeir ekki lengur bundnir af húsnæðismarkaðnum til að búa í tekju-
lægri hverfum og hafa ekki sömu þörf og áður fyrir nálægð við samlanda sína. Það verður því fróð-
legt að fylgjast með búsetumynstrum pólskra innflytjenda á komandi árum.
Hér hefur ekki verið reynt að meta einn skýringaþátt sem kann að hafa áhrif á búsetumynstrin,
það er mismunun á húsnæðismarkaði. Eins og áður hefur verið nefnt eru til vísbendingar um að slík
mismunun sé til staðar (Hallfríður Þórarinsdóttir og Anna Wojtynska 2015). Mismunun á leigumark-
aði getur birst í því að leigusalar vilji síður leigja innflytjendum en á eignamarkaði getur mismunun
átt sér stað varðandi aðgang að fjármögnun eða þegar kemur að þeim eignum sem fasteignasalar
halda að innflytjendum, svo dæmi séu nefnd.
Heilt yfir benda niðurstöðurnar þó ekki til þess að búsetumynstur pólska innflytjenda séu til
marks skýra aðgreiningu á milli hópsins og þeirra borgarbúa sem eru með íslenskan bakgrunn. Í
kaflanum um gögn og aðferðir var greint frá því að í rannsóknum á sviðinu er ólíkindavísitala undir
0,3 talin til marks um lítinn aðskilnað, 0,3 til 0,6 um miðlungs aðskilnað og yfir 0,6 um mikinn að-
skilnað. Árið 2020 var aðskilnaðarvísitalan á milli pólskra innflytjenda og borgarbúa með íslenskan
bakgrunn 0,271, sem er til marks um lítinn aðskilnað miðað við þessi viðmið. Eins og fram hefur
komið er myndin ögn flóknari þar sem í raun er um tvo ólíka hópa pólskra innflytjenda að ræða sem
eru ólíkir hvað varðar lengd búsetu á landinu. Þessi hópar hafa tilhneigingu til að safnast saman á
tveimur mismunandi svæðum borgarinnar. Jafnvel þegar þessi hópar eru skoðaðir í sitthvoru lagi er
ólíkindavísitalan rétt við 0,3 mörkin (0,292 fyrir hópinn sem hefur dvalið hér skemur en fim ár og
0,311 fyrir hópinn sem hefur búið á Íslandi í 10 ár eða lengur). Þessar niðurstöður endurspegla ef til
vill fyrst og fremst ákveðinn fasa í aðlögun og inngildingu pólskra innflytjenda á Íslandi.
Eitt af því sem þessi grein dregur fram er fjölbreytileiki innan innflytjendahóps, ekki síst hvað
varðar lengd búsetu og fyrirætlanir þar um. Raunveruleikinn er sá að á hverjum tíma er hluti inn-
flytjenda í hvaða samfélagi sem er sem ætlar sér ekki að setjast að og vægi þess hóps hefur aukist
umtalsvert það sem af er þessari öld (Triandafyllidou 2022). Sú breyting getur haft afgerandi áhrif á
ýmsar afleiðingar fjölgunar innflytjenda í samfélagi (Dustmann og Görlach 2016). Í samhengi þess-
arar greinar má til dæmis ætla að þarfir innflytjenda sem ætla sér að dvelja tímabundið og þeirra sem
setjast að séu um margt ólíkar hvað varðar húsnæði og búsetusvæði. Það er því mikilvægt að horfa
til þessa fjölbreytileika innan hópsins til að skilja búsetumynstur innflytjenda og auðvitað aðrar út-
komur innflytjenda á Íslandi. Hver innflytjendahópur er fjölbreyttur að ýmsu öðru leyti, svo sem
varðandi uppruna á mismunandi svæðum stéttarstöðu innan upprunalandsins (sjá til dæmis Iceland
og Wilkes 2006 um það síðarnefnda). Slíkur fjölbreytileiki getur einnig haft áhrif á líf innflytjenda
í landinu sem þeir flytja til.
Svar þessarar greinar við rannsóknarspurningunni sem var lagt upp með er að mörgu leyti ófull-
nægjandi: Sennilega þetta, en hugsanlega hitt. Búsetumynstur pólskra innflytjenda munu auðvitað
halda áfram að þróast á komandi árum og í fyllingu tímans verður hægt að gefa skýrari mynd af
þeim áhrifaþáttum sem móta hana með gögnum eins og unnið er með hér. Það væri hins vegar hægt
að gefa mun skýrari mynd fyrr með könnunum þar sem innflytjendur væru spurðir út í núverandi
búsetu, væntingar, framtíðaráform og mismunun sem þeir verða fyrir. Með slíkri rannsókn væri hægt
að spá fyrir um þróunina og grípa inn í ef merki eru um að pólskir innflytjendur sitji fastir í lágtekju-
hverfum vegna lagskiptrar aðlögunar eða mismununar á húsnæðismarkaði.