Morgunblaðið - 07.05.2006, Síða 30
30 SUNNUDAGUR 7. MAÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Við breiðu neðan Ármótanna,þar sem Bugða rann út íElliðaárnar fyrir daga stífl-unnar, eru feðgar á ferð.
Það er svalur morgunn í maí, annað
vorið í röð sem feðgarnir deila stöng í
urriðaveiði efst í ánum. Gunnar Sig-
urgeirsson veður út á breiðuna, nokk-
uð fyrir neðan strenginn, áin er býsna
mikil og skoluð. Hann kastar upp fyr-
ir sig og fylgist vökulum augum með
appelsínugulum tökuvaranum reka
niður með straumnum. Eftir nokkur
köst stöðvast tökuvarinn augnablik
og Gunnar lyftir stönginni; annar
urriði morgunsins er á. Gunnar
strekkir á línunni og réttir stöngina
síðan til Hafsteins Björns sonar síns,
sem tekst á við fiskinn þar til faðir
hans nær að renna háfnum undir
hann og smávaxinn urriðinn liggur
innan skamms í vetrargulu grasinu á
bakkanum.
„Þeir eru minni í ár en í fyrra,“
segir Gunnar og horfir á fiskinn. Þeir
fengu annan í Höfuðhylnum fyrr um
morguninn.
„Í fyrra fengum við sjö,“ bætir son-
ur hans við og er ekkert alltof ánægð-
ur með afrakstur morgunsins. „Ég
held við veiðum ekki jafn vel núna.“
Gunnar brosir og fer aftur að
kasta, og segir að það sé synd að ekki
sé hægt að veiða sjálfan strenginn að
þessu sinni, vatnið sé einfaldlega of
mikið til þess, það sé þó heldur að
sjatna. „Í fyrra fengum við fjóra í beit
í strengnum, svona andstreymis.“
Línan stöðvast og Gunnar bregður
við en að þessu sinni er önnur tveggja
flugnanna á taumnum föst í botni.
„Það er mikið af grjóti hérna. Eig-
um við að slíta?“ spyr hann Hafstein
Björn.
„Geturðu ekki vaðið útí og losað
þetta?“ spyr hann á móti.
En Gunnar slítur og missir Killer-
púpu. Hann hnýtir Peacock á í stað-
inn.
Í fimm stiga frosti í Hítará
Gunnar þekkir Elliðaárnar mjög
vel. „Ég kom fyrst hingað með pabba
þegar ég var fimm ára. Ég ólst upp í
Vogahverfinu og fór snemma að hjóla
hingað til að fylgjast með veiðimönn-
um. Ég er búinn að veiða í Elliða-
ánum í yfir 30 ár – hef aldrei misst úr
sumar.“
Gunnar er reyndur veiðimaður og
veiðir mikið. Hann er þegar búinn að
fara tvisvar í bleikjuveiði í Hítará í
vor. „Við opnuðum ána fyrsta og ann-
an apríl og veiddum í fimm stiga
frosti. Við fengum ellefu fiska, þar af
sex bleikjur og misstum fjórar. Svo
fórum við aftur í Hítará 29. apríl og
sáum þá í veiðibókinni að það voru
einu bleikjurnar sem komu upp allan
mánuðinn. Við sáum ekki fisk alla
ferðina. Það er eitthvað að gerast með
bleikjuna, veiðin hefur farið minnk-
andi með hverju ári.“
Hann veiðir sig rólega áfram niður
breiðuna, lætur flugurnar reka yfir
nýtt svæði í hverju kasti. „Þetta er
falleg breiða. Ég hef aldrei kastað á
hana fyrr. En ég hef einu sinni fengið
lax þarna niðurfrá, á Horninu,“ segir
hann. „Það er gaman að geta komið
hingað í árnar, inní miðri borg.
Sjarminn er reyndar aðeins að fara af
þeim eftir því sem byggðin færist
nær, en engu að síður er þetta ótrúleg
perla.
Svo gáfu Elliðaárnar ágætlega í
fyrra. Ég er samt búinn að fylgjast
svo lengi með ánni að mér finnst þetta
ekki vera nein laxagengd miðað við
hvernig þetta var.“ Hann vippar flug-
unum upp á land og sest niður. „Lax-
veiðin var skrýtin hjá okkur í fyrra.
Við vorum á mjög góðum tíma og það
var allt pakkað af fiski í Þrepunum og
hyljunum við Félagsheimilið, en svo
var steindautt á fluguveiðisvæðinu.
