Morgunblaðið - 01.05.2001, Page 48
MINNINGAR
48 ÞRIÐJUDAGUR 1. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Það var hamingju-
stund þegar við hjónin
komum fyrst vestur í
Grundarfjörð haustið
1974. Við vorum 28 ára
gömul, sóknarprestur
og madama að taka við
af einstöku sómafólki, sr. Magnúsi
Guðmundssyni og frú Áslaugu heit-
inni Sigurbjörnsdóttur, sem helgað
höfðu þessari fögru byggð krafta
HALLDÓR
FINNSSON
✝ Halldór Finnssonfæddist í Stykkis-
hólmi 2. maí 1924.
Hann lést á Land-
spítalanum 7. apríl
síðastliðinn og fór
útför hans fram frá
Grundarfjarðar-
kirkju 14. apríl.
sína næstliðin 20 ár og
unnið þar frábært
starf. Víst vorum við
hikandi og óráðin eins
og við var að búast, en
móttökurnar sem við
fengum voru hlýjar og
góðar og áður en varði
vorum við og dætur
okkar þrjár orðin hluti
af samfélaginu og hver
dagur lagði til yndi og
annir.
Það varðar miklu
svo skiptir sköpum
hverjir verða fyrir á
lífsveginum til að reyn-
ast þar vinir og samferðamenn.
Ungum presthjónum er það mikils
virði að hitta þá fyrir sem tilbúnir
eru til heils hugar þátttöku í starfi
kirkjunnar og spara hvergi tíma eða
krafta til að skapa sem bestar að-
stæður til starfans.
Í Grundarfirði var marga slíka að
finna og í raun var samfélagið allt
einum huga og heilt í stuðningi og
vináttu við kirkju og kristni. Einn
þeirra sem þar hélt því merki hátt á
loft var Halldór Finnsson. Hann sat
í sóknarnefnd, hann var meðhjálpari
um árabil, söng í kirkjukórnum, var
í byggingarnefnd sem fljótlega var
sett á stofn til að ljúka byggingu
Grundarfjarðarkirkju, og síðar var
hann kosinn á kirkjuþing og sat þar
í nokkur ár.
Halldór var heill í öllum þessum
störfum og brennandi af áhuga í
hverju því sem gat orðið til gagns
og blessunar. Hann var einlægur
trúmaður og eftir að við hjónin
fluttum hingað suður yfir fjöllin var
það ætíð sama gleðiefnið og miklir
fagnaðarfundir, er þau Halldór og
Pálína komu til kirkju á Lágafelli,
sönn í trú sinni að rækja helgan
málstað. Víst hafði hann þegið slíkt
veganesti úr foreldrahúsum. Finnur
faðir hans, hlýr og kærleiksríkur
mannvinur, sem naut mikillar virð-
ingar fyrir störf sín og framgöngu
alla. Finnur var meðhjálpari kirkj-
unnar þar vestra í hálfa öld og það
var hann sem tók fyrstu skóflu-
stunguna að byggingu hinnar nýju
kirkju í þorpinu. Halla kona hans
var einlægur kirkjuvinur og trúræk-
in, skarpgreind og hugsandi mann-
eskja sem ætíð lagði gott til í hverja
umræðu, hreinskiptin og traust. All-
ar þessar góðu eigindir erfði Hall-
dór ríkulega og með lífsstarfi sínu
reyndist hann einn sterkasti mátt-
arstólpi byggðarinnar.
Halldór var eftirminnilegur mað-
ur um margt, glaðsinna, ræðinn og
skemmtilegur, og víða heima. Lífs-
glaður maður, sem kunni vel að
gleðjast á góðri stund, spaugsamur
og hláturmildur og hreif fólk með
sér í barnslegri kátínu sinni. En
æðrulaus maður og yfirvegaður á
mótlætisstundum lífsins, athugull
og glöggskyggn og bjó yfir næmi og
innsæi á lífið og tilveruna sem á
stundum gerði honum fært að sjá
fyrir það sem verða vildi. Hann var
vel menntaður og var snemma val-
inn til trúnaðarstarfa, stjórnaði
Sparisjóði Eyrarsveitar, sat í
hreppsnefnd Eyrarsveitar og var
oddviti hennar í hálfan þriðja áratug
og starfaði auk þess í fjölmörgum
ráðum og nefndum. Hann lét félags-
mál mjög til sín taka og hafði lifandi
áhuga á þjóðmálum. Hann var ötull
og óhvikull fylgismaður Sjálfstæð-
isflokksins. Á þeim vettvangi er
óhætt að segja að Halldór hafi verið
fremstur meðal jafningja, óþreyt-
andi málafylgjumaður og þegar
kosningar stóðu yfir, eða annað það
starf sem inna þurfti af hendi fyrir
málstaðinn, þá var hann í essinu
sínu og ætlaðist til að hver skilaði
sínum hlut. Halldór var einn af
stofnendum Lionsklúbbs Grundar-
fjarðar og trúfastur liðsmaður þess
góða félagsskapar. Hann unni
byggðinni sinni og hafði mikinn
metnað fyrir hennar hönd og verð-
ugur var hann heiðraður af forseta
lýðveldisins fyrir giftudrjúg störf
sín í þágu hennar.
