Skírnir - 01.01.1939, Blaðsíða 175
Thomas Hardy
Egdonheiði
Það var komið að rökkri laugardagskvöld eitt í nóvem-
ber, og hið mikla eyðisvæði, sem kallað er Egdonheiði, varð
brúnleitara með hverju augnabliki. Hvít skýjaslæða huldi
himinhvolfið eins og tjald, og gjörvöll heiðin var gólfið.
Þar sem himinninn var í þessum fölva hjúp og jörðin
klædd sínum dekksta gróðri, var markalína þeirra skýr við
sjóndeildarhringinn. Vegna andstæðunnar var sem nóttin
hefði setzt að þarna á heiðinni, áður en stjörnutími hennar
var kominn; þar var allmjög rökkvað, þó að enn væri
drjúgum dagur á lofti. Ef maðurinn í viðarmónum hefði
litið til lofts, mundi hann hafa hneigzt að því að halda
áfram vinnu sinni; en hefði hann litið til jarðar, mundi
hann hafa tekið það ráð, að binda baggann sinn og halda
heim. Það virtist vera tímamunur, engu síður en efnis-
munur, á himni og jörðu. Yfirlitur heiðarinnar jók hálfri
stundu við kvöldið; á sama hátt gat hann seinkað dögun-
inni, daprað hádegið, vakið ugg um ófæddar stormhviður
og magnað myrkur tunglslausrar nætur, svo að það and-
aði frá sér ógn og skelfingu.
Einmitt á þessu stigi rökkursins hófst hin mikla og sér-
kennilega dýrð Egdonauðunarinnar, og enginn gæti talizt
skilja heiðina, sem ekki hefði verið þar á slíkri stund.
Hún fannst bezt, þegar hún sást ekki greinilega, fullnaðar-
áhrif hennar og skýring komu fram á þessari stund og
næstu stundunum fyrir dögun: þá, og aðeins þá, sagði hún
sögu sína eins og hún var. Þessi staður var raunar ná-
skyldur nóttunni, og þegar hún nálgaðist, virtist einhver
aðdráttur koma fram í skuggum hans og skapnaði. Hið
þungbúna leita- og lautasvæði virtist hefjast upp og mæta
kvöldmyrkrinu í hreinni samúð, heiðin anda frá sér myrkr-
inu eins hratt og himinninn steypti því yfir. Og svona
mættist myrkur lofts og lands á miðri leið og féllst í faðma
í svarta-bróðerni.