Tímarit lögfræðinga - 01.09.2000, Page 72
á heimildum til að semja um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sem felast í
þessum kafla. Það skýtur á hinn bóginn óneitanlega skökku við að setja slrkum
samningum svo þröngar skorður á meðan fullt frelsi er til að semja um almenna
vexti og hvatt til þess, að einnig verði heimilt að semja um hæð dráttarvaxta.
7. REGLUR VI. KAFLA. VIÐURLÖG OG MÁLSMEÐFERÐ
Almennt verður að huga að endurskoðun á reglum VI. kafla vaxtalaga. Hafa
verður í huga, að reglur um viðurlög bera keim af því, að fyrir gildistöku
vaxtalaga hafði ríkt mikil réttaróvissa og að alvarleg okurmál höfðu komið upp
og voru til meðferðar. Er eitt af markmiðum laganna að tryggja efnisleg
málalok í þeim okurmálum, sem enn voru til meðferðar fyrir dómstólum.20 Enn
ríkari ástæða verður til endurskoðunar á viðurlagaákvæðunum, ef heimilað
verður að semja um hæð dráttarvaxta. Verður þá t.d. ekki séð, að sérstök þörf
sé lengur á reglu 1. mgr. 26. gr., en huga þarf þó að örlögum 2. mgr. Telja verður
þó að full ástæða sé til að halda í ýmsar reglur VI. kafla, einkum þær sem telja
má skýringarreglur, sbr. t.d. 2. og 4. mgr. 25. gr. og 27. gr., þ.e. um tilvik þar
sem samningur um vexti eða dráttarvexti er ógiltur t.d með stoð í 36. gr.
samninga-laga, en bæta þarf þó orðalag ákvæðisins.
8. UM ÁKVÆÐI TIL BRÁÐABIRGÐA
Eins og ákvæði til báðabirgða bera glögglega með sér, taka þau til lánssamn-
inga, sem gerðir eru fyrir gildistöku laganna. Varla er mörgum slíkum ólokið
nú, 13 árum eftir gildistöku laganna, þótt ekki sé unnt að fullyrða um það. Þótt
af þessum ástæðum mætti fella úr gildi reglur ákvæða til bráðabirgða getur
verið ástæða til að hafa áfram í gildi skýringarreglur 1. mgr. ákvæðis II og er
ástæða til að ætla að enn ríkari þörf sé fyrir slíka reglu, ef heimilað verður að
semja um hæð dráttarvaxta.
9. LOKAORÐ
I þessari grein hefur verið fjallað um ýmis atriði, sem þarf að taka til
athugunar við endurskoðun vaxtalaga. Þau atriði, sem tekin hafa verið til
umfjöllunar eru ekki tæmandi, en að líkindum hefur þó verið tæpt á flestum
þeim atriðum sem mikilvægust má telja.
20 Alþingistíðindi 1986-87, A-deild, bls. 2841.