Þeim störfum, og öðru því er
hann tók sér fyrir hendur hefði hon-
um þó aldrei auðnast að skila svo
vel sem raun bar vitni án hjástoðar
eiginkonu sinnar, Pálínu Gísladótt-
ur. Samhent og einhuga skópu þau
sér og barnahópnum stóra, kær-
leiksríka og trausta tilveru. Þau
hvöttu börnin sín og studdu til
menntunar og til að vinna vel úr
sínu af heiðarleika og drengskap.
Þau eru öll vel menntað og dugmik-
ið fólk sem ber foreldrahúsum fag-
urt vitni.
Heimili þeirra hjóna er myndar-
legt og fallega búið og þar ríkir hlýr
andi gestrisni í allra garð.
Þetta góða heimili þeirra Hall-
dórs og Pálínu stóð dætrum okkar
hjóna ætíð opið, og þegar það bar til
að við þyrftum að bregða okkur af
bæ, var það í þeirra hug eftirsókn-
arvert og vel þegið að fá að dvelja
hjá þessum hjartahlýju og glaðværu
manneskjum á meðan. Pálína rak
aukinheldur bókabúð og sá um
lyfjasölu fyrir apótekið í Stykkis-
hólmi og veitti þannig nauðsynlega
og góða þjónustu og hlúði að menn-
ingarlegum gildum.
Með Halldóri Finnssyni er góður
drengur genginn. Minning hans lif-
ir. Við hjónin þökkum kynnin góðu,
samfylgd og samstarf þar vestra í
16 ár. Við þökkum skuggalausa vin-
áttu alla tíð, trúnað hans og hjálp-
semi, áhuga hans og stuðning við
störf okkar á vettvangi kirkju og
þjóðmála. Við þökkum elsku hans
og hlýhug í garð dætra okkar, heil-
indi hans og sanngirni í hverjum
þeim skiptum sem fyrir bar í stríði
daganna.
Byggðin okkar fagra heima í
Grundarfirði sér á bak einum af sín-
um bestu sonum. Þökk samferða-
manna er rík og stór. Við sendum
innilegar samúðarkveðjur til Pálínu
og barna hennar og ástvina allra og
biðjum Guð að blessa minningu lát-
ins vinar.
Jón Þorsteinsson og
Sigríður Anna Þórðardóttir,
Mosfelli.
✝ Ingiríður Hall-dórsdóttir fædd-
ist að Strandarhöfða
í Vestur-Landeyjum
16. október 1926.
Hún varð bráðkvödd
aðfaranótt laugar-
dagsins 21. apríl síð-
astliðinn. Foreldrar
hennar voru hjónin
Katrín Sigurðardótt-
ir, f. 1906, d. 1998,
og Halldór Sölvason
kennari, f. 1897, d.
1971. Systur Ingiríð-
ar eru Þórhildur, f.
1928, Signý, f. 1932,
Sigrún, f. 1934, og Oddný Dóra,
f. 1948. Þær eru allar kennarar
að mennt. Ingiríður giftist Pétri
Eggertssyni, fyrrverandi yfir-
deildarstjóra á Póststofunni í
Reykjavík, f. 1926, hinn 1. janúar
1952. Pétur er sonur hjónanna
Eggerts B. Péturssonar, f. 1901,
d. 1991, og Sigríðar Eggertsdótt-
ur, f. 1904, d. 1994. Synir Ingiríð-
ar og Péturs eru: 1) Halldór
Grétar jarðfræðingur, f. 1953,
kvæntur Guðríði Gyðu Eyjólfs-
dóttur sveppafræðingi, f. 1959.
