Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1990, Page 64
64
ÚR BRÉFUM
Garði, 23. júlí 1940
Bréf frá Matthildi Halldórsdóttur
Kæra fröken Halldóra!
Þakka þér kærlega tilskrifið.
Þá er nú fyrst að svara þessu um stúlkuna. Ég get ekki tekið hana
núna, vil hugsa til hennar seinna. Heilsa mín er svo veil, að ég má
ekki bæta við mig. Það sem mér þætti svo slæmt er það, ef ég legðist
og hefði stúlku svona langt að, þá væri dýrt fyrir hana að fara heim
við svo búið. Mig langar til að kenna einhverri stúlku að lita í vetur,
sem hér er stutt frá, og þannig sett, að ég geti gripið til hennar, ef
mér liggur á. Hef ég ekki sagt þér, að ég á von á Margréti frá
Leifsstöðum núna um mánaðamótin. Vil vita, hvernig henni líkar,
áður en ég tek fleiri.
Þá er nú að minnast litarfyrirsagnarinnar. Ég læt ykkur frú
Sigrúnu alveg ráða, hvernig þið birtið þær, bara ekki aðskilja þær
eða breyta þeim. Ég vildi bara láta þig fá þær, svo að ég væri þó
búin að gera það, ég skil ekki í að áhugasamar manneskjur geti
ekki þreifað sig áfram eftir þeirn, en rnikið betra álít ég að hafa
litaðar prufur til að fara eftir, það er svo erfitt að lýsa litarblænum
með nafninu.
Nú sendi ég þér tvær stuttar fyrirsagnir (uppskriftir), svo að þær
eru þá alls 14.
Héðan eru engar markverðar fréttir. Við erum rétt búin að
missa bestu kúna okkar (unga). Tengdamóðir mín biður kærlega
að heilsa þér, hún er mikið skar orðin.
Svo kveð ég þig sem best með þakklæti fvrir allt gott, og óska þér
alls góðs.
Þín einlæg vinkona
Matthildur Halldórsdóttir
Það eru svo margir, sem geta haft rjúpnalauf, þess vegna fannst
mér svo gott að hafa þann lit með.