Maður sá varla fisk þar.
Ég fór tvisvar í laxinn í fyrra, við
fengum þrjá í annað skiptið, einn í
hitt. Maður fær oftast eitthvað.“
50 myndavélar við Fossinn
Gunnar tekur aftur að kasta og fær
strax töku en sá lekur af. „Þessi var
miklu stærri, Hafsteinn,“ segir hann
og þeir hlæja feðgarnir.
„Ég hef ekkert veitt urriða hér að
ráði nema hér áður vorum við að fá þá
í Norðlingavaði hér fyrir ofan. Þá
mátti veiða á maðk, við vorum að
renna fyrir lax þar og urriðinn var að
taka líka. En maður fór ekki í Elliða-
árnar til að reyna við urriðann, enda
var nóg að gera í laxinum í gamla
daga.“
Hann kastar langt upp breiðuna og
augnabliki síðar strekkist á línunni.
Urriðinn tekur á móti af krafti. „Þessi
er viðræðuhæfur!“ segir Gunnar.
Hafsteinn Björn háfar fallegan fisk
sem er um eitt og hálft pund og legg-
ur hann síðan hjá hinum.
Þegar Gunnar er spurður um eft-
irlætis veiðistað sinn í Elliðaánum
segir hann að það hljóti að vera Síma-
strengur, vegna minninga sem hon-
um tengjast. „En hann hefur breyst
mikið, það er ekki sjón að sjá hann.
Það er samt eðlilegt að veiðistaðir
taki breytingum. Hundasteinar er
líka mjög skemmtilegur veiðistaður –
Elliðaárnar væru líklega besta veiðiá
í heimi ef hún væri ekki inní miðri
borg. Hér geta bæði maðka- og flugu-
veiðimenn unað sér á gríðarlega fal-
legum veiðistöðum sem henta þeirra
veiðiaðferðum frábærlega. Hér í efri
ánni eru allir veiðistaðirnir flottir.
Mér þætti eitthvað vanta í sumarið
ef ég færi ekki í Elliðaárnar.
Í fyrra fórum við í fyrsta skipti þrír,
ég, pabbi og Hafsteinn Björn …“ og
hér tekur annar, Gunnar dregur inn
línu og réttir Hafsteini Birni stöng-
ina. „Þú tekur þennan!“ segir hann.
Gunnar fylgist með syninum sem
gerir allt rétt og þreytir urriðann eftir
kúnstarinnar reglum. Að löndun lok-
inni kemur hann fiskinum fyrir hjá
hinum. Gunnar skoðar fluguna, litla
Pheasant Tail. „Flugan er eiginlega
ónýt eftir þetta,“ segir hann og skiptir
um. Hann heldur áfram að rifja upp
fyrri kynni af Elliðaánum.
„Það er eftirminnilegt hvað var
stundum mikill fiskur neðst, ekki
bara í Fossinum eða á Breiðunni,
heldur líka í Holunni, við Steininn, í
strengnum milli Breiðunnar og Hol-
unnar; það var fiskur bókstaflega alls
staðar. Neðri-Móhylur var líka mjög
skemmtilegur veiðistaður.
En það þarf að fara með öðru hug-
arfari í Elliðaárnar en aðrar ár. Við
pabbi vorum einu sinni í Fossinum og
veiddum vel. Tókum fjóra laxa í beit.
Þá stoppaði hjá okkur rúta full af jap-
önskum ferðamönnum sem voru með
þær stærstu myndavélar sem ég hef
nokkru sinni séð. Það hljóta að vera
myndir af okkur feðgum að draga
laxa í svona 50 japönskum fjölskyldu-
albúmum! Þetta gerist hvergi annars
staðar. En manni þykir bara svo vænt
um þessa á, þótt maður megi búast
við því að fótbolti lendi út í hylnum
sem maður er að veiða í.“
Urriðasúpa í matinn
Gunnar heldur áfram að kasta á
breiðuna og setur fljótlega í enn einn
fiskinn. Sá er býsna vænn og brúnin
lyftist heldur á Hafsteini Birni; þetta
er sá fjórði á þessum stað. „Það verð-
ur urriðasúpa í matinn í kvöld,“ segir
pabbi hans.
Gunnar beitir andstreymisveiði
mikið í silungi.
