Tímarit lögfræðinga - 01.10.1999, Blaðsíða 88
Ráðstöfun getur verið óvenjuleg vegna hagsmunatengslanna og er þá heim-
ilt við skattlagningu að líta framhjá þessum ráðstöfunum eða skilyrðum sem
teljast óvenjuleg og skattlagning fer fram eins og þessi skilyrði hafi ekki verið
til staðar. Skilyrði þess að unnt sé að telja ráðstöfun til ólögmætrar skattasnið-
göngu og líta framhjá þeim við skattlagningu þegar um hagsmunatengsl er að
ræða hafa verið talin:54
að skattyfirvöld sýni fram á hagsmunatengsl,
að skattyfirvöld sanni eða geri líklegt að umrædd ráðstöfun eða tilfæring sé
óvenjuleg í samanburði við ráðstöfun óskyldra aðila við sambærilegar
aðstæður,
að álitið sé að hin óvenjulega ráðstöfun sé afleiðing af hagsmunatengsl-
unum.
Skattyfirvöld þurfa að sýna fram á að ráðstöfun sé óvenjuleg. Það getur
verið erfitt og aðeins unnt að lýsa því almennt hvaða viðmið er hægt að hafa,
sbr. armslengdarregluna „the arm’s length principle".55 Hér er litið til þess
viðmiðs að samningsskilmálar væru eins og þeir myndu vera milli óskyldra
aðila. Rétt er að taka fram að eðli hagsmunatengslanna getur haft áhrif hér t.d.
að sé mikil hætta á misnotkun aðstöðu í skattalegu tilliti þá hefur verið talið
að slaka megi á sönnunarkröfum um óvenjuleika ráðstöfunar. Þetta getur líka
gilt t.d. á „lokuðum mörkuðum“ þar sem ekki er unnt að staðreyna hvað eru
venjuleg eða óvenjuleg viðskipti.56
Armslengdarreglan kemur t.d. fram í 8. gr. laga nr. 50/1988 þar sem segir
að miða eigi skattverð við „almennt gangverð“ en liggi það ekki fyrir skuli
miða við reiknað útsöluverð þar sem tekið hefur verið tillit til alls kostnaðar
að viðbættri álagningu sem almennt sé notuð á vörur og þjónustu af sama tagi.
Þá er í 9. gr. laganna ákvæði um að í viðskiptum milli skyldra aðila skuli miða
skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum milli ótengdra aðila.
Notkun þessarar reglu felur í sér að álagningargrundvöllurinn er í raun
„ímyndaður“ - hvemig ráðstöfun væri ef ekki væri um skylda aðila að ræða.
Aréttað skal að þegar „armslengdarreglunni“ er beitt er um að ræða skatta-
réttarlega gildar ráðstafanir sem slíkar, en skilyrði eru óeðlileg, t.d. verð.57
54 J.O. Engholm Jacobsen o.fl.: Skatteretten 1. 1995, bls.102.
55 I 9. gr. samningsfyrirmyndar OECD um tvísköttunarsamninga er að finna skilgreiningu á
„Arm’s lenght principle", þar sem „conditions are made or imposed between the two enterprises in
their commercial or financial relation which differ from those which would be made between
independent enterprises, then any profits wich would, but for those conditions, have accrued to one
of the enterprises, but, by reason of those conditions, have not so accrued, may be included in the
profits of that enterprise and taxed accordingly'". Sjá einnig OECD Transfer Pricing Guidelines, júlí
1995, um armslengdarregluna.
56 Jan Pedersen: Skatteudnyttelse. 1989, bls. 321
57 Sjá Jan Pedersen: Skatteudnyttelse. 1989, bls. 323. Sjá einnig úrskurð yfirskattanefndar nr.
314/1999 þar sem um gilda skattaréttarlega ráðstöfun var að ræða milli tengdra aðila en verð
óvenjulegt og litið framhjá því skattahagræði sem af þvf leiddi.
240