Skírnir - 01.08.1910, Blaðsíða 114
306
Orkunýting og menning.
að úrkomu. Það sem t'ellur á hæðum og fjöllum safnast
í lindir, læki og ár. Og alt streymir það að einum ósi,.
— í hafið.
Hér skal ekki saga þessi rakin lengur, heldur skal
eg nú reyna að skýra í stuttu máli frá því, hvernig reynt
heíir verið á síðustu árum að beita því sem menn vita
um orkuna og lögin sem hún hlýðir til þess að bregða
ljósi yfir menningarsöguna, skilja betur en fyr viðskifti
mannsins við náttúruna, og finna eins konar mælikvarða
fyrir hvers konar framför í menningu.
Agætur þýzkur vísindamaður, Wilhelm Ostwald, sem
síðast fekk Nobels-verðlaun fyrir uppgötvanir sínar í efna-
fræði, hefir í ýmsum ritum sínum unnið að þessu, sérstak-
lega í bók sem kom út í fyrra og á íslenzku mætti nefna
»Orkunýting og menning« (Energetische Grundlagen der
Kulturwissenschaft. Leipzig 1909). Auðvitað er hér ekki
ráðrúm til að skýra nákvæmlega frá skoðunum hans, en
aðalskoðunarháttinn skal eg reyna að gefa lesendum Skírnis
hugmynd um og skýra hann með nokkrum dæmum.
Mannkynið er eins og ungur og auðugur erfingi, sem
lifir á vöxtum af geysimiklu stofnfé, en stofnféð er orka
sólarinnar. Að eins örlítill hluti þessara vaxta kemur til
jarðarinnar, sem sé að eins sá hluti, er svarar til þess
bletts er jörðin séð frá sólu sýnist þekja af himinhvolfinu.
Og af þessum litla hluta færa mennirnir sér að eins hverf-
andi brot í nyt. Afgangurinn safnast ekki í sjóð, heldur
verður að hita, sem dreifist meir og meir, geislar út í
geiminn og verður aldrei framar að notum, svo menn viti.
En hvað er þá menning?
Ostwald svarar því svo, að menning sé alt það sem
miðar að fullkomnun mannlífsins. Og þar sem nú mann-
lífið eins og alt líf er fólgið í hagnýtingu óbundinnar orku,
þá verður það mælikvarði menningarinnar, hve miklu af
þeirri orku, sem náttúran býður fram, er varið mannlífinu
til gagns og góða. Það er einkenni allra framfara í menn-
ingu, að notagildi orkunnar vex.