„Til að nota þessa aðferð vil ég
samt helst þekkja staðinn sem ég er
að veiða. Það tekur langan tíma að
fara yfir hvern veiðistað. En þetta er
mjög öflug tækni. Ég veiði aðallega
bleikju svona en einnig lax, þótt ég
noti ekki tökuvara við hann. Þegar
annað er að bregðast hefur stundum
bjargað manni að kasta upp straum-
inn og láta fluguna koma í andlitið á
fiskinum á dauða reki.“
Hann segist hafa veitt mikið í
Elliðavatni hér áður fyrr en áhuginn
hafi dvínað á síðustu árum, eftir að
bleikjan fór að hopa mikið fyrir
urriðanum. „Þessi fjölgun urriðans á
vatnasvæðinu er sérkennileg. Urrið-
inn er að yfirtaka allt. En ef maður
lendir í bleikjunni í vatninu er hún
bráðskemmtileg.
Áður átti ég sumarkort í vatninu og
var þar öllum stundum. Það var
skemmtilegur kúltúr í kringum
Elliðavatnið.“
Gunnar hefur í augnablik gleymt
að hugsa um kastið og nú er taum-
urinn rammflæktur með báðum flug-
unum um tökuvarann. Hann horfir á
hnykilinn. „Svona fer þetta í vindin-
um ef maður verður kærulaus.“ Hann
hristir höfuðið og ræðst á flækjuna.
„Þetta má kalla allsherjar tjón á
taum! Og það er vonlaust að ráðast í
svona aðgerð í fimm stiga frosti, því
kynntist ég við Hítará um daginn. Þá
er bara að fara inn í hús og hlýja sér.“
En að þessi sinni er Gunnar fljótur
að greiða úr flækjunni og innan
skamms leggst hvít línan aftur út á
strauminn. Hann segir að sá veiði-
skapur sem heilli sig hvað mest sé þar
sem hann getur haft gott pláss og ver-
ið útaf fyrir sig. „Ég þarf að ganga
mikið þegar ég er að veiða. En ég er
að veiða bleikju, lax, urriða og sjóbirt-
ing, finnst þetta allt skemmtileg. En
þetta er meira en að veiða fisk, útiver-
an, náttúran – þótt ég hafi ekki verið
alveg á því þegar ég byrjaði að veiða,“
segir hann og brosir. „Þá var maður
bara að drepa. En það er best að
halda áfram.“ Og þeir feðgar veiða sig
áfram niður með ánni; annar með
stöng, hinn háf, og á bakkanum liggja
urriðarnir í snyrtilegri röð.
STANGVEIÐI | VEITT MEÐ GUNNARI SIGURGEIRSSYNI OG HAFSTEINI BIRNI SYNI HANS Í ELLIÐAÁNUM
Þetta er
ótrúleg perla
Morgunblaðið/Einar Falur
Feðgarnir við Elliðaárnar. Gunnar fylgist með Hafsteini Birni þreyta einn urriðann. Þeir lönduðu 15 þennan morgun.
Eftir Einar Fal Ingólfsson
efi@mbl.is
GUNNAR Sigurgeirsson er markaðs-
stjóri Nóa-Síríus. Hann hefur BS-gráðu
í matvælafræði og meistarapróf í hag-
fræði. Hafsteinn Björn sonur hans, 10
ára, er í Borgaskóla og hefur æft
handbolta og fótbolta. Þeir feðgar eru
miklir stuðningsmenn Liverpool.
Hafsteinn Björn veiddi sinn fyrsta
fisk þegar hann var sjö ára, en það var
urriði í Korpu. Í fyrra náði hann að
veiða stóran ál á vatnasvæði Lýsu, en
faðir hans hefur aldrei veitt ál. Gunnar
segist hafa veitt fyrstu fiskana þegar
hann var fimm eða sex ára en var sjö
ára þegar hann veiddi fyrsta laxinn.
„Það var í Dunká. Við pabbi veiddum
þar í tíu ár, tvisvar á sumri. Það voru
miklir ævintýradagar,“ segir hann.
Veiddi stóran ál í fyrra
Gunnar Sigurgeirsson og Hafsteinn
Björn, sonur hans.
Grandagarði 2, sími 580 8500
Lúxus á hjólum
Hjólhýsi verða ekki öllu vandaðri eða glæsilegri en
Hymer hjólhýsin enda hafa framleiðendur þeirra
verið í fararbroddi hjólhýsaframleiðenda í Evrópu
síðustu áratugi.
Tryggðu þér hjólhýsi
á gamla genginu
til 9. maí
Opið
virka daga 10 – 18
laugardaga 10 – 16
sunnudaga 12 – 16