Þau eiga Ingiríði, f. 1996. 2) Egg-
ert myndlistarmaður, f. 1956,
kvæntur Huldu Hjartardóttur
lækni, f. 1962. Þau eiga: Eyvind,
f. 1981, Pétur, f.
1985, Guðrúnu Ingu,
f. 1995, og Hjört
Pál, f. 1998. Ingiríð-
ur ólst upp í Land-
eyjunum, Mýrdal og
Fljótshlíðinni, en
Halldór faðir henn-
ar var kennari og
skólastjóri á þessum
stöðum áður en fjöl-
skyldan flutti til
Reykjavíkur þar
sem hann kenndi við
Laugarnesskólann.
Eftir nám við Flens-
borgarskólann
stundaði Ingiríður nám við Kenn-
araskólann og lauk þaðan kenn-
araprófi 1948. Hún kenndi söng
og fleira við barnaskólann í
Fljótshlíð og eftir það vann hún,
auk húsmóðurstarfa, skrifstofu-
störf fyrir Happdrætti Háskóla
Íslands, fyrst 1948-53 og aftur
1963-94. Ingiríður og Pétur hófu
búskap sinn í Kleppsholtinu, en
lengst af bjuggu þau á Laugalæk
13 í Laugarneshverfinu. Síðustu
tvö árin var heimili þeirra að
Fornhaga 15.
Útför Ingiríðar fer fram frá
Neskirkju á morgun, miðviku-
daginn 2. maí, og hefst athöfnin
klukkan 13.30.
Ég átti ekki von á því þegar ég
kvaddi hana Ingu tengdamóður mína
á sumardaginn fyrsta að það yrði okk-
ar síðasta kveðja. Hún og Pétur höfðu
komið færandi hendi með sumargjaf-
ir handa börnunum okkar eins og
þeirra var von og vísa. Næsta kvöld
var hún öll, andlátið var skyndilegt,
kom í lok leikhúsferðar hennar og
Péturs og Þórhildar systur hennar.
Þegar ég tók að venja komur mínar
á Laugalækinn var ég ennþá bara
unglingur í menntaskóla en mér var
strax tekið sem fullorðinni manneskju
og sýnd full virðing. Ég fann greini-
lega eftirvæntingu hjá Ingu að kynn-
ast stúlkunni hans Eggerts, hún átti
enga dóttur og hlakkaði greinilega til
að verða tengdamóðir.
Ég naut þess líka í meira en 20 ár
að eiga hana fyrir tengdamóður, mér
var alltaf tekið opnum örmum.
Ég gleymi seint deginum sem Ey-
vindur fæddist, þegar Inga fékk að
koma í heimsókn á Fæðingarheimilið
og halda á litla sonarsyninum, ég held
ég hafi aldrei séð stoltari manneskju
en þá. Ég gerði mér þá grein fyrir því
að ég hafði gefið henni dýrmætari
gjöf en nokkuð annað sem ég hefði
getað fært henni. Öll börnin okkar
Eggerts urðu henni jafnmikið gleði-
efni svo ekki sé minnst á alnöfnuna
Ingiríði dóttur Halldórs og Gyðu. Ég
held líka að það hafi ekki verið hægt
að hugsa sér betri afa og ömmu en
hana og Pétur. Þau höfðu endalausan
tíma og þolinmæði þegar barnabörnin
voru annars vegar og sérstaklega
fengu eldri strákarnir mínir að njóta
þess. Pétur minn sagði einhvern tím-
ann við mig að það að vera hjá afa og
ömmu þegar hann var minni hefði
helst líkst þeim hugmyndum sem
hann gerði sér um himnaríki. Þegar
við fluttum til Englands var enginn
sem Eyvindur saknaði eins mikið og
Ingu ömmu sinnar. Samband þeirra
var alltaf mjög náið og innilegt og ég
veit að hún hugsaði alltaf til hans.
Litlu börnin okkar tvö veittu henni og
Pétri mikla gleði og hún ljómaði af
ánægju þegar við sóttum þau til
þeirra úr stuttri heimsókn nokkrum
dögum áður en hún dó. Henni fannst
þau alltaf hafa verið jafn þæg og alveg
yndisleg, þrátt fyrir að stofan væri
kannski á öðrum endanum og búið að
bíta í margar kexkökur og prófa ým-
islegt úr ísskápnum.
