Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1990, Page 27
nokkur bréf íslendinga
27
nýárið hefir hér verið leiðinleg tíð vegna kvefs og ýmissa kvilla
meðal manna. Hér er annars eins og annarstaðar í heiminum ekki
hugsað um annað en verzlun og líkamlega hluti, sem raunar er
von, því menn verða að lifa, ef menn eiga síðan að geta stundað
andans verk. Öll blöð eru nú full af láti Jóns Sigurðssonar, sem
Dönum var svo illa við í lífinu, því hann var sá eini sem aldrei
beygði sig fyrir þeim; þeir álíta hans skoðanir enn rangar og
óhafandi, en þeir hafa aldrei þekkt Island né heldur viljað þekkja
það; „Ný Félagsrit“ voru búin að koma út í 30 ár, áður en Danir
vissu að þau voru til. Jón Sigurðsson var hinn einasti Islendingur,
sem kunni að pólitíséra.
Þér sögðuð við mig, að ég skyldi segja yður frá, ef mig vantaði
nokkuð - en það sem mig vantar og langar til að eiga, er
Microscop, sem stækkar hér um bil 3-400 sinnum. Ég sé oft þessi
Microscop nefnd í blöðunum, svo sem frá Zeiss í Jena, en ég hef
hvergi séð hvað þau kosta; en ég er líka hræddur um, að þau séu of
dýr fyrir mig. Það er samt ómissandi fyrir mig að hafa þetta
instrument, og minni stækkun (magnifying power) vil ég ekki
hafa. Menn vita ekkert um in mikroskopisku dýr hér á Islandi, af
því náttúrufræðingar dvelja hér aldrei nema stutta stund og gefa
sig þá við öðru. Þér sjáið náttúrlega í útlöndum öll blöð og vitið,
hvað allir hlutir kosta, og ef það ekki tæki allt of langan tíma, þá
ímynda ég mér, að þér munið gjöra svo vel og segja mér eitthvað
um þetta.
Ég get ekki ritað yður meira í þetta sinn, því tíminn er orðinn
naumur og examen stendur yfir í skólanum, en seinna vonast ég til
að geta skrifað yður lengra og skemmtilegra bréf - ég tek mér þá
eitthvert thema til að leggja útaf við yður og tefja yður með.
Yðar
Ben. Gröndal.