Morgunblaðið - 25.02.2007, Side 35

Morgunblaðið - 25.02.2007, Side 35
Hugsað upphátt MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25. FEBRÚAR 2007 35 „… en þið hafið auðvitað heyrt um gamla manninn sem spáir í iljar á ungum stúlkum,“ sagði kennarinn íbygg- inn og hætti að tala um útþvældar spádómslistir ásatrúarmanna. Eins og byssubrennt rétti unga fólkið úr sér undan fargi menningararfs- ins og úr augum þess logaði ýmist áhugi eða hneykslun. „Algjör perri!“ hvæsti ein stúlkan og nokkrir úr hópnum kröfðust þess að fá nánari deili á málinu. Nývak- in athygli nemendahópsins nægði hins vegar til að ljúka kennslu- stundinni. Bragðið hafði heppnast. Að sjálfsögðu var þetta ekki svo ýkja merkilegur atburður en í sögu mannkyns hefur oft verið gripið til svipaðra úrræða til að hrista upp í syfjulegum áheyr- endum. Til dæmis segir sagan að prestar miðaldakirkjunnar, sem gjarnan voru einu virku fjölmiðl- arnir á sínum tíma, hafi stundum kryddað guðsorðið með sögum af Artúri konungi og köppum hans til að fá söfnuði sína til að sperra eyr- un. Og sögur af lífi og dauða Önnu Nicole Smith vekja greinilega meiri áhuga hjá fólki en spásagnir um líf eða dauða íslensku krón- unnar. Dagana fyrir umrædda kennslu- stund hafði hvorki krónan né Anna heitin átt óskipta athygli lands- manna. Það voru hins vegar fréttir af hvers kyns ofbeldi og öfug- uggahætti fyrr og nú. Fólk hafði setið sem steini lostið yfir fréttum af ógæfufólki úr Byrginu og harð- ræði gagnvart umkomulausum drengjum í Breiðavík en umræðan um hvort tveggja hafði sterkan kynferðislegan undirtón. Um svip- að leyti var ítrekað fjallað um dæmda barnaníðinga, alþjóðlega klámhringi og ýmiss konar kyn- ferðisofbeldi. Fátt þótti í frásögur færandi annað en það sem virtist eiga sér stað neðan þindar. Því var ekki furða þótt saga af gamlingja með afbrigðilegar spádómskúnstir vekti viðbrögð hjá unglingunum. Sú var tíðin að lögreglan brýndi fyrir blaðamönnum að skýra ekki opinberlega frá sjálfsvígum. Sann- leikurinn væri sá að fréttir um að maður hefði stytt sér aldur hryndu einatt af stað fleiri harmleikjum. Þær virtust hleypa kjarki í aðra sem stæðu tæpt í lífinu. Gæti ekki hugsast að öll þessi opinskáa um- ræða um afbrigðilegt kynlíf og níð- ingsverk gagnvart bágstöddum hafi svipuð áhrif og grafi undan siðferðisvitund þeirra sem tæpt standa á því sviði? Spyr sá sem ekki veit. Þetta er Ísland í dag segir fólk og yppir öxlum. Og jafnvel kennari á sjötugsaldri, sem þolir hvorki klám né grófyrði, grípur til þess óyndisúrræðis að krydda dýr- mætan menningararf með sögu af upplognum perra. Algjör perri! Guðrún Egilson smáauglýsingar mbl.is

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.