Náttúrufræðingurinn - 1969, Blaðsíða 70
112
NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN
Þróunarsaga jarðvegseyðingarinnar endurspeglar allar þrjár meg-
inorsakir stórfelldrar jarðvegseyðingar. Návist mannsins og húsdýra
hans fór strax að segja til sín með auknu áfoki á norðausturhluta
svæðisins. Fram til 1100 var þó um enga stórfellda jarðvegseyðingu
að ræða, en árið 1104 gaus Hekla mesta öskugosi sínu á sögulegum
tíma (S. Þórarinsson 1968). Askan og vikurinn frá þessu gosi dreifð-
ust yfir miðhálendið 1 ríkum mæli, og öskugeirinn frá því náði
inn á austanverða Haukadalsheiðina. Loftslag fór einnig mjög kóln-
andi á 12. öld og hélzt svo frarn yfir 1300, en þá hlýnaði nokkuð
aftur (P. Bergþórsson 1967). Á 12. öldinni lögðust því allar þrjár
meginástæður jarðvegseyðingarinnar á eitt við jarðvegsrolið. Rúm-
lega tvær aldir voru liðnar frá landnáminu, svo að áhrif þess voru
lögzt með fullum þunga á gróðurinn, en við bættust bæði stórfellt
öskugos og kólnandi loftslag. Afleiðingin af þessu varð geigvænleg
jarðvegseyðing, svo að hún hefur að öllum líkindum aldrei verið
meiri. Veturinn 1226 er nefndur í annálum: „Sandavetur, vegna
skaðlegs sandfoks" og veturinn 1227: „Sandavetur, eins og sá næsti
á undan“ (Gísli Oddsson 1637). Bendir þetta til þess, að stórkostleg
jarðvegseyðing hafi verið þessi ár. Þó ber þess að gæta, að orðið
sandavetur er oft notað í fornum heimildum til að tákna öskufall.
Það er því vert fyrir sagnfræðinga að hafa þetta í huga, þegar rann-
sökuð er saga Sturlungaaldarinnar og sjálfstæðismissisins, því að
jarðvegseyðingin hlýtur að liafa haft afdrifáríkar afleiðingar fyrir
landbúnaðinn bæði sunnanlands og norðan.
Verulega dró úr jarðvegseyðingunni upp úr 1300, enda fór þá
loftslag hlýnandi og áhrifin af Heklugosinu 1104 dvínuðu. Heklu-
gosið árið 1300 vó að vísu í sama knérunn, en öskumagn þess var
margfalt minna. Áhrif mannsins og húsdýranna gætti þó áfram, svo
að jarðvegseyðingin stöðvaðist ekki, þó að hún gengi nú hægara
fyrir sig.
Loftslagið kólnaði svo mjög aftur á 17. öld og Iiélzt svo 18. og
19. öldina (P. Bergþórsson 1967). Askan frá Heklugosunum 1693
og 1766 og Kötlugosinu 1721 dreifðist yfir Haukadalsheiðina og
nágrenni. Afleiðingin af þessu varð ný jarðvegseyðingarskriða, eins
og áður hefur verið lýst. Það mun því liafa verið fyllsta ástæða til,
að bændurnir börmuðu sér sáran yfir ágangi sandfoks og landspjalla
af völdum Heklugossins, þegar Árni Magnússon tók saman jarða-
lýsinguna fyrir Biskupstungur í Skálholti árið 1709.