Tímarit lögfræðinga - 01.12.2002, Síða 40
Ekki er kunnugt um íslenzka dóma, þar sem ríkið er krafið um skaðabætur
vegna mistaka við lögboðið eftirlit með búnaði og ástandi skráningarskyldra
ökutækja. Til er danskur dómur í UfR 1976, bls. 219, þar sem kaupandi bif-
reiðar fékk dæmdar bætur vegna mistaka eftirlitsaðilja við skoðun bifreiðar, og
sænskur dómur í NJA 1991, bls. 138, þar sem bifreiðareigandi fékk dæmdar
bætur fyrir skemmdir, sem urðu þegar dráttarbeizli húsvagns, er reyndist gallað
án þess að það uppgötvaðist við skoðun, brotnaði og olli tjóni á húsvagninum.50
Ályktanir um ábyrgð hins opinbera vegna lögboðins eftirlits þess
Eins og fram kemur í yfirlitinu hafa dómstólar almennt hafnað því, að til
bótaábyrgðar ríkisins geti komið vegna tjóns, sem verður vegna mistaka við
eftirlitið, þótt þau kunni að vera saknæm. Ekki virðast vera skörp skil milli þess
hvort sá, sem eftirlitið beinist gegn, verður fyrir tjóni, eða annar sem reiðir sig
á, að eftirlitsmenn hafi rækt skyldur sínar. Ekki verður þó útilokað, að munur
verði gerður þar á.
Þau mörk sem skaðabótaábyrgð eru sett með þessum dómum má, m.a. með
hliðsjón af orðalagi í forsendum sýknudóma þeirra, sem getið hefur verið, skýra
með því að þau tjón, sem um ræðir, hafi fallið utan verndartilgangs reglnanna.
Er sú skýring skiljanlegri en yrðu mörkin talin dregin eftir reglum um sennilega
afleiðingu, enda óvíst hvort sú skýring gæti dugað í öllum tilvikum. Ekki er þó
einhugur um, að þessi skýring sé bezt.51 Annað mál er svo, hvort rétt sé að
takmarka vemdartilgang reglnanna eins og gert er í dómunum. Ymislegt mælir
gegn því, t.d. að þeir, sem eftirlitið beinist gegn, kosta það nú orðið að lang-
mestu leyti. Eftirlitið hefur t.d., að því er varðar skráningarskyld ökutæki, verið
fært frá ríkinu til einkaaðilja. Er eðlilegt að spurt sé, hvort það hafi áhrif á rétt
til skaðabóta vegna mistaka við slíkt eftirlit. Ekki eru tök á að fjalla um þetta
nánar hér.
3.2.4.6 Tjón á hagsmunum þriðja manns
Líkamstjón
Þegar maður verður fyrir líkamstjóni, leiðir það oft til þess, að aðrir verða
einnig fyrir tjóni. Á það t.d. við um skyldmenni tjónþola, t.d. þegar börn slasast
og þarfnast meiri og kostnaðarsamari umönnunar en áður, og þá sem hafa verið
á framfæri þess, sem andast vegna líkamstjóns. Það á einnig við um vinnu-
veitanda tjónþola, sem greiða þarf honum forfallalaun, án þess að fá að njóta
vinnuframlags hans. Loks á það við um samstarfsmenn, t.d. meðeigendur að
50 Dómar þessir eru reifaðir stuttlega á bls. 42 og 43 í grein Arnljóts Björnssonar „Er bótaábyrgð
hins opinbera vegna gáleysis starfsmanna þrengri en vinnuveitandaábyrgð almennt?" Afmælisrit
Gauks Jörundssonar.
51 Arnljótur Björnsson: „Er bótaábyrgð hins opinbera vegna gáleysis starfsmanna þrengri en
vinnuveitandaábyrgð almennt?" Afmælisrit Gauks Jörundssonar, bls. 45. Amljótur rökstyður t.d.
að heppilegra væri að takmarka bótaábyrgð ríkisins í slíkum málum eftir reglum um sennilega
afleiðingu.
344