Morgunblaðið - 25.11.2007, Síða 33
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25. NÓVEMBER 2007 33
Samtalið við Sjón skrifaði ég á
skíðahóteli í Noregi. Ég hafði pantað
mér þá skíðaferð fyrir löngu ásamt
vinum mínum, en þegar þarna var
komið varð ég að hafa mig allan við til
þess að ljúka við bókina í tæka tíð.
Þegar vinir mínir fóru í brekkurnar á
morgnana fór ég inn á bar að skrifa og
sat þar við þangað til þeir komu aftur
á klossunum síðdegis. Ég fór aldrei í
fjallið í þessari ferð. En ég kláraði
samtalið við Sjón.“
Konurnar gáfu af sér fleiri liti
– Var það tilgangurinn að spyrja
viðmælendurna skáldspjörunum úr?
„Já, það má eiginlega segja það. Er
það ekki?“ Og Pétur lítur hróðugur til
mín. „Ég talaði tvisvar við hvern og
einn. Fyrra skiptið var langt og ít-
arlegt viðtal sem ég skrifaði og svo
hittumst við aftur til þess að fínpússa
og flétta samtölin saman og ég að fá
þá aftur í blóðið.
Ég fór nákvæmlega út í smáatriðin
við þá; spurði til dæmis hvort og þá
hvernig tónlist þeir notuðu til þess að
koma sér í gang.“
– Af hverju það? Notar þú tónlist
undir skrifin?
„Það gekk eiginlega betur að skrifa
heima í risherberginu á Sólvallagöt-
unni þegar ég var kominn með gamla
grammófóninn minn og plöturnar.
Þessir gömlu hlutir sköpuðu notalega
stemningu.“
– Og tónlistin?
„Það var Tom Waits með sinni
hrjúfu viskírödd, sem fær mann til að
upplifa sig inni á bar.
Ég skrifaði hreint ekki allt heima
við. Mér finnst nefnilega þægilegt að
skrifa á kaffihúsum og jafnvel börum.
Ég vandi mest komur mínar á Kaffi-
vagninn. Þar láta menn hver annan í
friði, kaffið flæðir endalaust eins og
sjórinn fyrir utan og útsýnið yfir höfn-
ina er einstakt. Þarna sá ég oft menn
sem voru í fréttunum og töldu sig
óhulta fyrir blaðamönnum.“
– Viðmælendur þínir eru karlar og
konur. Fannstu einhvern mun á þeim
sem rithöfundum?
„Ég fann það í samtölum mínum
við konurnar að skriftirnar voru þeim
erfiðari en körlunum, þær áttu í miklu
meiri togstreitu og þyngri glímu við
að fá ráðrúm til þess að sinna þessari
þörf. Guðrún Helgadóttir var komin
fast að fertugu þegar hún fékk loks
tóm til þess að skrifa bækur. Þessi
togstreita minnkaði eftir því sem kon-
urnar eru yngri. Þær fundu hins veg-
ar mjög fyrir því að þær ætluðu ekki
að verða rithöfundar; í skólanum
horfðu allir á strákana til þess. Vigdís
Grímsdóttir segir frá því, að kenn-
arinn í skólanum hafi spurt hana,
hvort hún ætlaði að verða rithöf-
undur: „Eftir að kennarinn í skól-
anum las ritgerð sem ég skrifaði um
hræðilegt flugslys horfði hann ein-
kennilega á mig og spurði hvort ég
ætlaði að verða rithöfundur. Ég vissi
að konur sem skrifuðu þóttu und-
arlegar – að vera að stelast í jakka af
körlum! Og man að ég sagði við vin-
konu mína á heimleið úr skólanum:
„Heyrðirðu hvað hann sagði við mig?
Heldur hann virkilega að ég ætli að
verða einhver aumingi?““
Hjá þeirri yngstu er hins vegar
engin togstreita. Guðrúnu Evu Mín-
ervudóttur þótti sjálfsagt að einhver
vildi gefa hana út. Hún labbaði sig
einfaldlega með tvær smásögur inn í
Bjart og beið meðan Snæbjörn las
þær yfir. Hann pantaði 20 í viðbót á
staðnum.
Annan mun fann ég á konunum og
körlunum. Ég las verk kvennanna í
einni lotu og taldi mig eftir það finna
að konur skrifa af meira næmi en
karlar. Ég fann til einhvers kvenlegs
innsæis innra með mér, varð uppfullur
af bragði og lykt og sá veröldina í fleiri
litum en ella.“
Síðasti fundur okkar Þorsteins
– Er eitthvert atvik öðrum fremra
úr sköpunarsögu þessarar bókar?
„Allt var þetta stórkostlegt fólk að
kynnast í gegnum bækurnar að ég tali
nú ekki um samtölin. Þetta var ein
stanzlaus veizla.
En eftir á situr sérstaklega í mér
síðasti fundur okkar Þorsteins Gylfa-
sonar.
