Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1990, Side 75
TIL HALLDÓRU BJARNADÓTTUR
75
Reykjavík, 13/11 1954
Frá Ingibjörgu Júlíusdóttur
Kæra Halldóra mín,
Bestu þakkir fyrir bréfið og Hlín sem kom til mín með góðum
skilum, sömuleiðis fékk ég frá þér kort með þakkarávarpi fyrir
afmæliskveðjuna. Eg veit ekki hvernig á því stendur að ég man
ekki betur en ég sendi þér línur eftir jólin, ég fékk Hlín á
aðfangadag. Eg bið þig afsökunar, Halldóra mín, og ætla ekki að
láta það koma fyrir aftur. Eg fékk bréfið þitt í gær, er flutt á
Sólvallagötu 34, en vinn á sama stað hjá Olíuverslun Islands B.P.,
byrjaði þar að vinna fyrsta júlí í fyrra sumar að laga mat fyrir
skrifstofufólkið og er laus kl. fimm á daginn, á laugardögum þarf
ég aðeins að láta það hafa morgunkafFi og alla helgidaga frí. Þetta
væri dásamlegur vinnutími, ef ég þyrfti ekki að vinna meira, en því
fer fjarri. Þar sem ég bý núna sem er í kjallaraherbergi og svolítil
kompa, sem ég kalla eldhúsið mitt, en þar er enginn vaskur og
ekkert vatn, en ég hef þar plötu sem ég get eldað á fyrir okkur,
þegar ég er heima, en til að komast þarna inn verð ég að taka
hreingerningu á fimmherbergja íbúð þrisvar í viku og það verð ég
að gera, þegar ég kem heim frá vinnu. Það var ekki sem verst í
sumar, á meðan Atli minn var í sveitinni, en það er erfiðara síðan
hann kom heim. Það er svo mikið meira að gera hjá mér heima
fyrir þegar hann er heima blessaður, það er svo mikil þjónusta sem
þessir menn þurfa. Það er svo sjaldgæft að fá eins endingargóðar
flíkur eins og peysuna serh þú gafst honum. Hann á hana enn og er
í henni alltaf á veturna. Hann sagði líka um daginn þetta væri sú
besta peysa sem hann hefði átt. Þú mátt senda mér fimm blöð til að
selja, Atli ætlar að hjálpa mér að selja þau.
Ég hef ekki tíma til að skrifa meira núna. Kær kveðja frá Atla.
Vertu ævinlega sæl og blessuð, líði þér ætíð sem best.
Þín Ingibjörg (Júlíusdóttir)