Andvari - 01.06.1963, Blaðsíða 48
46
GUÐMUNDUR BÖÐVARSSON
ANDVAllI
á nóttum og í illum veðrum gat þeim ver-
ið nauðsyn á að halda því saman á trygg-
um stað. Og fáir voru til þess ákjósan-
legri en urðarbrekkan sunnanundir hraun-
kambinum, með fjárheldri brún kambsins
að norðan og straumkast Hvítár að sunn-
an. Það er ekki um langan veg að reka úr
Skógarhrauni í Girðingar og engar tor-
færur um að ræða, nema Litlafljót, sem
engin torfæra er, fyrr en vorleysingar eru
komnar í algleyming. Því mætti það vera
að hér sæjust enn handaverk þeirra nauð-
leytamanna er hér björguðu fé sínu í
hörðum vorum, og væri þá um að ræða
enn einar minjar þeirrar lífsbaráttu, er
liðnar kynslóðir háðu í þessu landi.
Ég gat þess í upphafi að umhverfi
Barnafoss væri um flest fagurt og sér-
kennilegt. Þar átti ég við það, er opið
liggur fyrir augum á heiðum sumardegi.
En fáa staði veit ég öllu daprari um að
fara á svartri skammdegisnótt fótgang-
andi og einn saman. Þá eru umbrot og
dunur árinnar í dimmum undirgöngum
hennar nóg til þess að vekja myrkfælnum
manni hjartageig, og ekki örvænt að mæta
þar á mjórri brúnni svipum þeirra er
forðum fóru hér um í drápshug á tímum
Heiðarvíga, dulum mönnum og þungum
undir brún, eða þeirra svipum, er þessi
foss hefur til sín kallað og níst í örmum
sínum án allrar miskunnar.
Ég veit að ísland er sjálfu sér líkt, víðar
en á þessum stað, í því að leiða saman í
eitt sitt eigið svipmót og sögu þeirrar þjóð-
ar er þar hefur búið frá öndverðu, þó
persónulega finnist mér að það geri það
á fám stöðurn svo áþrengjandi sem við
Barnafoss og í umhverfi hans.