Morgunblaðið - 11.11.2001, Blaðsíða 54
FÓLK Í FRÉTTUM
54 SUNNUDAGUR 11. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
ÞRÁTT fyrir ungan aldur, en Vé-
dís er ekki nema nítján ára gömul,
er hún búinn að gefa út sína fyrstu
breiðskífu, sálarskotna, poppaða R
og B plötu sem kallast In the
Caste. Platan er hin vandaðasta,
prýtt svölu umslagi sem gefur vís-
bendingar um innihaldið, klárt og
keikt nútímapopp sem Védís tjáir
með fagmannlegri rödd sinni.
Þrátt fyrir að vera ekki skriðin
yfir tvítugt hefur Védís verið að
garfa í tónlist um þó nokkurt
skeið. Fyrri ævintýri Védísar á
söngsviðinu hafa aðallega átt sér
stað innan veggja Verzlunarskól-
ans en einnig hefur hún sungið lag
með Bang Gang. Það er líka gam-
an að geta þess að hún á bakrödd-
ina í hinu æringjalega lagi Tví-
höfða „I Miss My Bitch“ sem gefur
til kynna að þessi stúlka tekur sig
ekki of hátíðlega. Enda er hún
hinn alúðlegasti viðmælandi, með
báða fætur kirfilega niðri á jörð-
inni.
Kaffið
Védís býr enn í foreldrahúsum
og tekur þar brosandi á móti mér.
Vísar mér til sætis inni í eldhúsi og
býður mér kaffi eða te. Kaffið, sem
er sérlega ljúffengt er þegið með
þökkum.
Fyrir aftan okkur hangir vegg-
spjald með myndinni sem prýðir
og umslag plötunnar. Á myndinni
situr Védís í hrörlegum og rifnum
stól íklædd jakka með her-
mannamunstri. Á bakvið er hrör-
legur steypuveggur, grænslikjað-
ur. Védís tjáir mér að myndatakan
hafi farið fram í gamla Sædýra-
safninu, sem var rétt fyrir utan
Hafnarfjörðinn. Svöl mynd á ein-
kennilega napurlegan hátt.
Það kemur á daginn að upp-
runalega hafi átt að fá hina og
þessa til að vinna með Védísi að
plötunni en hún hafi verið því fegin
að verkið hafi verið sett í hend-
urnar á einum og sama manninum.
Sem er enginn annar en Barði Jó-
hannsson úr Bang Gang.
„Það var búið að prófa ýmislegt
og þetta virkaði alls ekki eins og
ég vildi,“ segir Védís, rólegri
röddu.
„Þetta samstarf við Barða gekk
mjög vel upp og ég er mjög ánægð
með það. Hljómurinn á plötunni er
þess vegna heildstæður. Valgeir
Sigurðsson (Björk, Egill S.) vann
líka með okkur. Hann kryddaði
nokkur lög en hann kom þó minna
að þessu en stefnt var að í upp-
hafi.“
Védís segist vissulega vera
óreynd í þessum efnum en engu að
síður hafi henni þótt virkilega
þægilegt að vinna plötuna með ein-
um samstarfsfélaga en þess má
geta að lögin á plötunni eru meira
og minna runnin undan rifjum Vé-
dísar sjálfrar.
„Það má segja að „meira er
minna“ hafi verið einkunnarorðin
mín við gerð þessara plötu,“ segir
hún. „Það hefði alveg verið hægt
að hlaða meira á lögin en ég ákvað
að bakka með svoleiðis hluti. Ég
myndi segja að lögin standi nokk-
uð vel, ein og sér.“
Védís segir að nú sé búið að
koma bandi saman í kringum þessa
plötu og eitthvað verði um spila-
mennsku í haust og á næsta ári.
„Ísland er markhópurinn í dag.
Það er oft sem fólk vill æða með
efnið sitt til útlanda strax en það
verður ekki gert með þessa plötu.
Þannig að eins og er einblínum við
á Ísland en ef heppnin er með
manni þá kannski gerist eitthvað
úti.“
Hún segir að stefnan hafi alltaf
verið að reyna fyrir sér í útlöndum
en í bili ætli fólk að halda að sér
höndum og bíða átekta.
Mín tónlist
Í poppgeira þeim sem Védís er
að dýfa tám í tíðkast oft að jakka-
klæddir menn stjórni ferli stjarn-
anna í einu og öllu. Védís hefur
ákveðnar skoðanir á þessu.
„Þú getur verið tónlistarmaður,
þú getur verið söngkona, þú getur
verið lagahöfundur en að mínu
mati ertu ekki alvöru listamaður
nema þú takir að þér eitthvað
verkefni og fylgir því alveg eftir.
Og það hef ég verið að gera. Enda
er þetta mín tónlist, mínir textar,
ég átti algjörlega lokasvarið með
umslagið o.s.frv. Ég hefði ekki vilj-
að hafa þetta öðruvísi, ég vil alls
ekki láta ráðskast með mig á neinn
hátt.“
Svalt nú-
tímapopp
Védís Hervör Árnadóttir er ung og upprennandi söngkona með bein í nefinu. Arnar Eggert
Thoroddsen þáði kaffi af stúlku og spjallaði við hana um nýju plötuna hennar.
Morgunblaðið/Jim Smart
Védís fór með eitt af burðarhlutverkunum í söngleiknum Wake Me Up
Before You Go Go sem Verzlunarskólinn setti upp.
arnart@mbl.is
TENGLAR
.....................................................
www.vedis.com
„Að mínu mati
ertu ekki alvöru
listamaður nema
þú takir að þér
eitthvert verkefni
og fylgir því al-
veg eftir,“ segir
Védís Hervör
Árnadóttir.
Umslagið góða.
Védís gefur út In the Caste