Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1990, Page 40
40
NANNA ÓLAFSDÓTTIR
kaup eins og þeir tveir kennarar, sem höfBu kennarapróf eins og
hún. Sótti því um 500 kr. árslaun, en þá tóku sig til aðrir kennarar
við Barnaskóla Reykjavíkur, sem engin próf höfðu og sóttu einnig
um fast starf, „þótt þeir gætu auðvitað hvergi komist annars staðar
að skólum, af því að þá vantaði þau skilyrði, sem til þess þurfa, og
ættu þannig á engu öðru völ.--------Hún hafði kostað sig sjálf,
bláfátæk, og gat því ekki goldið skuldir sínar og lifað með móður
sinni af tímakennslu við skólann. Henni var því bókstaflega bolað
burtu frá skólanum.“ Þetta skrifaði Bríet Bjarnhéðinsdóttir í
Kvennablaðið sitt. En Halldóra sagði starfi sínu lausu, þegar
bæjarstjórnin neitaði um fast starf. „Hún komst undir eins að skóla
í Noregi og hefur þar nú níu hundruð króna árslaun, með hækkun
þriðja eða fjórða hvert ár,“ upplýsti Bríet ennfremur.
Bríet lét ekki þar við sitja. Haustið eftir talaði hún við Sigurð
Jónsson áðurnefndan. „Hann hélt prívatskóla seinni part sumars-
ins, áður en barnaskólinn byrjaði, og upplýsti, að þau börn hefðu
verið auðþekkt úr, sem fröken Halldóra hefði kennt, því þar hefði
undirstaðan verið svo vel lögð, að þau hefðu að þekkingu jafnast á
við þau börn, sem hefðu verið miklu lengra komin, þótt þau hefðu
verið skemmra komin í sumum námsgreinunum, til dæmis reikn-
ingi, sem henni fannst að þau ekki hefðu þroska til að fara langt í“
(Kvennablaðið 14. febrúar 1902).
Eftir þessa útreið sótti Halldóra um starf í Noregi, fyrsta árið
sem forfallakennari og var veitt það, en næsta ár sótti hún um fasta
stöðu í Moss við Oslóarfjörðinn (staður á stærð við Reykjavík) og
var veitt starfið. „Umsækjendur voru um tuttugu, svo að það þótti
vel af sér vikið af útlendingi að hljóta hnossið" (Ævisagan, 98).
Móðir Halldóru, frú Björg, bjó heima og beið úrslitanna. Nú
kom hún til Noregs og bjuggu þær mæðgur þarna í Moss öll árin,
til 1908, og undu vel hag sínum. Kennslan gekk vel, og öll varð
dvölin lærdómsrík. Talsvert var um íslenska námsmenn í Noregi á
þessum. tíma, einkum í Asi, á landbúnaðarháskólanum, og einnig
voru íslenskir piltar í vinnu hjá bændum. Þetta fólk kom mikið í
heimsókn, einkum um hátíðir. Einnig kynntust þær mæðgur
ýmsum Islendingum búsettum í Noregi, svo og afkomendum síra
Gísla Jónssonar, hálfbróður Jóns Espólíns, og norskum Islands-
vinum o.fl.
Sumarið 1908 kom í heimsókn til þeirra mæðgna í Moss Jón Þ.
Björnsson frændi Halldóru frá Veðramóti, Jón þá nýútskrifaður
frá Jonstrup kennaraskóla í Danmörku. Hann sagði frá lausum