Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1990, Síða 15
GRÍMUR THOMSEN
15
Það þurfti sannarlega ekki undirritun deildarstjóra til að dæma
slíka hugmynd fráleita.“ Þá víkur Repp að því, sem stúdentarnir
segja, að gjöfin hafi aðeins verið til vitnis um þakklæti fyrir athygli,
sem íslenzkum bókmenntum var sýnd í Uppsölum. Segir hann, að
skemmtilegra hefði verið að sjá einhverja sönnun þess, til að
mvnda afrit af bréfi doktorsins til Uppsalamanna. Eins og bréf
Gríms til Sáve sýna, hefði þar ekki verið feitan gölt að flá fyrir
Þorleif Repp. Þar sýnist allt í fyllsta samræmi við yfirlýsingu
stúdentanna. En framhald tillögu Repps á Borchs-Collegium átti
eftir að koma í ljós á íslandi, ekki sízt á Vestfjörðum, þar sem menn
snerust öndverðir gegn ótímabæru frjálslyndi Jóns Sigurðssonar,
og hann komst víst aldrei í krappari dans í viðskiptum við landa
sína. Um það vísast til greina Kjartans Olafssonar (Saga 1986 og
1987).
Grímur höfðaði mál gegn Þorleifi Repp fyrir skrif hans, en ljóst
er, að ekki voru vandamenn hans og vinir heima á Islandi hrifnir
af málarekstri lians gegn Þorleifi Repp, enda var frjálshyggja lítt í
heiðri höfð á þeim bæjum. Að líkindum er að þessu vikið í bréfi
Ingibjargar móður hans (25. okt. 1867) án þess nöfn séu nefnd.
Grímur kom heim til íslands á því ári, og í bréfum, sem hann
skrifaði Bjarna amtmanni á Stapa, víkur hann að þessu máli 1858,
6. nóv. segir hann svo í bréfi til amtmanns:
„Mér er líkast til hér um bil eins illa við fiskipólitík Frakka eins og
yður, en eg sé ekki hverninn það væri kljúfandi, að aftra þeim frá,
ef þeim er alvara. Mér fmnst þá ekkert annað ráð enn brúka þau
lög, sem til eru, svo hyggilega sem verður. —“
Lítill bréfkafli frá Grími til kennara hans og fornvinar séra Árna
Helgasonar í Görðum er augljóst svar við einhverjum orðum
stiftsprófasts um málefni Repps. Bréf Gríms er ritað 1. maí 1857.
„------Eg varð að láta stefna Repp, en hann hefir beðið um
undandrátt, svo það mál er ekki útkljáð enn, og í millitíð hefur
hann lagst í þunga legu, og er hart haldinn af brjóstveiki,
vesælíngur. Ekki skal eg gánga hart að honum, en niðrí honum
varð eg að þagga, því allt verður að hafa enda bæði gott og illt.“
Málalok eru ókunn, en Repp var kominn að fótum fram, þegar
Grímur ritaði séra Árna. Hann andaðist 4. desember sama ár. Mál
þeirra Gríms hefur því að öllum líkindum lent í varanlegum
undandrætti.