Andvari - 01.01.2002, Blaðsíða 110
108
HJALTI HUGASON
ANDVARI
síst vegna þess að danska, mál herraþjóðarinnar, tók við af latínu sem kirkju-
mál. Hér er auðvitað ekki aðeins íslenskum siðaskiptafrömuðum fyrir að
þakka heldur skipti sköpum að Islendingar bjuggu að langri bókmenntahefð
á móðurmáli.41 Hver svo sem ástæðan er verðskuldar íslenska kirkjan á dög-
um Islandsklukkunnar þó heitið landskirkja að þessu leyti til.
Annað einkenni á kirkjunni var að klerkastéttin var alíslensk að ætt og
uppruna. Þá hafði þorri stéttarinnar einvörðungu menntast innanlands. Af
þeim sökum voru prestar landsins með fáum undantekningum jafnósnortnir
af danskri menningu og söfnuðir þeirra. Raunar má telja sérstætt að ekki
skuli hafa verið sendir hingað a. m. k. danskir biskupar í kjölfar siðaskipta til
að festa hinn nýja sið í sessi og vera til fyrirmyndar um evangelískt-lútherskt
kristnihald. Lítil kirkja þurfti í raun aðeins fáa slíka „fyrirmyndarklerka" til
að móta alla stéttina.42 A sögutíma Islandsklukkunnar kom vissulega til tals
að skipa danskan biskup til þjónustu hér á landi enda var þá öll æðsta stjórn
veraldlegra mála komin í hendur erlendra manna. Af því varð þó ekki.43
Þegar litið er til stjórnarfarslegrar uppbyggingar íslensku kirkjunnar á
hugtakið landskirkja einnig nokkurn rétt á sér. Fyrir siðaskipti var erkibisk-
up í Niðarósi beinn, nálægur og á tímabilum virkur yfirmaður íslensku kirkj-
unnar. Hún var því órofa hluti af hinni alþjóðlegu, kaþólsku miðaldakirkju.
Með siðaskiptum rofnuðu þessi kirkjulegu tengsl við umheiminn og íslenska
kirkjan varð sú eykirkja sem hún hefur verið upp frá því. Sjálandsbiskup,
hirðbiskup Danakonungs, var eftir þetta vígslufaðir íslenskra biskupa og
helsti ráðgjafi konungs um kirkjumál svo hér á landi sem annars staðar í rík-
inu. Stjómunarleg staða hans, vald og ábyrgð, var þó mun veikari og óljósari
en verið hafði um hina kaþólsku erkibiskupa. Styrkur hans hvíldi fremur á
umboði hans í danska embættismannakerfinu en stöðu sem kirkjuleiðtoga.
Réttarstaða íslensku kirkjunnar var líka um margt óráðin meðan stjórnar-
deildir einvaldsríkisins voru að ná fullum þroska. Eldri löggjöf og starfsregl-
ur héldu því gildi sínu við hlið þeirra meginreglna sem settar voru með
kirkjuskipan Kristjáns III. Það millibilsástand og sú óvissa sem slíku ástandi
fylgdi jók sjálfstæði íslensku kirkjunnar og gerði hana að réttnefndri lands-
kirkju.44
Við samningu Islandsklukkunnar og í gagnrýni sinni á lútherska kirkju al-
mennt virðist Halldór Laxness ekki hafa gert sér grein fyrir mun lands-
kirkjunnar á 17. öld og ríkiskirkjunnar sem komst ekki á hér á landi fyrr en
með heimsókn Harboes um miðja 18. öld. Af þeim sökum m. a. hætti honum
til að mála siðaskiptin full afdráttarlausum litum.45
A sögutíma Islandsklukkunnar höfðu biskupar, biskupsembættin og bisk-
upsstólarnir, ekki síst Skálholt, þungavigtarstöðu á Islandi enda segir að stað-
urinn sé „...miðja innlendrar formegunar, höfuð og forprís þjóðlífsins...“46
Embættið hafði þó á margan hátt sett ofan frá því sem áður var. Kemur þar