Valsblaðið - 11.05.1972, Síða 50
48
VALSBLAÐIÐ
Áður fyrr fór ég oft að horfa á
leiki, sérstaklega stærri leiki og lands-
leiki, en í seinni tíð læt ég mér nægja
að horfa á sumar íþróttir í sjónvarp-
inu og hlusta á útvarpslýsingar. Og
ekki vantar að ég fái greinagóða
skýrslu um leiki, sem bóndinn fer að
horfa á og þrautþekki þar af leið-
andi allar mögulegar og ómögulegar
„taktíkur".
Nú veit ég, og raunar flestir Vals-
menn, að Sigurður bóndi þinn hefur
starfað mikið fyrir Val á umliðnum
áratugum og gerir enn. Hvaða áhrif
hefur þetta á þig og hvert er við-
horf þitt til slíkra áhugamála?
Ég játa það hreinskilnislega, að
ég hef ekki alltaf verið sérlega ánægð
með, hvað hann hefur eytt miklum
tíma, að mínu viti, í störf fyrir Val,
og fundist stundum, að hann léti ým-
islegt sitja á hakanum hér heima
fyrir. Hann hefur heldur ekki getað
vanið sig á að vinna skikkanlegan
vinnudag í sínu daglega starfi, svo
að viðstaðan heima hefur oft verið
stutt, sérstaklega meðan hann stund-
aði æfingar, tók þátt í leikjum, var í
stjórn, nefndum, ráðum og guð má
vita hvað, og þegar sumu þessu lauk
tók Sigurður til við mokstur, smíðar,
málun og þess háttar. Mér er hins
vegar ljóst, að ef menn eru í svona
félagsskap á annað borð, verða þeir
allir að vinna að félagsmálunum að
meira eða minna leyti og það eru
ábyggilega geisimikil störf, sem unn-
in eru í félögum eins og Val og þarf
marga menn til. Ég veit, að Sigurði
hefur verið það mikið áhugamál, að
geta lagt sinn skerf af mörkum í þágu
Vals og hefur haft mikla ánægju af
samstarfi við marga menn í félaginu
og þar eru hans beztu kunningjar,
svo að ég hef látið mér þetta sæmi-
lega líka og glaðzt yfir, þegar vel
hefur gengið og einhverjum árangri
hefur verið náð, reynt að vera hug-
hreystandi, þegar á móti hefur blásið,
t. d. þegar Valur hefur verið burst-
aður. Nú, svo hefur hann verið að
trúa mér fyrir því nokkur undanfar-
in ár, að hann væri alveg að hætta
þessu stússi.
Hefur þú haft áhugamál utan heim-
ilisins ?
Ég held mig mest við heimilið og
hef lítið sinnt félagsstörfum. Ég var
að vísu skáti í gamla daga og hef
nokkra undanfarna vetur verið í hópi
eldri kvenskáta, sem koma saman
einu sinni í viku til að vinna að gerð
muna á bazar, sem haldinn hefur
verið árlega til styrktar kvenskáta-
hreyfingunni. Einnig förum við í eitt
ferðalag á hverju sumri. Þetta er
skemmtileg tilbreyting, því að þarna
er glatt á hjalla og gaman að hitta
gamla kunningja. í þessu sambandi
kemur mér í hug, að mig hefur oft
furðað á því, hve eldri Valsmenn hitt-
ast sjaldan á góðri stund. Það væri
ábyggilega mikill styrkur fyrir félag-
ið að hafa meira samband við þá.
Ég hef að vísu séð marga þeirra suð-
ur á Hlíðarenda 11. maí og haft gam-
an af að sjá, hve þeir skemmta sér
vel, þegar þeir eru að rifja upp gaml-
ar minningar og sigra. Það mættu
þeir gjarnan gera oftar en 11. maí
(og hafa konurnar með).
S.l. sumar bjó hjá okkur einn af
fararstjórum norsku piltanna, sem
Valur tók á móti, hann var faðir eins
þeirra. Fyrir nokkrum árum bjó hjá
okkur dönsk kona, sem var ein af
fararstjórum piltaflokks, sem heim-
sótti Val. Þetta bendir til þess, að
erlendis láti foreldrar sig einhverju
skipta störf félags þess, sem börn
þeirra eru í. Mér hefur dottið í hug,
hvort ekki sé skynsamlegt fyrir félög
eins og Val að hafa meira samband
við foreldra krakkanna og fá þá til
starfa. Ég held t. d. að það væri mjög
gott fyrir félagið og foreldra barn-
anna, að það væri jafnan einn faðir
(eða móðir) með í hverri ferð yngri
flokkanna, hvort sem farið væri langt
eða skammt.
Mig langar til að geta þess, ein-
mitt í sambandi við störf félags-
manna, hve gaman hefur verið að sjá
handboltastúlkur Vals annast veit-
ingar 11. maí og á Valsdaginn af mikl-
um myndarbrag. Ég er viss um, að
konum margra eldri Valsmanna
myndi vera ánægja að því að leggja
til kökur við slík tækifæri.
Hvernig fannst þér, þegar Sigurð-
ur kom heim eftir unninn leik eða
mót?
Það er nú orðið svo langt síðan,
að ég er næstum búin að gleyma því.
Jú, sannarlega var það skemmtilegt
og nokkur uppbót á fjarverunni. Ann-
ars heyrði ég það á fótatakinu og
heyri enn, þegar hann kemur heim
af kappleik, hvernig Val hefur vegn-
að. Ég spyr oftast, hvernig hafi geng-
ið og annað hvort er svarið: „Auð-
vitað vann Valur, hvernig spyrðu,
kona“, eða svarið kemur seint.
Hafa börnin ykkar stundað íþrótt-
ir?
Það er varla hægt að segja það.
Dóttir okkar var í sundi hjá Ármanni
og náði sæmilegum árangri en hætti
of fljótt. Sonur okkar var, eins og
allir strákar, nokkuð í fótbolta suð-
ur á Hlíðarenda, en hafði ekki næg-
an áhuga, þegar á reyndi.
Svo er hér ein svolítil samvizku-
spurning. Heldur þú, að Sigurður
hefði verið betri eiginmaður, ef hann
hefði setið heima öll kvöld eftir
vinnudag?
Það er erfitt fyrir mig að svara
þessu, ég hef svo litla reynslu af því
ennþá. Nú, hann hefur eiginlega verið
ágætur alla tíð, eða þessi 28 ár, sem
við höfum verið gift. En ég neita bví
ekki, að ég hlakka til, þegar hann
fer að verða meira heima.
Knattspyrnusamband íslands heiðrar 3 Valsmenn.
Á 1000. fundi sínum heiðraði stjórn KSÍ fimm menn æðsta heiðursmerki sínu, og
þar af voru þrír Vals-menn. Þessir Valsmenn voru: Sveinn Ziiega, Einar Björnsson
og Frímann Helgason. Hinir tveir voru Jón Magnússon og Björgvin Schram. Allir
hafa menn þessir komið mikið við sögu knattspyrnunnar, á s.l. 40 árum, flestir bæði
sem knattspyrnumenn og forustumenn. Er þeim hér árnað heilla með heiðurinn.