Ég fann það fljótt á Laugalæknum
að þar gat ég verið eins og heima hjá
mér.
Gestrisni Ingu var ósvikin og ein-
læg og hún vildi alltaf eiga eitthvað
gott handa þeim sem komu til hennar.
Hún hafði afar gaman af heimsóknum
og fannst þær kærkomin tilbreyting
frá vinnunni sem hún hafði alltaf
heima við. Þetta vissu allir ættingjar
hennar og nágrannar og vöndu menn
komur sínar í eldhúsið til hennar á
Laugalæknum. Þegar ég þurfti næði
til próflestrar í læknadeildinni fékk
ég að lesa í kjallaranum á Lauga-
læknum.
Þá tókum við Inga okkur oft góð
hlé frá vinnu og lestri og spjölluðum
saman um alla heima og geima, þá
sagði hún mér oft frá uppvexti sínum í
Fljótshlíðinni. Það var greinilegt að
henni hafði þótt afar vænt um föður
sinn og saknaði hans. Samband henn-
ar við móður sína, þangað til hún lést
fyrir tæpum þremur árum, og systur
var sérstaklega náið og þær höfðu all-
ar nær daglegt samband. Hún og Pét-
ur fylgdust alltaf vel með öllu því sem
við Eggert vorum að gera og sam-
glöddust okkur innilega við alla
áfanga í lífi okkar. Gjafmildi þeirra og
rausnarskapur voru engu lík, Ingu
þótti fátt skemmtilegra en að færa
öðrum gjafir. Þar var Pétur henni
samstiga eins og í svo mörgu öðru.
Þau gerðu og fóru alltaf allt saman,
þau voru aldrei aðskilin í sínum nær
50 ára hjúskap nema þegar annað
þeirra dvaldi á sjúkrahúsi. Þau ferð-
uðust mikið um landið og kenndu son-
um sínum að meta náttúru Íslands á
þessum ferðalögum auk sumardval-
anna í sumarbústaðnum þangað sem
fjölskyldan flutti í sumarbyrjun og fór
ekki aftur í bæinn fyrr en að hausti.
Þessi áhugi á náttúrunni hefur á bein-
an hátt mótað störf sonanna beggja.
Utanlandsferðir þeirra Péturs voru
ekki mjög margar en þeim mun meiri
uppspretta ánægju og góðra minn-
inga. Við Eggert fengum að njóta
þess að fá þau tvívegis í heimsókn til
Englands og áhugi þeirra á landinu
sem þau voru að heimsækja var
óþrjótandi. Þau höfðu ráðgert að
halda áfram að kynnast nýjum lönd-
um og njóta þess að hafa nægan tíma
og fjárráð til að geta leyft sér ferðalög
en ferðir þeirra saman verða ekki
fleiri.
Inga hafði mikið yndi af tónlist,
lærði sjálf á orgel hjá Páli Ísólfssyni
sem einnig kenndi henni söng. Hún
fékk ekki tækifæri til að halda nám-
inu áfram en fylgdist af áhuga með
tónlistarnámi barnabarnanna. Hún
hafði sömuleiðis afar gaman af hann-
yrðum sem voru hennar sérgrein í
Kennaraskólanum og liggja eftir
hana mörg falleg verk á því sviði. Ég
hafði hlakkað til að geta beðið hana
um að kenna Guðrúnu Ingu að sauma
út en hún fær ekki að njóta ömmu
sinnar lengur frekar en við hin né alls
þess sem hún hefði getað veitt henni.
Við eigum öll eftir að sakna Ingu en
hugur okkar er þó fyrst og fremst hjá
Pétri sem hefur misst sinn lífsföru-
naut. Ég vil sérstaklega minnast Ingu
fyrir þá hlýju og velvild sem hún auð-
sýndi mér og fyrir að vera börnunum
mínum besta amma í heimi. Ég mun
ávallt varðveita minningu hennar.
Hulda Hjartardóttir.
Enginn veit sína ævina fyrr en öll
er. Hún Inga frænka er dáin.
Þessi fregn kom eins og þruma úr
heiðskíru lofti. Fyrir fáum mánuðum
var hún hress og kát þegar við kvödd-
umst og var með ýmis framtíðar-
áform með Pétri manni sínum. Við
ákváðum að við myndum heimsækja
þau næst þegar við kæmum til lands-
ins og halda áfram spjallinu.
