Andvari - 01.01.2002, Blaðsíða 64
62
SIGURÐUR RAGNARSSON
ANDVARI
Á haustdögum 1939 dró til tíðinda í Sósíalistaflokknum. Undirrót
þeirra voru atburðir á alþjóðavettvangi. Hinn 23. ágúst barst sú óvænta
fregn um heiminn, að Sovétríkin og Þýskaland hefðu gert með sér
griðasáttmála. Hinn 1. september réðust Þjóðverjar á Pólland, og
tveimur dögum síðar sögðu Bretar og Frakkar Þjóðverjum stríð á
hendur. Brátt kom á daginn, að skoðanir voru skiptar innan Sósíalista-
flokksins um afstöðuna til griðasáttmálans og hvernig meta bæri eðli
og inntak þeirrar styrjaldar, sem nú var hafin. Þeir Héðinn Valdimars-
son og Benjamín H. J. Eiríksson gagnrýndu sovétstjórnina í greinum í
Þjóðviljanum. Þeir töldu hana komna inn á varhugaverða braut með
stefnu sinni. Brynjólfur Bjarnason varð einkum til andsvara, en Hall-
dór Kiljan Laxness og Þórbergur Þórðarson skrifuðu einnig greinar,
þar sem tekið var í svipaðan streng.2' Brynjólfur lagði áherslu á, að
með griðasáttmálanum hefðu Sovétríkin verið að tryggja réttmæta
öryggishagsmuni sína, og þá hagsmuni ætti vinnandi fólk um allan
heim sameiginlega með þeim. Hann skilgreindi stríðið sem stórvelda-
styrjöld, baráttu landvinningaþyrstra auðvaldsríkja um markaði og hrá-
efni. Var sú greining mjög í sama anda og greining Leníns á heims-
styrjöldinni fyrri og féll einnig vel að þeim boðskap, sem Komintern
lét um þessar mundir út ganga í alþjóðahreyfingu kommúnista að und-
irlagi sovétstjórnarinnar. Á fundum í flokksstofnunum urðu sjónarmið
Brynjólfs og skoðanabræðra hans ofan á.
Áður en fyllilega yrði ljóst, hver áhrif þessara deilna yrðu á Sósíal-
istaflokkinn til frambúðar, urðu nú þeir atburðir, sem skóku flokkinn á
grunni sínum: Sovétríkin gerðu innrás í Finnland hinn 30. nóvember
1939. Aðdragandinn var sá, að sovétstjórnin hafði óskað eftir við-
ræðum við finnsku stjórnina um flotabækistöð á Hangöskaga og breyt-
ingar á landamærum ríkjanna. I þeim viðræðum lögðu Sovétmenn
áherslu á, að Finnar létu af hendi land á Kirjálaeiði milli Ladogavatns
og Finnska flóa, en buðu Finnum á móti hluta af Sovét-Karelíu norðar
á landamærunum. Má Ijóst vera, að þessar kröfur sovétstjórnarinnar
miðuðu að því að treysta varnir Leníngradsvæðisins.
Þegar Finnar höfnuðu óskum Sovétmanna, létu þeir síðarnefndu
vopnin tala, og þar með hófst finnska vetrarstríðið, sem svo hefur verið
nefnt. Aðgerðir Sovétmanna vöktu hörð viðbrögð jafnt hérlendis sem
erlendis, ekki síst á Norðurlöndum. Jafnframt leiddi stríðið til uppgjörs
í Sósíalistaflokknum. Á miðstjórnarfundi í flokknum 2. desember
lagði Héðinn Valdimarsson fram tillögu um, að flokkurinn lýsti yfir