Tímarit lögfræðinga - 01.10.1999, Blaðsíða 46
1. INNGANGUR
Þann 10. desember 1998 veitti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit í máli Erlu
Maríu Sveinbjörnsdóttur gegn íslenska ríkinu.1 Tildrög þess voru þau að Erla
María Sveinbjömsdóttir höfðaði skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu fyrir
Eléraðsdómi Reykjavíkur. Mál sitt byggði hún á því að ríkið hefði ekki leitt
tilskipun ráðherraráðs EBE nr. 89/987/EBE í landsrétt. Með því hefði íslenska
ríkið brotið skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um Evrópska efna-
hagssvæðið sem undirritaður var í Óportó hinn 2. maí 1992 (EES-samningur-
inn) og bæri því að bæta henni það tjón sem hún hefði orðið fyrir. Hinn 5.
nóvember 1997 kvað héraðsdómur upp þann úrskurð að aflað skyldi álits
EFTA-dómstólsins á tveimur svohljóðandi spumingum:
1. Ber að skýra gerð þá sem er að finna í 24. tl. í viðauka XVIII við Samninginn um
Evrópska efnahagssvæðið (tilskipun ráðsins nr. 80/987/EBE frá 20. október 1980,
eins og henni var breytt með tilskipun ráðsins 87/164/EBE frá 2. mars 1987), einkum
2. mgr. 1. gr. og 10. gr. hennar, á þann veg að samkvæmt henni megi með landslögum
útiloka launþega, vegna skyldleika við eiganda sem á 40% í gjaldþrota hlutafélagi,
frá því að fá greidd laun frá ábyrgðarsjóði launa á vegum ríkisins þegar launþeginn
á ógoldna launakröfu á hendur þrotabúinu? Um er að ræða skyldleika í fyrsta lið til
hliðar, þ.e.a.s. systkini.
2. Ef svarið við spumingu nr. 1 er á þá leið að launþegann megi ekki útiloka frá því
að fá laun sín greidd varðar það n'kið skaðabótaábyrgð gagnvart launþeganum að
hafa ekki, samfara aðild sinni að Samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, breytt
landslögum á þann veg að launþeginn ætti samkvæmt þeim lögbundinn rétt til
launagreiðslnanna?
Skemmst er frá því að segja að EFTA-dómstóllinn áleit svarið við fyrri
spumingunni jákvætt. Hér verður ekki frekar fjallað um þá niðurstöðu. í
ráðgefandi áliti sínu komst dómstóllinn að svohljóðandi niðurstöðu um seinni
spuminguna:
Aðilum EES-samningsins ber skylda til að sjá til þess að það tjón fáist bætt sem
einstaklingur verður fyrir vegna þess að landsréttur er ekki réttilega lagaður að
ákvæðum tilskipunar sem er hluti EES-samningsins.
Héraðsdómur féll í málinu þann 18. mars s.l. og var niðurstaðan sú að stefn-
anda, Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur, voru dæmdar bætur á grundvelli EES-
samningsins.2 Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Hér á eftir verður fjallað um ýmis atriði sem tengjast áliti EFTA-dómstólsins.
í því samhengi ber að hafa í huga að álit EFTA-dómstólsins lýtur að EES-
samningnum sem er þjóðréttarsamningur. Við umfjöllunina verður því að taka
1 Mál nr. E-9/97.
2 Mál nr. E-1300/1997.
198