Skírnir - 01.01.1939, Blaðsíða 63
Björn Þórðarson
Eiríks saga rauða Nokkrar athuganir
Fornritafélagið hefir til þessa efnt dyggilega það lof-
orð sitt að gefa almenningi hér á landi kost á að lesa hin
dýrmætu fornrit vor í útgáfu, sem þeim er samboðin. For-
málinn að hverju riti veitir svo víðtæka og trausta fræðslu,
að lesandinn fær við lestur ritsins sjálfs nýja innsýn í
það, enda þótt hann hafi talið sig vera sæmilega kunnug-
an því áður. Sumir formálarnir eru með þeim ágætum,
að lesandinn verður heillaður af og tekur sárt, ef höfund-
ur lætur það falla úr penna sínum, að hann verði að tak-
marka mál sitt, en allir eru þeir byggðir á víðtækustu
rannsókn og svo skilmerkilega ritaðir, að unun er hverj-
um einum, er ann íslenzkum fræðum, að lesa þá. Formál-
inn ásamt skýringum við texta hvers rits eykur ekki að-
eins skilning á því heldur og laðar lesandann til nánari
íhugunar um ritið og einstök atriði þess. Þetta getur aft-
ur orkað því, að ólærður maður í þessum fræðum tekur
að meta ritið, tilgang þess og gerð, eftir eigin hyggjuviti,
og öðlast þá jafnvel sannfæringu um þessi efni, sem ekki
samrýmist skilningi hinna lærðu fræðimanna, sem um rit-
ið hafa fjallað.
Þetta hefir leitt höfund ritgerðar þeirrar, er hér fer á
eftir, til þess að færast það í fang að reyna að sýna fram
á, að annar skilningur á tilgangi og gerð þess rits, sem
að ofan greinir, sé réttari í sumum aðalatriðum en sá, er
kemur fram í formála þess. Höfundur gengur þess ekki
dulinn, að hér er við nokkurt ofurefli að etja, en trúin á
réttan málstað gefur honum styrk.