Ég á því láni að fagna að vera
fæddur inn í fjölskyldu með sterkum
og nánum tengslum allra ættliða. Oft
var farið í heimsókn og spjallað og
minnist ég margra ánægjustunda á
heimili þeirra Ingu og Péturs, ekki
síst í eldhúsinu á Laugalæknum, þar
sem alltaf var til kaffi og kökubiti. Var
þá oft mikið rætt um öll þau mál sem
upp í hugann komu. Þetta var lær-
dómsríkt fyrir ungan mann, vegar-
nesti sem gott var að hafa með sér út
á lífsleiðina.
Samstaða systranna, sem töluðu
saman daglega og hittust oft, var
mjög mikil. Ekki síst er mér minn-
isstætt hve mikið þið styrktuð móður
mína við fráfall föður míns í fyrra,
alltaf boðin og búin að hjálpa til.
Ýmsar minningar sækja á hugann
svo sem afmælisveislurnar í Efsta-
sundi 3 þar sem hápunkturinn var
þegar Pétur sýndi okkur töfrabrögð.
Þá eru stundirnar í sumarbústaðnum
ógleymanlegar. Einhvern veginn var
alltaf sól og blíða í þá daga.
Ég vil votta Pétri, Halldóri Grétari,
Eggerti og fjölskyldum þeirra inni-
lega samúð mína og fjölskyldu minn-
ar.
Þá er komið að kveðjustund. Ég
get ekki vegna starfa minna hinum
megin á hnettinum fylgt Ingu til graf-
ar en hugurinn verður þar og hjá ætt-
ingjunum.
Vertu sæl að sinni frænka.
Halldór Jónsson.
Okkur langar í fáeinum línum að
minnast Ingu frænku. Við skyndilegt
fráfall hennar sækja á hugann minn-
ingar sveipaðar hjartahlýju hennar
og glettni. Margar af okkar ljúfustu
og skemmtilegustu stundum í æsku
voru í samvistum við Ingu. Náin
tengsl hafa alltaf verið milli mömmu
og systra hennar og fjölskyldurnar
fóru iðulega saman í ferðalög.
Mamma og pabbi og Inga og Pétur
byggðu samtengdan sumarbústað
þar sem mörgum sumarfríum var
eytt. Það var oft mikið fjör uppí
„summó“ og margt brölluðum við
systkinin með frændum okkar, Hall-
dóri og Eggerti. Alltaf var vel tekið á
móti okkur Ingu og Péturs megin,
hvort sem að það voru heimsóknir
með koppinn eða til að athuga hvort
eitthvað betra væri í matinn þar.
Skilningsríkt viðmót Ingu gagnvart
okkur sem börnum og unglingum
gerði það að verkum að við nutum
þess að vera í návist hennar og tengd-
umst henni sterkum böndum sem
aldrei hafa rofnað. Hún var svo
skemmtileg, pínulítið stríðin og hafði
húmor á lífið og tilveruna. Það er með
söknuði og þakklæti sem við kveðjum
Ingu frænku en við vitum að glettið
og hlýlegt viðmót hennar mun fylgja
okkur gegnum lífið.
Katrín, Sigrún, Sólveig og
Halldór Sölvi.
INGIRÍÐUR
HALLDÓRSDÓTTIR
Fleiri minningargreinar um Ingi-
ríði Halldórsdóttur bíða birtingar
og munu birtast í blaðinu næstu
daga.
EIGI minningargrein að birt-
ast á útfarardegi (eða í sunnu-
dagsblaði ef útför er á mánu-
degi), er skilafrestur sem hér
segir: Í sunnudags- og þriðju-
dagsblað þarf grein að berast
fyrir hádegi á föstudag. Í mið-
vikudags-, fimmtudags-, föstu-
dags- og laugardagsblað þarf
greinin að berast fyrir hádegi
tveimur virkum dögum fyrir
birtingardag. Berist grein eftir
að skilafrestur er útrunninn
eða eftir að útför hefur farið
fram, er ekki unnt að lofa
ákveðnum birtingardegi. Þar
sem pláss er takmarkað getur
þurft að fresta birtingu greina,
enda þótt þær berist innan
hins tiltekna skilafrests.
Skilafrestur
minningargreina