Þorsteinn hringdi í mig einn góðan
veðurdag; hann hafði þá daginn áður
fengið að vita að hann ætti stutt eftir.
Hann sagðist vera ánægður með sam-
tal okkar og vildi að við hittumst aftur
til þess að ganga endanlega frá því og
Kristinn gæti tekið af honum myndir
áður en hann léti of mikið á sjá. Við
hittumst á miðvikudegi og Þorsteinn
var sjálfum sér líkur; sögumaður af lífi
og sál og húmoristi af beztu tegund.
Mánudaginn á eftir var hann allur.
Það má eiginlega segja það að Þor-
steinn hafi gert útslagið með að ég
kláraði bókina. Ég ákvað að einhenda
mér í hana, sagði upp hjá Íslands-
banka og veitti sjálfum mér rithöf-
undastyrk að fordæmi Sigurðar Guð-
mundssonar.“
– Hvar stendur þú í þessu öllu?
„Ein glíman í bókinni var hversu
mikið af sjálfum mér ætti að vera í
viðtölunum. Í þeim efnum fór ég fram
og tilbaka. Mér finnst mikilvægt til
þess að skapa samtal að lesandinn
hafi mynd af þeim sem tekur viðtalið.
Hins vegar má ekki ganga of langt,
því þá er höfundurinn að trana sér
fram og það er fráhrindandi. Það
truflar flæðið í viðtölunum.
En vald viðtalshöfundarins er mik-
ið, ekki sízt í rituðu máli. Hann velur
og hafnar, setur það í samtalið sem
honum finnst skipta máli. Hann gæð-
ir það lífi. Menn sem taka viðtöl í út-
varp eða sjónvarp hafa minna frelsi.
Viðtölin fara í loftið eins og þau koma
af skepnunni. Þess vegna verða ljós-
vakamenn umfram allt að tala við fólk
sem þeir vita fyrirfram að er
skemmtilegt viðræðu. Þeir sem skrifa
í blöð og bækur geta hins vegar gefið
sér tíma til þess að fá eitthvað
skemmtilegt upp úr öllu fólki. Þeir
geta látið feimið fólk sjást, eins og
Þorsteinn Gylfason orðaði það.“
– Hvaða galdur er þetta við að
skrifa?
„Ég hef alltaf verið þeirrar gerðar
að hlutirnir hafa ekki gerzt fyrr en ég
er búinn að skrifa um þá, festa þá á
blað.
Annars hafa þeir orðið til einskis.
Ég veit fátt skemmtilegra en að ná
einni óáþreifanlegri hugsun í áþreif-
anlega texta, koma á hana böndum,
fyrr finnst mér ekkert í hugmyndina
spunnið.“
– Hvernig er svo að standa með
bókina sína í höndunum?
„Huldar Breiðfjörð sagði að sú til-
finning að fá bók sína í hendur væri
eins og fíkn, sem engin leið er að
komast hjá.“
– Og er það svo?
„Ég get ekki neitað því. Ég er stað-
ráðinn í að skrifa aðra bók.“
– Þér ætti ekki að verða skotaskuld
úr því að skrifa metsölubók, þegar þú
ert búinn að læra öll trixin í brans-
anum.
Pétur hlær. „Ég veit nú ekki. Þessi
næsta bók er enn stutt í huga mínum.
Það má vera að það sé blekking en
slík sjálfsblekking er mér nauðsynleg
til þess að setjast að verki.
Ef það verður skáldsaga, þá nota
ég aðferðina hans Einars Kárasonar.
Það er engin leið að setjast niður til
þess að skrifa 200 blaðsíðna skáld-
sögu. Þú skiptir henni bara í 10 blað-
síðna kafla, því það er ekkert mál að
setjast niður og skrifa 10 blaðsíður.
Annað sem ég hef lært af viðmæl-
endum mínum í þessari bók er að
safna í hreiður. Þeir eru kannski með
nokkur hreiður á borðinu og þótt ein
sé aðalbókin, þá eru þeir stöðugt að
safna efni í hinar.
Nú er ég með ýmsar hugmyndir í
kollinum og bíð eftir næsta matarboði
hjá Einari og Hildi.“
freysteinn@mbl.is
Ég talaði tvisvar við hvern
og einn. Fyrra skiptið var
langt og ítarlegt viðtal
sem ég skrifaði og svo
hittumst við aftur til þess
að fínpússa og flétta
samtölin saman og ég
að fá þá aftur í blóðið.
Boðið er upp á fjögur sérsvið:
MEISTARANÁM Í
BYGGINGARVERKFRÆÐI oG
TENGduM FAGGREINuM
• Framkvæmdastjórnun
• umferð og skipulag
• Mannvirkjahönnun
• Concrete Technology
(Steinsteyputækni, kennt á ensku)
Nánari upplýsingar:
Ingunn Sæmundsdóttir
s.: 599 6440
ingunn@ru.is
www.hr.is
Nýir nemendur verða teknir inn á vorönn 2008.
Umsóknarfrestur er til 30. nóv.