Tímarit lögfræðinga - 01.11.1994, Side 30
Jafnvel hafa gögn um skýran vilja samningsaðila orðið að víkja fyrir öðrum
sjónarmiðum um túlkun, svo sem skýrt kom fram í dómi mannréttindadóm-
stólsins í máli Young, James og Webster gegn Bretlandi47 og nú síðast í
dómi mannréttindadómstólsins í máli Sigurðar A. Sigurjónssonar gegn Is-
landi (sjá 4.2.5).
4.2.3 Samræmisskýring (systemic interpretation)
í 31. gr. Vínarsáttmálans er samræmisskýring nefnd og er það lögskýr-
ingarsjónarmið mjög mikilvægt í beitingu mannréttindadómstólsins á ákvæð-
um sáttmálans. Er þar átt við að ákvæði sáttmálans séu skýrð til samræmis
við önnur ákvæði hans og við sáttmálann í heild. Það er misjafnt hve víðtæk
samræmisskýringin er, þ.e. hvort samræmis sé gætt við beitingu tiltekinnar
greinar við aðrar greinar sama ákvæðis, við önnur ákvæði sáttmálans eða við-
auka við hann, eða jafnvel við aðra alþjóðlega sáttmála eða lagatexta.48 Það
má segja að við afmörkun á því sviði, þar sem samræmisskýring á við, sé til
mótvægis hægt að líta til sjálfstæðrar skýringar (e. autonomous interpret-
ation) sem byggir á ákvæðum sáttmálans, skýrðum út frá hugmyndum og
uppbyggingu mannréttindasáttmálans sjálfs, án þess að vísað sé út fyrir sátt-
málann. Þessi sjónarmið útiloka því að nokkru leyti hvort annað. Sjá nánar
um sjálfstæða skýringu stofnana Evrópuráðsins í kafla 4.3.1.
4.2.4 Tilgangsskýring (teleological interpretation)
Auk samræmisskýringar er tilgangsskýring (e. teleological interpretation)
eitt mikilvægasta lögskýringarsjónarmiðið sem mannréttindadómstóllinn beitir
og er í raun kjarninn í túlkunarstarfi dómstólsins. 1 tilgangsskýringu felst að
ákvæði sáttmálans eru skýrð á þann veg að tilgangur þeirra náist og verður
þá jafnframt að ákvarða það markmið sem stefnt er að, t.d. hvort stefnt er
að því að ná því markmiði, sem aðildarríki að sáttmálanum settu sér við samn-
ingsgerð, eða hvort miðað er að sem víðtækastri vernd einstaklingsréttinda.
Tilgangsskýring tekur mið af tilgangi einstakra ákvæða, svo og ákvæða sátt-
rnálans í heild. Til að gera fullnægjandi grein fyrir þessu skýringarsjónarmiði
dómstólsins yrði að rekja dómaframkvæmd ítarlegar en hér er kostur. Hins
vegar má benda á viðmið dómstólsins um hvernig markmið eða tilgangur
sáttmálans eru ákvörðuð, og eru það einkum þrjú viðmið sem ráða niður-
stöðu:49
47 Mál Young, James og Webster (dómur 25. nóvember 1980) Series A vol. 44.
48 Sjá hér m.a. dóm mannréttindadómstólsins í máli Sigurðar Á. Sigurjónssonar, Series A vol.
264, fors. 35.
49 Francois Ost: „The Original Canons of Interpretation...", bls. 294-302.
178