Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1999, Blaðsíða 203
PALL SIGURÐSSON
ATHUGASEMD UM FRIÐUN
GRÁSTEINS í GRAFARHOLTI
I Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1998, bls. 151-164, ritar Ragnheiður
Traustadóttir fróðlega grein, er nefnist „Grásteinn í Grafarholti — Um
minjagildi ætlaðs álfasteins”. Fer ekki á milli mála, að greinin byggist á
góðri heimildavinnu og setur höfundur efnið fram á skýru niáli. I greininni
er m.a. vikið að leyfi til flutnings Grásteins vegna fyrirhugaðra vegarfram-
kvæmda, sem Fornleifanefnd veitti framkvæmdaraðilanum,Vegagerð ríkis-
ins, í nóvembermánuði 1998.Telur greinarhöfundurinn, að sú framkvæmd
hafi í reynd ekki heyrt undir Fornleifanefnd eins og þar stóð á, sökum þess
að friðunarákvæði gildandi þjóðminjalaga hafi ekki náð til þessa steins.
Byggist sú niðurstaða höfundarins á þeirri röksemd hans, að friðunar-
ákvæði 16.gr. þjóðminjalaga geti ekki tekið til Grásteins sökum þess að
þær sögusagnir um álfabyggð í honum, sem vissulega eru á kreiki, séu mun
yngri en 100 ára, sem hins vegar sé það lágmark sem lögin setja aldri stað-
bundinna minja þannig að almenn friðun skv. lögunum eigi við, þegar svo
háttar að ekki hefur verið gripið til sérstakrar og formlegrar friðlýsingar.
Eg sé ástæðu til að gera á þessum vettvangi stutta athugasemd við
þessa fullyrðingu, en ég var formaður Fornleifanefndar á þeim tíma, er
umrætt framkvæmdaleyfi var gefið.
Það ákvæði þjóðminjalaga nr. 88/1989 með síðari breytingum, sem
hér reynir á, er í f-lið 1. mgr. 16. gr. laganna, þar sem segir að til fornleifa
teljist m.a. „álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum,
venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð”. I 2. mgr. sömu greinar segir jafn-
framt, að minjar 100 ára og eldri skuli að jafnaði telja til fornleifa en
heimilt sé þó að friðlýsa yngri minjar. Grásteinn hafði ekki verið
friðlýstur með formlegum hætti þannig að ekki reyndi á þann þáttinn.
Hins vegar gat e.t.v. verið nokkurt álitamál hvort steinninn heyrði að
öðrum kosti undir fyrrnefnt ákvæði í f-lið 1. mgr., þ.e. almenna friðun,
sem krefðist leyfis Fornleifanefndar lögum samkvæmt ef koma átti til
röskunar af manna völdum.