Tímarit lögfræðinga - 01.11.1994, Blaðsíða 63
Þessu næst var gengið til stjómarkosninga og þá fyrst til kosningar formanns
félagsins til eins árs, en fyrir lá tillaga um Ragnar Aðalsteinsson hrl. sem
formann. Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl. stakk upp á Eiríki Tómassyni hrl.,
sem stjómarformanni næsta árið og fór hann fram á að atkvæðagreiðsla yrði
skrifleg. Ekki komu fleiri framboð og var ákveðið að skrifleg atkvæðagreiðsla
færi fram.
Urslit kosninganna urðu þau að alls greiddu atkvæði 261. Af þeim fékk
Ragnar Aðalsteinsson 134 atkvæði og Eiríkur Tómasson 119 atkvæði. Auðir
seðlar voru 8.
Eftir að úrslit lágu fyrir tók Ragnar Aðalsteinsson til máls og færði hann
fundinum þakkir fyrir hönd stjórnar L.M.F.I. fyrir þann stuðning við verk
stjórnarinnar, sem hann taldi felast í úrslitunum. Sagði hann að enginn vafi
léki á því, að þessi niðurstaða væri til þess fallin að hvetja stjórnarmenn og
alla aðra trúnaðarmenn félagsins til enn betri verka og enn betra samráðs við
félagsmenn um viðfangsefni félagsins á hverjum tíma. Sagði hann ennfremur
að stjómin legði áherslu á að efla að nýju þá samstöðu, sem verið hefði í
félaginu að undanfömu. Vonaðist hann til að um heilt gréri með félagsmönn-
um þrátt fyrir kosningaátök undanfarinna daga og vikna.
Þá tók til máls Eiríkur Tómasson, hrl. og óskaði Ragnari Aðalsteinssyni til
hamingju með sigurinn. Kvað hann ástæðuna fyrir því að hann hefði gefíð
kost á sér til formanns þá, að hann hefði talið að formaður félagsins nyti ekki
stuðnings og trausts félagsmanna. Annað hefði hins vegar komið á daginn.
Sagði hann ennfremur að margir félagsmenn hefðu tekið þátt í kosningabarátt-
unni og skoraði hann á alla að fylkja sér saman að baki nýkjömum formanni.
Á dagskrá aðalfundarins var meðal annars tillaga um fulla aðild L.M.F.Í.
að CCBE (Conseil des Barreaux de la Communauté Européenne, sem þýtt
hefur verið sem Ráð lögmannafélaga í Evrópubandalaginu). Formaður félags-
ins fylgdi tillögunni úr hlaði og sagði að síðast þegar málið hefði verið tekið
fyrir á framhaldsaðalfundi félagsins í fyrra hefði verið samþykkt að sækja um
áheymaraðild að CCBE og sjá síðan til hver útkoman yrði. Eftir það yrði
tekin afstaða til þess, hvort félagið sækti um fulla aðild að CCBE eða hvort
hætt yrði við þátttöku í samtökunum. Formaðurinn gerði síðan grein fyrir
þeim kostnaði, sem fælist í aðildinni, aðallega árgjaldi til CCBE, en árgjaldið
væri lægra en t.d. það sem Luxemburg greiddi. Þá hefði félagið fullan at-
kvæðisrétt innan CCBE.
Næstur tók til máls Jakob R. Möller hdl. Kvaðst hann enn vera á báðum
áttum varðandi aðild að CCBE. Ljóst væri að stjómin hefði náð miklum
árangri með árgjald til samtakanna og atkvæðisrétt. Á hinn bóginn taldi hann
málamyndaþátttöku í starfi samtakanna ekki nægja og einnig kostaði það
stórfé að vera aðili að samtökunum. Lagði hann til að atkvæðagreiðslu um
aðild L.M.F.Í. að CCBE yrði frestað til framhaldsaðalfundar og að fyrir þann
fund yrði þá jafnframt lögð fram nákvæm kostnaðaráætlun vegna aðildarinnar.
Sfðar á fundinum dró hann tillögu sína til baka.
211