Iðunn : nýr flokkur - 01.10.1930, Blaðsíða 84
406
Þrjár bækur.
IÐUNN
verulegra muna, en hún hefði getað styrkt þær mjög.
Nú er því að vísu til að gegna, að harla fátt er til af
beinum heimildum um æfi Jesú og starf, og varla annað
en það, sem höf. greinir frá og notar. En eigi að síður
er hér mikil veila. Vtrari rannsókn á stjórnarháttum,
félagslegum högum og andlegu lífi Gyðingaþjóðarinnar
um það bil, er Jesús kom fram, að því er menn ætla,
hefði mátt skapa meginskoðun höf. traustari bakgrunn,
og birt orsakarnauðsyn, sem auðveldlega fær dulist, þá
er skoðun hans er sett fram sem andstæða gamalla
trúarlegra hugmynda. Það hefði engu spilt, þótt bent
hefði verið á, betur en gert er, og rök færð til, hve
geysilega stéttabaráttan var gömul í landi hjá hinni
»útvöldu þjóð«, hve harðvítug hún hafði verið, og að
það voru einmitt spámennirnir, sendiboðar Guðs, sem
öðrum fremur höfðu gerst talsmenn hennar meðal hinna
snauðu og undirokuðu. Það hefði verið gaman, að á
það hefði verið bent, rækilegar en gert hefur verið, hve
nærri það lá manni, sem fann sig kallaðan af Guði til
spámannsstarfs, að snúast einmitt svo við þeim málum.
Alls þessa sakna ég í bókinni og raunar margs annars,
en skil, að það er afar örðug aðstaða höf. til slíkra
rannsókna, sem þess er valdandi.
En hér er um miklu alvarlegri veilu að ræða en þá,
sem ýmsir ritdómendur hafa borið séra Gunnari á brýn,
að hann færi flausturslega eða jafnvel ósamvizkusamlega
með heimildir sínar. Hann skilur að vísu ákaflega á við
erfikenningu kirkjunnar og venjulegar skýringar. En hver
einasti guðfræðingur veit, hve erfikenningarnar og skýr-
ingarnar hanga víða í lausu lofti. Úr ofurlitlum brotum
af samtölum og dreifðum frásögnum, sem sumar hverjar
hvíla á mjög veikum heimildum, og ennfremur nokkrum
bréfum, sem vitað er um, að staðreyndir eru þar teygðar
í þágu trúfræðilegra skýringa hver um aðra þvera, hefur
verið komið upp sögu, sem nær um margra ára bil.
Öldum saman hafa guðfræðin og kirkjan verið að hlaða
þar í skörðin. Séra Gunnar hefur farið nákvæmlega
eins að. Hann hefur að eins gert það í skjótri svipan
og í gerólíkum tilgangi. Og þó bók hans nái ekki að