Andvari - 01.01.2002, Blaðsíða 92
90
SIGURÐUR RAGNARSSON
ANDVARI
ískt þjóðfélag. Þar sem ósigur Sovétríkjanna myndi vera ósigur fyrir
verkalýðinn um allan heim, berst hann á móti hvers konar einangrunar-
tilraunum, árásarherferðum, spellvirkjum auðvaldsins og öllum óhróðri
gegn hinu nýja þjóðfélagi. Flokkurinn vill auka hið viðskiptalega og
menningarlega samband við Sovétríkin og veita óhlutdræga fræðslu um
baráttu þeirra fyrir sköpun sósíalismans“.27) Sú jákvæða afstaða, sem
hér kemur fram, felur ekki í sér, að Sovétríkin væru fyrirmynd, sem apa
ætti eftir í einu og öllu. En í henni fólst viðurkenning á því, að Sovét-
ríkin færu fyrir í þeirri miklu þjóðfélagstilraun, sem fólst í því að byggja
upp sósíalískt þjóðfélag, og að þau væru valdagrundvöllur sósíalismans
í heiminum. Einar Olgeirsson kvað upp úr með það árið 1946 í grein-
inni „Nokkrar hugleiðingar um lýðræði og baráttuna fyrir því“, að eins
flokks kerfið í Sovétríkjunum væri sérstakt sögulegt fyrirbrigði, bundið
við þróunina í þeim ríkjum og á engan hátt fordæmi um það fyrirkomu-
lag, sem yrði í öðrum löndum.28) Og hann hamraði líka æ ofan í æ á sér-
stöðu íslendinga meðal þjóða heims, sem ætti að gera þeim kleift að
koma á sósíalisma með friðsamlegum hætti eftir þingræðisleiðum í
samræmi við sögulegar erfðir þjóðarinnar og aðstæður í landinu. Víst
er, að skoðanir af þessu tagi áttu ekki upp á pallborðið hjá sovéskum
valdsmönnum á árunum eftir stríð og sama má segja um þá afstöðu
íslenskra sósíalista að taka á engan hátt undir fordæmingu Sovétmanna
á Júgóslövum eftir að í odda skarst með þeim árið 1948.29)
Á árunum eftir stríð áttu íslenskir sósíalistar margvísleg samskipti
við sósíalísku löndin. Sósíalistaflokkurinn sendi áheyrnarfulltrúa á
þing valdaflokka í þessum löndum, og hann hafði milligöngu um, að
ungir flokksmenn gætu komist þangað til náms. Einnig þáði flokkur-
inn boð um að senda sendinefndir af ýmsu tagi til þessara ríkja, og
flokksmenn beittu sér fyrir stofnun vináttufélaga til að rækta menning-
arsamskipti við þau. Sem formaður flokksins var Einar Olgeirsson
öðrum fremur á oddinum í þessum og öðrum alþjóðlegum sam-
skiptum. Ekki alls fyrir löngu hafa komið fram heimildir, sem gefa til
kynna fjárhagslega fyrirgreiðslu sovéskra kommúnista við íslenska
sósíalista. Samkvæmt þeim fékk flokkurinn fjárstyrk nokkrum sinnum
á árunum 1955-1966, auk þess sem bókmenntafélagið Mál og
menning fékk fjárstuðning við önnur tækifæri. Var hér um verulega
upphæð að ræða. Þótt ekki verði um það sagt með fullri vissu, bendir
flest til, að mestallt eða allt það fé, sem hér um ræðir, hafi runnið til
Máls og menningar, sem reist hafði sér hurðarás um öxl með byggingu