Eimreiðin - 01.01.1899, Síða 21
21
og vel. Það sem nú verður afgangs af kenslutímanum, þegar lokið
er þýðingunni og því málfræðisstagli og orðbókavastri, sem henni
eru samfara, er harla lítið, og því á að verja sumpart til hinna
svo nefndu nytjafræða (Realia), og sumpart til þess að komast inn
í hinn margumtalaða anda og sál þess, sem lesið er. I nytjafræð-
unum komast menn svo langt, að meðallagi duglegir lærisveinar
geta með herkjum baslast við að segja frá hinum almennustu
aðalatriðum í bókmentasögu, fornaldarfræðum og goðafræði, sem
fyrir hafa komið í köflum þeim, er lesnir hafa verið. Það er öðru
nær en að allir kunni einu sinni svo mikið, og það, sem er dá-
lítið afskektara, þekkja þeir alls ekki (enda er þess og heldur ekki
krafist). Listasöguna þekkja menn alls ekki, nema í eitthvað tveimur
skólum, og það er ekki nærri alstaðar, að lært sé alment yfirlit yfir
bókmentirnar, aðalstefnur þeirra, vöxt og viðgang, né heldur yfirlit
yfir stjórnarskipun hinna tveggja höfuðrikja Grikkja, heldur láta
menn sér nægja þau einstöku atriði á víð og dreif, sem fyrir koma
i því, sem lesið er. Og svo andinn og sálin? Menn halda því
fram, að af því að lesturinn sé svo hægfara, þá komist menn betur
inn í anda ritanna; því þetta leiði til þess, að menn neyðist til að
hugsa um efnið og melta það vel. En að lesturinn er hægfara,
kemur eingöngu til af þvi, að menn þurfa að vera að leiðrétta
þýðingarvillurnar og eiga í sífeldu orðmynda og orðastagli, og það
eru því nærfelt eingöngu málfræðisreglur og glósur, sem menn
melta — að svo miklu leyti sem það má verða. Einmitt það, hve
lesturinn er hægfara .og erfiður, vegna málsins sjálfs, er læra á,
heftir, ruglar og veikir skilning manna á efninu, að minsta kosti
á anda þess og áhrifum í heild sinni. Það hefur sannarlega ekki
verið að ástæðulausu, að kensluráðið hefur hvað eftir annað orðið
að brýna það fyrir mönnum í prófskýrslum sínum, að það yrði
að venja lærisveinana á að geta gert grein fyrir efni þeirra rita,
sem lesin hafa verið og prófað er í. — A þennan hátt tekst mönn-
um á 2 árum með 6 stunda kenslu á viku að yfirfara 7—8 af
bókum Hómers (sem eru 48), eina af hinum stærri bókum Heró-
dóts (sem eru 9), og alls 90 bls. af attiskri grísku. Og við burt-
fararprófið er það svo enn, auk þýðingarinnar, því nær eingöngu
málfræðis- og orðbókarhliðin, sem lærisveinarnir verða að gera
grein fyrir, ásamt hinum óhjákvæmilegustu nytjafræðum, sem þó
þráfaldlega verður mjög naumur tími til að eiga nokkuð við, af því
oftsinnis gengur svo hörmulega érfitt að koma þýðingunni einni af.