Tímarit lögfræðinga - 01.12.2002, Blaðsíða 22
í þessum dómi er um að ræða svipaða beitingu sönnunarreglna og áður getur
um bótaábyrgð lækna. Segir beinlínis, eftir að búið er að slá því föstu að stefndu
hafi sýnt af sér saknæma háttsemi, sem líklegt er að leitt hefði til tjóns, verði
þau að bera hallann af sönnunarskorti um að tjón hefði ekki orðið. M.ö.o.
Hæstiréttur telur sér fært í málinu að snúa við sönnunarbyrði um afleiðingar
saknæmrar háttsemi.
í H 1996 1279 er deilt um rétt kaupanda fasteignar til skaðabóta úr hendi
fasteignasala. I þessum dómi er sönnunarreglum beitt að ýmsu leyti með hag-
felldum hætti fyrir tjónþola, þótt ekki verði sagt, að sönnunarbyrði um afleið-
ingar bótaskyldrar háttsemi sé snúið við.25
Af framangreindu má draga þá ályktun, að sú afstaða dómstóla að beita sönn-
unarreglum með hallkvæmum hætti fyrir tjónþola í bótamálum gegn læknum
og sjúkrastofnunum hefur víðtækara gildi. Þessi afstaða dómstóla hefur verið
orðuð svo:
Ef það sannast við beitingu almennra sönnunarreglna, að læknir eða eftir atvikum
annar starfsmaður sjúkrastofnunar, hefur sýnt af sér saknæma háttsemi, athöfn eða
athafnaleysi, og skaði verður, sem hugsanlega verður rakinn til hinnar saknæmu
háttsemi, ber læknirinn eða sjúkrastofnunin fulla skaðabótaábyrgð, nema þau sanni
að skaðinn hefði orðið þó að fullrar aðgæzlu hefði verið gætt. Sönnunarbyrði um
afleiðingamar er m.ö.o. snúið við.26
Dæmi eru um slíka beitingu, þegar lögmenn eiga í hlut, en hafa ber í huga,
að þar var um líkamstjón að ræða. Ekki er útilokað, að dómstólar teldu sér heimilt
að beita sönnunarreglum með líkum hætti um bótaábyrgð annarra sérfræðinga
líka, ef ástæða væri til. Um það verður þó ekki fullyrt.
2.7.4 Sönnun um orsakatengsl, þegar fleiri en ein tjónsorsök kemur til
álita
Meginreglan um sönnunarbyrði tjónþola gildir vissulega einnig, þegar fleiri
en ein orsök geta verið fyrir tjóni. Má nefna dæmi úr dómaframkvæmd þar sem
svo háttar til, sbr.:
H 1958 350
Maður nokkur slasaðist í bifreiðaárekstri. Hann kvartaði unda þrálátum höfuðverk,
vanlíðan og úthaldsleysi eftir slysið, en læknar töldu að þessi mein hans ættu rót sína
að rekja til augnbilunar mannsins, en ekki umferðarslyssins. Var það álit lagt til
grundvallar dómi og kröfum mannsins um skaðabætur vegna þessara meina hafnað.
25 Um þennan dóm er ítarlega fjallað í grein Viðars Más Matthíassonar: „Helztu starfsskyldur
fasteignasala og skaðabótaábyrgð þeirra". Úlfljótur. I. tbl. 1997, bls. 311-345, hér bls. 341-344.
26 Jón Steinar Gunnlaugsson: „Um sönnunarbyrði í málum er varða skaðabótaábyrgð lækna og
sjúkrastofnana". Tímarit lögfræðinga. 3. hefti 1995, bls. 216.
326