Tímarit lögfræðinga - 01.12.2002, Page 29
Verki ábyrgðarorsökin á undan, en hin eðlilega orsök hefði áreiðanlega verkað
á eftir, ætti mismunarkenningin ekki að leiða til fullra bóta fyrir tjónþola. Hér
geta komið til ýmis afbrigði, t.d. þau sem lúta að því hve langan tíma orsakirnar
verkuðu. Meginreglan hlýtur að vera sú, að sá, er bótaskyldu ber á ábyrgðar-
orsökinni, verði ekki látinn bæta meira tjón en hann olli í raun, sbr. dóm í:
UfR 1925, bls. 769
S varð fyrir slysi við vinnu sína hjá K, er hann fékk rafstraum, þegar hann snerti
háspennuleiðslu. S taldist eiga skaðabótarétt á hendur K vegna vanrækslu við að-
búnað á vinnustað. Talið var að lækka bæri kröfu S vegna skemmda í vöðvaþráðum
hjá honum, sem leiddu til hluta af óvinnufæmi hans, en ekki var talið, að orsök þessara
vöðvaskemmda væri að rekja til slyssins.
í þessu felst, að það er tjónþoli, sem ber áhættu af afleiðingum hinna svo-
nefndu eðlilegu orsaka, ef ljóst er að þær hefðu orðið hinar sömu og leiddu af
ábyrgðarorsökum.32
Víst er þó, að minni háttar frávik yrðu viðurkennd á þessari meginreglu. Það
er alkunna, að sá sem ábyrgð ber á andláti annars manns, er skyldur til að greiða
útfararkostnað, auk bóta fyrir annað tjón, sbr. 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga.
Ekki er því tekið tillit til þess, að útfararkostnaður fellur alltaf til fyrr eða síðar.
Fyrir gildistöku skaðabótalaga gilti þessi regla einnig, sbr. H 1959 367. Önnur
tilvik má einnig nefna, t.d. neðangreindan dóm:
H 1. febrúar 2001, mál nr. 256/2000
K var til læknismeðferðar á sjúkrahúsi frá 26. janúar til 10. febrúar og frá 24. febrúar
til 14. marz vegna bakverkja. Síðasta daginn missti hann afl í fótunum og var
lömunin rakin til þess, að hann hefði fengið ígerð í brjósthol, sem skaddað hefði
mænuna. Var sjúkrahúsið talið bera ábyrgð á þessu heilsutjóni K. í bótamáli var deilt
um bótakröfu, sem tók til þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga þann tíma,
sem K var rúmfastur. Talið var rétt að dæma þjáningabætur frá 14. marz 1995, er
hann varð fyrir áfalli sínu, þótt ætla mætti, að hann hefði á þessum tíma verið
rúmfastur um nokkurt skeið vegna fyrri veikinda.
2.8.4 Lokaorð
Ekki er tilefni til frekari umfjöllunar um hin ýmsu blæbrigði samverkandi
eða sjálfstæðra tjónsorsaka. Við mat á bótaábyrgð verður að reisa niðurstöður á
skilyrðiskenningunni, þegar það er unnt, eftir atvikum með þeim fyrirvörum,
sem hér hefur verið gerð grein fyrir.
32 Stig j0rgensen: „Ársagsproblemer i forbindelse med personskade". Nordisk forsikringstid-
skrift. 3. hefti 1960, bls. 195.
333